1. HLUTI ALMENN ÁKVÆÐI

Aftur í: Efnisyfirlit

1.1. KAFLI Markmið og gildissvið

1.1.1. gr .Markmið

Markmið þessarar reglugerðar er:
a. Að vernda líf og heilsu manna, eignir og umhverfi með því að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með því að kröfum um öryggi mannvirkja og heilnæmi sé fullnægt .
b. Að stuðla að endingu og hagkvæmni mannvirkja, m.a. með því að tryggja að þau séu hönnuð þannig og byggð að þau henti íslenskum aðstæðum .
c. Að stuðla að vernd umhverfis með því að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við hönnun og gerð mannvirkja .
d. Að stuðla að tæknilegum framförum og nýjungum í byggingariðnaði .
e. Að tryggja aðgengi fyrir alla .
f. Að stuðla að góðri orkunýtingu við rekstur bygginga .

1.1.2. gr .Gildissvið

Reglugerðin gildir um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 4. mgr. Bindandi ákvæði reglugerðarinnar eru lágmarkskröfur .
Reglugerðin gildir um alla þætti mannvirkja, svo sem gerð burðarvirkja, lagnir, þ.m.t. neysluvatnslagnir, hitalagnir, fráveitulagnir, raflagnir, loftræsilagnir, gaslagnir og öryggiskerfi, fjarskiptabúnað, eldvarnir, þ.m.t. vatnsúðakerfi og önnur slökkvikerfi, og byggingarvörur, bæði á markaði og í mannvirkjum .
Reglugerðin gildir einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur, móttökudiska og tengivirki, gáma og leik- og íþróttasvæði .
Reglugerðin gildir ekki um hafnir, varnargarða eða fyrirhleðslur, vegi eða önnur samgöngumannvirki, svo sem flugvelli, jarðgöng, vegskála eða brýr, aðrar en umferðar- og göngubrýr í þéttbýli .

