6.1. KAFLI. Markmið og algild hönnun

Aftur í: 6. HLUTI. AÐKOMA, UMFERÐARLEIÐIR OG INNRI RÝMI MANNVIRKJA

6.1.1. gr .Markmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að þau henti vel til fyrirhugaðra nota. Við ákvörðun á útliti þeirra, efnisvali, litavali og gerð skulu gæði byggingarlistar höfð að leiðarljósi .
Tryggt skal fullt öryggi fólks og dýra innan bygginga og á lóðum þeirra. Byggingarnar og lóðir þeirra skulu vera vandaðar og hagkvæmar m.t.t. öryggis fólks, heilbrigðis, endingar, aðgengis og afnota allra .
Við gerð og hönnun bygginga ber að taka tillit til orkunotkunar, áhrifa þeirra á umhverfið og gæta að hagkvæmni við rekstur, þrif og viðhald .
Ávallt skal leitast við að beita algildri hönnun þannig að byggingar og lóðir þeirra séu aðgengilegar öllum án sérstakrar aðstoðar .
Við gerð og hönnun bygginga skulu valin efni og aðferðir er henta við íslenskar aðstæður, leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif, velja vistvænar lausnir þar sem það er mögulegt og miða hönnunina við allan líftíma þeirra. Leitast skal við að lágmarka auðlindanotkun og hámarka notagildi, hagkvæmni og þægindi notenda .
Við byggingar eða innan þeirra skal vera fullnægjandi aðstaða fyrir reiðhjól, barnavagna, hjólastóla, sleða o.þ.h. og geymslu þeirra í samræmi við eðli byggingarinnar .
Þess skal gætt að byggingar hafi eðlilega tengingu við lóð og annað umhverfi. Við hönnun og byggingu þeirra skal huga að eðlilegum innbrotavörnum .
[Við breytingar á eldri byggingum skal gæta að varðveislugildi þeirra.]1) 1) Rgl. nr. 350/2013, 7. gr .

6.1.2. gr .Almennt um algilda hönnun

Með algildri hönnun skal tryggt að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun bygginga á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr byggingum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða .
Með algildri hönnun skal m.a. tekið tillit til eftirtalinna hópa einstaklinga: a. Hjólastólanotenda, b. göngu- og handaskertra, c. blindra og sjónskertra, d. heyrnarskertra, e. einstaklinga með astma og/eða ofnæmi, með því að huga að vali á byggingarefnum, gerð loftræsingar og viðhaldi loftræsikerfa, f. einstaklinga með þroskahamlanir, með því að huga að lita- og efnisvali, skiltum og merkingum, g. einstaklinga með lestrarörðugleika, með því að huga að skýrum merkingum, táknmyndum og hljóðmerkingum þar sem það á við .

6.1.3. gr .Kröfur um algilda hönnun

Eftirfarandi byggingar og aðkomu að þeim skal hanna og byggja á grundvelli algildrar hönnunar:
a. Byggingar ætlaðar almenningi, t.d. opinberar stofnanir, leikhús, kvikmyndahús og önnur samkomuhús, veitingastaðir og skemmtistaðir, verslanir og skrifstofuhús, sundlaugar, íþróttamiðstöðvar, hótel og gististaðir, bensínstöðvar svo og allar aðrar byggingar sem byggðar eru í þeim tilgangi að almenningi sé ætluð þar innganga .
b. Skólabyggingar, þ.m.t. frístundaheimili .
c. Byggingar þar sem atvinnustarfsemi fer fram, innan þeirra marka sem eðli starfseminnar gefur tilefni til .
d. Byggingar ætlaðar öldruðum .
e. Byggingar með íbúðir ætlaðar fötluðu fólki .
f. Byggingar með stúdentaíbúðir og heimavistir .
g. Byggingar þar sem samkvæmt reglugerð þessari er krafist lyftu til fólksflutninga .
h.[Íbúðir í fjölbýlis-, rað- og einbýlis­­húsum með öll meginrými á inngangshæð.]1) Með meginrýmum er átt við stofu, eldhús, svefnherbergi og baðherbergi .
i. Öll rými og baðherbergi sem ætluð eru vistmönnum á hjúkrunarheimilum, sjúkrahúsum og dvalarheimilum .
Með kröfu um algilda hönnun skv. 1. mgr. er átt við að byggingar sem þar eru tilgreindar skuli hannaðar þannig að þær nýtist öllum, allir geti ferðast um þær og athafnað sig án sérstakrar aðstoðar, sbr. nánari kröfur reglugerðar þessarar. Einnig gildir um hönnun slíkra bygginga að rými séu innréttanleg á auðveldan hátt þannig að þau henti sérstökum þörfum þeirra einstaklinga sem taldir eru upp í 2. mgr. 6.1.2. gr.Þegar tekið er fram að íbúðir, herbergi eða einstök rými skuli gerð fyrir hreyfihamlaða er átt við að þau skuli sérstaklega innréttuð með hliðsjón af þörfum þeirra auk kröfu um algilda hönnun .
Heimilt er að víkja frá kröfu 1. mgr. um algilda hönnun hvað varðar byggingar samkvæmt c- og h-lið 1 .
mgr. þar sem aðstæður eru þannig að krafan á ekki rétt á sér, t.d. varðandi aðkomu að byggingu þar sem landslag er þannig að það hentar ekki fötluðum til umferðar eða starfsemi innan byggingar er þess eðlis að hún hentar augljóslega ekki fötluðum. Sama gildir um sæluhús, fjallaskála, veiðihús og sambærilegar byggingar að uppfylltum skilyrðum 1. málsl. Sé vikið frá sjónarmiðum um algilda hönnun skal ítarlega rökstutt í hönnunargögnum á hvaða grundvelli það er gert .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020, 8.gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

6.1.4. gr .Stærðir rýma og umferðarmál

Kröfur um stærðir rýma sem fram koma í 6. hluta þessarar reglugerðar miðast við innanmál fullfrágenginna rýma þ.e. nettóstærðir. Stærðir íbúða miðast einnig við nettóstærðir, þ.e. án veggja .
Þær kröfur um umferðarmál sem fram koma í 6. hluta þessarar reglugerðar eru lágmarkskröfur. Frekari kröfur geta komið fram í 9. hluta þessarar reglugerðar vegna flóttaleiða og ganga þær framar ákvæðum 6 .
hluta reglugerðarinnar .
Ekki er heimilt að víkja frá lágmarksákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar við brunahönnun .

6.1.5. gr .Breyting á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun

Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja sem almenningur hefur aðgang að skal tryggja aðgengi í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar .
[Við breytingu á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri bygg­ingar­reglugerða skal almennt byggja á sjónarmiðum algildrar hönnunar, sbr. þó 3. mgr.]4)
[Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. [Sama gildir um kröfur til bíla­stæða hreyfihamlaðra í þegar byggðu hverfi.]4) Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt.]1)[Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.]2)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]5) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.[]3)
1) Rgl. nr. 1173/2012, 9. gr .
2) Rgl. nr. 350/2013, 8. gr .
3) Rgl. nr. 1278/2018, 25. gr.
4) Rgl. nr. 977/2020, 9. gr.
5) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

6.1.6. gr .Framsetning krafna

Um þau ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar sem skipast í meginreglur og viðmiðunarreglur gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar ef sýnt er fram á að aðgengi og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis uppfyllt. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila með hönnunargögnum greinargerð þar sem gerð er grein fyrir því og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins er uppfyllt og aðgengi og öryggi tryggt. Önnur ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar eru ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi ákvæði.]1) 1) Rgl. nr. 350/2013, 9. gr .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.