Er alltaf rétt að halda kyrru fyrir í bruna í fjölbýlishúsi

Höfundur Guðmundur Gunnarsson

Búið til 2017-06-25 kl 22:25

Uppfært af Guðmundur Gunnarsson

Uppfært 2019-01-29 kl 19:42

Eftir eldsvoða í fjölbýlishúsum þar sem fólk er hætt komið, fer oft af stað umræða um það hvernig íbúar í fjölbýlishúsum eiga að bregðast við. Ráðleggingar um að öruggast sé að halda kyrru fyrir í íbúðunum og bíða eftir björgun slökkviliðs hafa verið áberandi. Þetta getur oft átt við í nýlegum vel byggðum fjölbýlishúsum og á þeim stöðum þar sem vel búin slökkvilið eru en annarsstaðar er þetta ekki svona einfalt. Víða hagar svo til að slökkviliðin eru ekki nægjanlega vel búin til björgunar af efri hæðum húsa og í mörgum eldri húsum eru brunavarnir oft ófullnægjandi.
Hvað best sé að gera fer eftir aðstæðum í hverju húsi og leita ætti ráða hjá kunnáttumönnum t.d. slökkviliðsstjóra á hverjum stað.
Eldvarnir í nýrri húsum eru yfirleitt betri en í eldri húsum. Fjölbýlishús sem eru byggð eftir 1978 eiga að vera með eldþolinni hurð með reykþéttingu fram í stigaganginn, oftast kallaðar B30 hurðir, sem eiga að þola eld í 30 mín. Þessar hurðir eru gegnheilar, oftast 40 - 43 mm þykkar og með lista (yfirleitt rauðum) í falsinum og gúmmílista sem hurðin leggst að. Hurðirnar eru skrúfaðar fastar og milli karms og veggjar er þéttpakkað með steinull og kíttað yfir með eldþolnu kítti. Í fjölbýlishúsum byggðum fyrir 1978 var hinsvegar ekki gerð krafa um eldþolnar hurðir út í stigahúsið. Upphaflegu hurðirnar í þeim eru yfirleitt venjulegar innihurðir en einnig var algengt að í húsum sem eru byggð fyrir þennan tíma séu venjulegar glerrúður í hurðunum sem ekki eru eldþolnar eða að notaðar voru spjaldahurðir með 3 mm krossvið. Engar þessara hurða þola eld í meira en 5-10 mínútur auk þess sem þær eru ekki með reykþéttingum. Í þessum húsum getur fljótt skapast hætta komi upp eldur.
Fáið slökkvilið/smið til að skoða hurðirnar fram í stigahúsið (líka að geymsluganginum) og hvernig gengið er frá þeim og meta hvort þær hafi fullnægjandi eldþol og skipta um hurðirnar ef svo er ekki. Nýju hurðirnar bæta ekki einungis öryggið í húsinu heldur geta þær dregið mikið úr hávaða og lykt frá stigahúsinu. Hurðirnar þurfa að vera vottaðar af yfirvöldum. Uppbyggilegt verkefni fyrir næsta húsfund.
Með þessa þekkingu að vopni er hægt að setja upp nokkra valkosti um viðbrögð komi upp eldur:

  1. Ef stigahúsið er reyklaust ætti að íhuga það að koma sér út úr húsinu. Munið að loka hurðinni að íbúðinni á eftir ykkur.
  2. Ef stigahúsið er orðið reykfyllt þannig að hættulegt sé að fara um það ætti að fara aftur inn í íbúðina og loka á eftir sér og fara út á svalir. Loka svaladyrunum og láta vita af sér.
  3. Ef engar svalir eru á húsinu er mikilvægt að vera við glugga og vekja athygli slökkviliðsins á sér og einnig ætti að hringja í Neyðarlínuna og láta vita í hvaða íbúð þið eruð og hvar. Lokið hurðinni að herberginu sem þið eru í. Varast ætti að hafa gluggann opinn því þá getur trekkt í gegnum íbúðina.

Skoðið húsið með slökkviliðinu og farið yfir það hvaða viðbrögð eru best í ykkar húsi komi upp eldur -gera flóttaáætlun.

Mynd 1 (t.v.) Hurð fram í gang í fjölbýlishúsi eftir bruna. Hurðin sjálfstóðst brunann en reyktaumarnir á veggjunum sýna að engin þétting hefur verið á milli karms og veggjar.(Reykur undir gerekti). Mynd 2 (t.h.) Hurð fram í gang í fjölbýlishúsi eftir bruna. Reykleki í gegnum hurð.


Mynd 3 (t.h.) Hurð fram í gang í fjölbýlishúsi eftir bruna. Ísetning ekki í lagi. Mynd 4 (t.v.) Hurð fram í gang í fjölbýlishúsi eftir bruna. Hefðbundin innihurð.