1.2. KAFLI Skilgreiningar, staðlar og viðmið

1.2.1. gr .Skilgreiningar

1. Aðaluppdráttur: Heildaruppdráttur að mannvirki, ásamt afstöðumynd þess, þar sem gerð er grein fyrir formi, aðgengi, útliti, stærð og staðsetningu mannvirkis, skiptingu þess í eignarhluta, byggingarefnum, byggingaraðferðum, innra skipulagi og notkun, brunavörnum, orkunotkun, meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og skipulagsskilmálum .
2. Aðgengi fyrir alla: Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra .
3. Algild hönnun: Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf .
4. Áhættumat (vegna bruna): Metin líkindi á íkviknun, virkni búnaðar og mögulegar afleiðingar bruna .
5. Bílgeymsla: Hús eða húshluti til geymslu á bílum, ýmist opið eða lokað .
6. Björgunarop: Dyr eða gluggi í útvegg eða þaki sem nota má til björgunar úr eldsvoða eða annarri vá .
7. Breidd þreps: Breidd tröppu- eða stigaþreps (b), mæld í ganglínu. Mælt skal frá frambrún neðra þreps að lóðréttu ofanvarpi frambrúnar efra þreps. Breidd þreps mæld með þessum hætti er í reglugerð þessari nefnd framstig .
8. Brunaálag: Mælikvarði á brennanlegt efni í tilteknu brunahólfi eða byggingu. Brunaálag er samanlögð hitaorka sem leysist úr læðingi þegar allt brennanlegt efni í tilteknu brunahólfi eða byggingu brennur til fullnustu .
9. Brunahólf: Lokað rými í byggingu sem er aðskilið frá öðrum rýmum með brunahólfandi byggingareiningum sem hafa viðunandi brunamótstöðu í tilskilinn tíma og varna því að eldur, hiti og reykur breiðist út frá rýminu eða til þess frá öðrum nærliggjandi rýmum .
10. Brunahólfandi hurð: Hurð og hurðarkarmur ásamt festingum og frágangi milli hurðarkarms og veggjar, sem hafa tiltekna brunamótstöðu .
11. Brunahólfandi byggingareining: Byggingareining sem afmarkar brunahólf, t.d. veggir og hæðarskil ásamt þéttingum með lögnum sem stenst kröfur um einangrun og heilleika (EI) við brunaferil að hluta eða í heild .
12. Brunahólfun: Hólfandi byggingarhluti sem varnar því að eldur, hiti og reykur breiðist út frá því brunahólfi sem er að brenna .
13. Brunaprófun: Stöðluð aðferð til að mæla og meta áhrif mismunandi brunaáraunar á efni og byggingarhluta .
14. Brunamótstaða: Geta byggingareininga til að standast bruna m.t.t. burðargetu, þéttleika og hitaeinangrunar skv. kröfum sem tilgreindar eru í staðlaðri brunaprófun .
15. Brunastúka: Millirými milli tveggja brunahólfa þar sem auknar kröfur eru gerðar til að hindra útbreiðslu reyks og elds .
16. Brunavarnabúnaður: Samheiti fyrir þann búnað sem tengist brunavörnum húss, t.d. brunaviðvörunarkerfi, slökkvikerfi, reyklosunarbúnaður, brunalokur, slöngukefli og slökkvitæki .
17. Brunavarnir: Eldvarnir, starfsemi slökkviliðs og aðrar sambærilegar aðgerðir einstaklinga og fyrirtækja sem mælt er fyrir um í lögum um mannvirki, lögum nr. 75/2000, um brunavarnir og reglugerðum settum samkvæmt þeim .
18. Brunaöryggiskerfi: Tæknileg kerfi, sem eru notuð sem hluti brunavarna byggingar s.s. viðvörunar- og slökkvikerfi og neyðarlýsing .
19. Byggingarleyfi: Skriflegt leyfi byggingarfulltrúa eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að byggja hús eða önnur mannvirki, breyta þeim eða rífa, eða breyta notkun þeirra, útliti eða formi. Leyfið felur í sér samþykkt [aðaluppdrátta]4) og framkvæmdaáforma, og heimild til að hefja framkvæmdir að uppfylltum skilyrðum reglugerðar þessarar og laga um mannvirki .
20. Bygging: Hús, byggt á staðnum eða sett saman úr einingum, og önnur sambærileg mannvirki .
21. Byggingarlýsing: Í byggingarlýsingu er gerð grein fyrir uppbyggingu mannvirkis, helstu byggingarefnum og áferð og því lýst hvort mannvirki er búið loftræsingu eða öryggiskerfum. Þar er einnig gerð grein fyrir því hvernig mannvirkið uppfyllir ákvæði laga, reglugerða og staðla. Í byggingarlýsingu er greinargerð um notkun eða starfsemi í mannvirkinu, aðgengi, áætlaðan fjölda starfsmanna og mestan fjölda fólks í salarkynnum eftir því sem við á .
