9.3. KAFLI. Almennar kröfur vegna brunavarna

Aftur í: 9. HLUTI. VARNIR GEGN ELDSVOÐA

9.3.1. gr .Flatarstærðir, rúmmál og breidd rýmingarleiða

Kröfur þessa hluta reglugerðarinnar miðast við stærð flata í mannvirki. Miðað er við brúttóflatarmál viðkomandi flata, nema annað sé sérstaklega tekið fram og gildir sama um uppgefnar rúmmálsstærðir. Með kröfum um breidd rýmingarleiða, t.d. hurða, ganga, stiga o.fl., er átt við hindrunarlaust umferðarmál .

9.3.2. gr .Veggsvalir, svalagangar og millipallar innanhúss

Veggsvalir, millipallar og svalagangar innanhúss sem eru án brunahólfandi veggja að undirliggjandi hæð, skulu alltaf reiknast sem sjálfstæð hæð þegar stærð þeirra er yfir 50% af flatarmáli undirliggjandi hæðar, meiri en 200 m² í notkunarflokki 1 eða meiri en 100 m² í öðrum notkunarflokkum .

9.3.3. gr .Brunatákn og flokkun byggingarhluta og -efna

Flokkun byggingarhluta og viðbragð byggingarefna við eldi skal gerð samkvæmt flokkunarstaðlinum ÍST EN 13501. Brunatákn sem fram koma í reglugerð þessari og skal nota eru tilgreind í viðauka 1 .

9.3.4. gr .Stigahús 1

Meginreglur: Stigahús 1 í byggingum skal vera sjálfstætt brunahólf, minnst EI 60, og varið þannig að eldur og reykur komist ekki inn í stigahúsið. Brunahólfun skal ráðast af þeirri starfsemi sem tengist stigahúsinu .
Viðmiðunarreglur: Stigahús 1 má ekki vera í meira en fjögurra hæða eða 12 m háu húsi .

9.3.5. gr .Stigahús 2

Meginreglur: Stigahús 2 í byggingum skal vera sjálfstætt brunahólf, minnst EI 60, og skal sérstaklega varið þannig að eldur og reykur komist ekki inn í stigahúsið. Brunahólfun skal ráðast af þeirri starfsemi sem tengist stigahúsinu. Gengið skal inn í stigahús 2 um brunastúku eða milligang sem er sérstakt brunahólf .
Viðmiðunarreglur: Stigahús 2 má vera í allt að [átta]1) hæða eða 23 m háu húsi. Samband milli kjallara og stigahúss 2 skal vera um útisvæði eða brunastúku .
1) Rgl. nr. 977/2020, 29. gr.

9.3.6. gr .Stigahús 3

Meginreglur: Stigahús 3 í byggingum skal vera sjálfstætt brunahólf og skal sérstaklega varið þannig að eldur og reykur komist ekki inn í stigahúsið. Brunahólfandi skil stigahússins skulu standa jafn lengi og meginburðarvirki byggingarinnar. Brunahólfun skal vera nægjanleg til að tryggja rýmingu og ekki auka líkur á útbreiðslu elds milli annarra brunahólfa. Gengið skal í og úr stigahúsi 3 um opið svæði eða yfirþrýsta brunastúku. Stigahús 3 má ekki tengjast kjallara. Sé brunastúka að stigahúsi 3 yfirþrýst skal tryggt að yfirþrýstingur haldist þann tíma sem slökkvistarf tekur, þó ekki minna en í 60 mín .
Viðmiðunarreglur: Mesta fjarlægð frá dyrum notkunareiningar að svölum eða brunastúku við stigahús 3 skal vera 10 metrar .

9.3.7. gr .Stigar utanhúss

Meginreglur: Stigar utanhúss á byggingum skulu vera jafn öruggir og aðrar flóttaleiðir .
Viðmiðunarreglur: Útveggir að eða við stiga utanhúss og minnst 1,8 m út frá þeim skulu hafa brunamótstöðu minnst EI 60. Hurð að stiga skal minnst hafa brunamótstöðu EI2 30-C og gluggar minnst EW 30 .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.