22. Byggingarvara: Vara sem framleidd er með það fyrir augum að hún verði varanlegur hluti af einhvers konar mannvirki .
[23]5) Deilihúsnæði: Íbúðarhúsnæði með sameiginlegt eldhús eða alrými.
24. Deiliuppdráttur: Uppdráttur þar sem gerð er nánari grein fyrir einstökum atriðum sem fram koma á aðalog séruppdráttum og útfærslu þeirra í smáatriðum .
25. Eftirlitsaðili: Sá sem annast eftirlit skv. reglugerð þessari, þ.m.t. yfirferð hönnunargagna og framkvæmd úttekta. Eftirlitsaðilar skv. reglugerð þessari geta verið byggingarfulltrúar og starfsmenn þeirra, starfsmenn skoðunarstofa, starfsmenn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og aðrir þeir aðilar sem annast eftirlit fyrir hönd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar .
26. Eigið eldvarnareftirlit: Eftirlit sem rekstraraðili mannvirkis stundar á eigin kostnað, sbr. reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði .
27. Eldvarnarveggur: Veggur sem er ætlaður til varnar því að eldur breiðist út frá þeim stað sem er að brenna án inngrips frá slökkviliði .
28. Eldvarnir: Allar fyrirbyggjandi aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir eldsvoða eða hindra útbreiðslu elds .
29. Evrópskt tæknisamþykki: Matsskjal um hæfi byggingarvöru til tiltekinna nota, byggt á viðeigandi grunnkröfum. Evrópskt tæknisamþykki tekur til krafna sem gerðar eru til vörunnar, til aðferða til að sannprófa og votta samræmi við grunnkröfurnar og til upplýsinga um eiginleika vörunnar .
Evrópusamtök um tæknisamþykki (EOTA) gefa út evrópskt tæknisamþykki .
30. Fjölbýlishús: Hvert það hús sem í eru tvær eða fleiri íbúðir sem hafa sameiginleg rými.
31. Fjöleignarhús: Hvert það hús sem skiptist í séreignir í eigu fleiri en eins aðila og í sameign sem bæði getur verið allra og sumra, sbr. lög um fjöleignarhús.
32. Flóttaleið: Auðrataðir gangar, stigar og flóttalyftur sem gera fólki örugglega fært að komast á öruggan stað úti undir beru lofti eða á öruggt svæði .
33. Flóttalyfta: Sérútbúin lyfta sem er þannig gerð að nota megi hana til flótta frá eldsvoða.
34. Framstig: Breidd þreps, án innskots, í stigum og tröppum.
35. Frístundahús: Hús utan þéttbýlis sem er nýtt til tímabundinnar dvalar.
36. Ganglína: Skilgreind fjarlægð, þ.e. 450 mm frá innra handriði stiga eða tröppu, þar sem hæð og breidd þreps skal mæld.
37. Gámur: Staðlaður geymir fyrir vöruflutninga á sjó og landi.
38. Grunnkröfur: Kröfur sem skilgreindar eru í viðauka við lög um mannvirki.
39. Háhýsi: Háhýsi telst vera hvert það mannvirki sem er hærra en 8 hæðir eða hærra en 23 m mælt frá meðalhæð jarðvegs umhverfis húsið.
40. Hindrunarlaus umferðarbreidd: Minnsta breidd umferðarleiðar að teknu tilliti til þrenginga, s.s. vegna falslista, opnunarbúnaðar, takmarkaðrar opnunar hurða eða annarra þrenginga umferðarleiða.
41. Hlífðargler: Gler sem hlífir gegn skemmdarverkum, innbrotum, byssukúlum, sprengingum, rafsegulbylgjum, röntgengeislum, eldi og útfjólublárri geislun.
42. Hlutauppdráttur: Uppdráttur þar sem lýst er sérstaklega ákveðnum hluta byggingar, s.s. stiga eða lyftu.
43. Hæð þreps: Hæð tröppu- eða stigaþreps (h), mæld í ganglínu. Mælt skal frá yfirborði neðra þreps að yfirborði efra þreps. Hæð þreps mæld með þessum hætti er í reglugerð þessari nefnd uppstig.
44. Hönnunarstjóri: Hönnuður aðaluppdrátta eða sá sem eigandi mannvirkis ræður til að bera ábyrgð á samræmingu hönnunargagna, sbr. lög um mannvirki.
[45]5) Inntaksrými: Rými þar sem stofnleiðslur fyrir heitt og kalt vatn, rafmagn, síma og rafrænar gagnaveitur tengjast byggingu.
[46]5) Inngangsdyr/útidyr: Allar dyr í aðkomuleiðum að byggingum, þ.m.t. svala- og garðdyr.
47. Íbúðarherbergi: Herbergi innan íbúða sem notað er til daglegrar dvalar fyrir fólk, þ.e. svefnherbergi og stofur.
48. Kyndiklefar: Rými fyrir hitunartæki sem ganga fyrir rafmagni eða olíu og sem framleiða heitt vatn eða gufu .
49. Landbúnaðarbyggingar: Til slíkra bygginga teljast m.a. gripahús, s.s. fjós, fjárhús, hesthús, svínahús, loðdýraskálar, fiskeldishús, alifuglahús, og gróðurhús og fylgirými. Vélageymslur, verkstæði, iðnaðarhúsnæði og slíkar byggingar á bújörðum teljast ekki landbúnaðarbyggingar.
50. Leiðamerking í flóttaleið: Merking í flóttaleið sem sýnir leið að öruggu svæði.
51. Leyfisveitandi: Það stjórnvald, þ.e. byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi skv. reglugerð þessari.
52. Lífsferilsgreining: Aðferð við að meta heildarumhverfisáhrif mannvirkis yfir allan vistferil þess, þ.e. allt frá vinnslu allra hráefna í það til endanlegrar förgunar.
53. Ljósmengun: Þau áhrif á umhverfið sem verða af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri.
54. Mannvirki: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga. Til mannvirkja teljast einnig tímabundnar og lausar byggingar sem ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað, svo sem starfsmannabúðir og húsvagnar. Mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast einnig til mannvirkja samkvæmt reglugerð þessari.
55. Markaðssetning byggingarvöru: Hvers konar dreifing eða sala byggingarvöru.
56. Neyðarlýsing: Lágmarkslýsing sem kviknar við straumrof og ætluð er til að tryggja öryggi þeirra sem eru í mannvirki.
57. Neysluvatnslagnir: Lagnir innan mannvirkis sem flytja heitt vatn og kalt vatn til neyslu, baða, almenns hreinlætis og matargerðar.
[...]1) [58.]1) Opin brunastúka: Millirými milli tveggja brunahólfa þar sem auknar kröfur eru gerðar til að hindra útbreiðslu elds. Opin brunastúka er slíkt millirými þar sem farið er út undir bert loft, t.d. svalir.
[59.]1) Portbyggt ris: Rishæð, þar sem útveggir ná upp fyrir efstu gólfplötu á alla vegu.
[60.]1) Prófunarstofa: Faggiltur aðili sem annast prófun, sbr. lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl.
[61.]1) Raflagnir: Samheiti yfir lagnir og búnað vegna ýmissa rafkerfa, s.s. vegna háspennu, lágspennu og smáspennu.
[62.]1) Reyklúga: Búnaður á útvegg eða þaki byggingar með sjálfvirkum eða handvirkum opnunarbúnaði sem ætlað er að hleypa út varma og reyk við eldsvoða.
[63.]1) Samhæfðir evrópskir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum og Staðlasamtök Evrópu (CEN) eða Rafstaðlasamtök Evrópu (CENELEC) hafa samþykkt í umboði Evrópusambandsins og EFTA.
[64.]1) Samræmisvottorð: Vottorð tilnefnds aðila sem staðfestir samræmi byggingarvöru við tækniákvæði.
[65.]1) Samræmisyfirlýsing: Yfirlýsing framleiðanda um samræmi byggingarvöru við tækniákvæði.
[66.]1) Samþykkt hönnunargögn: Hönnunargögn sem samþykkt hafa verið af leyfisveitanda.
[67.]1) Sérbýlishús: Íbúðarhús, þar sem ekki telst til sameignar annað en lóð og ytra byrði húss og hluti lagnakerfa eftir eðli máls, t.d. einbýlishús, raðhús og parhús.
[68.]1) Séruppdráttur: Uppdráttur sem sýnir m.a. útfærslu einstakra byggingar- og mannvirkjahluta og tæknibúnaðar og skipulag lóða, ásamt tilvísunum í staðla um efniskröfur og annað sem þarf til að fullgera mannvirki að utan og innan.
[69.]1) Sjálfbær þróun: Þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Í þessu felst að sókn eftir efnahagslegum gæðum verður að haldast í hendur við vernd umhverfisins og grunngæða jarðar.
[70.]1) Skilti: Búnaður, tæki, mynd eða mannvirki, hreyfanlegt eða staðbundið, þar sem notaðir eru litir, form, myndir, lýsing, skrift eða tákn til að miðla auglýsingum eða upplýsingum af einhverju tagi.
[71.]1) Skiltastandur: Varanlegt mannvirki sem sérstaklega er ætlað til að festa skilti á.
[72.]1) Skipulagsáætlun: Áætlun um markmið og ákvarðanir viðkomandi stjórnvalda um framtíðarnotkun lands. Þar er gerð grein fyrir því að hvers konar framkvæmdum er stefnt og hvernig þær falla að landnotkun á tilteknu svæði. Forsendum ákvarðana er einnig lýst. Skipulagsáætlanir sveitarfélaga skiptast í þrjá flokka, svæðisskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag. Skipulagsáætlun er sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti þar sem það á við.
[73.]1) Skipulagsskilmálar: Bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags, svo sem um byggðamynstur, byggingarlínur, útlit mannvirkja og form, fjölda bílastæða, hæðarlegu, götur, stíga, gróður, girðingar og skilti.
[74.]2) Skoðunarhandbók: Handbók um yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta, sbr. viðauka II með reglugerð þessari. Þar kemur fram yfirlit yfir þá þætti sem eru til skoðunar,
ákvæði um verklag við framkvæmd skoðunar, skoðunaraðferðir, gerð skoðunarskýrslu, flokkun athugasemda
og áhrif á afgreiðslu og framsetningu niðurstöðu.
[75.]1) Skoðunarskýrsla: Greinargerð úttektaraðila um niðurstöðu skoðunar.
[76.]1) Skoðunarstofa: Skoðunarstofa sem hefur faggildingu og starfsleyfi samkvæmt ákvæðum laga um mannvirki og laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl., til að annast tiltekin verkefni á sviði byggingareftirlits.
[77.]1) Skráningartafla: Tafla sem í eru skráðar stærðir allra rýma byggingar, eignatengingar og aðrar grundvallarupplýsingar.
[78.]1) Sorpgerði: Opið gerði á lóð ætlað fyrir sorpílát.
[79.]1) Sorpskýli: Skýli á lóð ætlað fyrir sorpílát.
[80.]1) Smáhýsi: Skýli sem almennt er ætlað til geymslu garðáhalda o.þ.h. og er ekki ætlað til íveru. Smáhýsi er ekki upphitað[]3). Hámarksstærð þess er [15]2) m².
[81.]1) Starfsmannabúðir: Færanlegt húsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks til skamms tíma í senn vegna atvinnustarfsemi.
[82.]1) Stigahús: Afmarkað rými fyrir stiga.
[83].5) Stigahlaup: Stigi á milli stigapalla eða hæðaskila, að stigapalli frátöldum.
[84.]1) Stigi: Byggingarhluti sem gengið er um milli hæða.
[85.]1) Stigleiðsla: Sérstök vatnsleiðsla í byggingum sem slökkvilið notar til að flytja vatn að brunastað.
[86.]1) Svalaskýli: Opnanlegur búnaður sem settur er upp á svalir, utan útveggjar, til að skapa skjól á þeim.
Slíkan búnað er unnt að opna á fljótvirkan hátt þannig að svalirnar nýtist sem flóttaleið.
[87.]1) Tilnefndur aðili: Skoðunar-, prófunar- eða vottunarstofa sem stjórnvöld tilnefna til að annast samræmismat á byggingarvörum og hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar ESB að sé hæf til að annast samræmismat fyrir byggingarvörur skv. reglugerð þessari og lögum um mannvirki.
[88.]1) Tröppur: Byggingarhluti sem gengið er um í aðkomu eða í umferðarleið byggingar og liggur ekki milli hæða.
[89.]1) Tækniákvæði: Samheiti yfir samhæfða evrópska staðla og evrópsk tæknisamþykki.
[90.]1) Tæknirými: Rými sem hýsa rekstrarleg tæki og samstæður í mannvirkinu.
[91.]1) Undirstöður byggingar: Sökkulveggir ásamt botnplötu þegar hún er hluti burðarvirkis.
[92.]1) Uppstig: Hæð þreps í stigum og tröppum.
[93.]1) Útstætt skilti: Skilti, sem stendur meira en 0,2 m út frá því mannvirki sem því er komið fyrir á.
[94.]5) Veðurkápa: Ysta yfirborðsefni byggingar, með loftræstu bili að einangrun.
[95.]1) Votrými: Öll lagnarými, s.s. baðherbergi, ræstiherbergi, þvottaherbergi og önnur rými með þvottavél, tengirými fyrir vatn, loftræsiklefar, tengiklefar vatnsúðakerfa og önnur þess háttar rými þar sem hætta er á vatnsleka.
[96.]1) Öruggt svæði: Sérstakt afmarkað rými innan byggingar eða á lóð sem er varið með þeim hætti að reykur og hiti veldur ekki heilsutjóni og aðgengi slökkviliðs til björgunar er öruggt.
[97.]1) Öryggisgler: Gler sem hindrar eða minnkar hættu á slysum á fólki við umgengni og snertingu við gler, þ.m.t. hlífðargler.
[98.]4) Stöðuskoðun: Úrtaksskoðun leyfisveitanda, þ.e. annars vegar áfangaúttekt sem lendir í úrtaki í kjölfar tilkynningar byggingarstjóra um lok úttektarskylds verkþáttar og hins vegar að kanna framkvæmd áfangaúttekta og verkstöðu með hliðsjón af skráningum í gagnasafni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

1) Rgl. nr. 350/2013, 1. gr.
2) Rgl. nr. 360/2016, 1. gr
3) Rgl. nr. 669/2018 1. gr.
4) Rgl. nr 1278/2018 1. gr.
5) Rgl. nr. 977/2020 1. gr.

1.2.2. gr .Staðlar og tilvísanir

[Staðlar sem Staðlaráð Íslands hefur staðfest eða sett um tæknilega útfærslu eða annað sem snýr að mannvirkjum eru almennt leiðbeinandi við gerð mannvirkja. Sé vísað til ákveðins staðals í þessari reglugerð teljast ákvæði reglugerðarinnar uppfyllt ef fylgt er ákvæðum staðalsins. Sé öðrum aðferðum eða stöðlum beitt skal rökstutt að kröfur séu uppfylltar með sambærilegum hætti. Byggingarvörur skulu þó ávallt uppfylla ákvæði samhæfðra staðla sem gefnir eru út á grundvelli tilskipunar nr. 89/106/EBE, með síðari breytingum, sbr. XIII. kafla laga um mannvirki. Yfirlit yfir samhæfða staðla um byggingarvörur er birt á vefsíðu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2).]1) Á þeim sviðum sem íslenskir staðlar taka ekki til skulu ákvæði norrænna staðla og ISO-staðlar vera leiðbeinandi. Við notkun staðla ber ávallt að tryggja samræmi með tilliti til íslenskra aðstæðna .
Óheimilt er að nota ákvæði úr mismunandi stöðlum við úrlausn sama hönnunaratriðis .
Á þeim sviðum, og að því leyti sem staðlar taka ekki til, skal við hönnun og framkvæmdir höfð hliðsjón af leiðbeiningum, tilkynningum og sérritum sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) og aðrar stofnanir sem annast byggingarmál gefa út .
1) Rgl. nr. 350/2013, 2. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.