9.8. KAFLI. Aðstaða og búnaður vegna aðkomu slökkviliðs

Aftur í: 9. HLUTI. VARNIR GEGN ELDSVOÐA

9.8.1. gr .Markmið

Meginreglur: Byggingar skal hanna þannig að öryggi slökkviliðs við slökkvistarf o.fl. sé nægjanlega tryggt og skal aðkoma þess vera möguleg að hverri hæð byggingar. Slökkvilið skal geta komist inn í byggingu á öruggan hátt og skal búnaður til slökkvistarfa vera nægjanlegur og í samræmi við þá hættu sem getur orðið innan og við bygginguna. Innan mannvirkja skal þess gætt að fjarskiptasamband slökkviliðs vegna slökkvistarfs sé fullnægjandi .
Viðmiðunarreglur: Fjarlægð frá stigahúsi eða öðru öruggu aðkomusvæði slökkviliðs að hvaða stað sem er í byggingum skal almennt vera mest 40 m .

9.8.2. gr .Björgunarsvæði og aðkoma

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um björgunarsvæði og aðkomu sjúkra- og slökkviliðs:
1. Á lóðum skal vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar .
2. Fjöldi og gerð útganga úr inngarði sem er umlukinn byggingum, hvort sem hann er yfirbyggður eða ekki, skal ákveðin með brunahönnun .
3. Slökkvilið skal hafa aðgang að öllum mannvirkjum vegna slökkvi- og björgunarstarfs. Þegar um er að ræða lokuð svæði, lóðir eða mannvirki skal eigandi gera ráðstafanir til að tryggja greiðan aðgang slökkviliðs í samráði við slökkviliðsstjóra .
4. [Í brunahönnun skal gera grein fyrir]1) staðsetningu stjórnbúnaðar þeirra öryggiskerfa sem slökkviliði er ætlað að nota við slökkvi- og björgunarstörf .
5. Í byggingum þar sem tæki slökkviliðs ná ekki til vegna hæðar þeirra eða búnaður þess nægir ekki til björgunar, skal vera stigahús 3 .
6. Veggsvalir bygginga sem ætlaðar eru sem flóttaleið skulu staðsettar þannig að stigar eða annar búnaður slökkviliðs nái til þeirra .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um björgunarsvæði og aðkomu sjúkra- og slökkviliðs:
[1. Hafa skal samráð við slökkviliðs­stjóra varðandi búnað sem ætlaður er slökkviliði og aðkomu sjúkra- og slökkviliðs að bygg­ingum og lóðum.]1)
2. Meðfram byggingum, sem eru hærri en fjórar hæðir eða með efstu gólfplötu 11 m yfir hæð björgunarsvæðis skulu vera merkt björgunarsvæði nema því aðeins að aðgangur að stigahúsi 3 sé úr öllum brunahólfum hússins .
3. Björgunarsvæði skulu vera a.m.k. 6,0 m breið og þannig staðsett og löguð að auðvelt sé að koma við tækjum, stigum og öðrum björgunarbúnaði slökkviliðs. Halli á björgunarsvæði má ekki vera meiri en 1:20. Aðkoma að björgunarsvæðum skal vera eftir a.m.k. 3,0 m breiðum og auðrötuðum vegum .
Björgunarsvæðin og aðkoma að þeim skal vera þannig gerð að þau þoli álag vegna björgunartækja .
4. Aðkomuleiðir slökkviliðs að byggingu sem ekki þarf björgunarsvæði skulu vera a.m.k. 3,0 m breiðar og skulu þær lagðar fyrir og samþykktar af slökkviliðsstjóra viðkomandi sveitarfélags .
1) Rgl. nr. 977/2020, 50. gr.

9.8.3. gr .Aðkoma að þakrými og kjallara

Meginreglur: Aðkoma að þakrými og kjallara bygginga skal vera þannig að slökkvistörf séu trygg .
Viðmiðunarreglur: Jafnan skal komið fyrir manngengum loftlúgum frá stigahúsi bygginga, eða utanfrá inn í þakrými, vegna aðkomu slökkviliðs. Frágangur loftlúgu skal vera á þann veg að tilætluð brunamótstaða byggingarhluta rýrist ekki. Aðkoma að kjöllurum sem eru tvær hæðir eða dýpri skal vera um stigahús með opna brunastúku .

9.8.4. gr .Reyklosun

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um reyklosun:
1. Reyklosun skal þannig hönnuð og gerð að hún geti virkað á réttan hátt í þann tíma sem nauðsynlegur er vegna öryggis þeirra er dvelja í mannvirki og björgunarliðs svo og öryggis mannvirkis. [Ávallt skal gera ráð fyrir aðlofti óháð því hvort reyklosun sé sjálfvirk eða ekki.]2)
2. Í stærri kjöllurum og öðrum niðurgröfnum rýmum bygginga, skal koma fyrir reyklosun. Staðsetning reyklosunaropa skal vera þannig að ekki sé hætta á að eldur eða reykur geti breiðst út um þau til annarra hluta byggingarinnar.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um reyklosun:
1. Í stigahúsum 1 og 2 sem eru án glugga á útvegg skal vera reyklúga. Reyklúgan skal staðsett efst í stigahúsinu og vera með minnst 1 m² opnun eða samsvarandi vélræna reykloftun. Lúguna skal vera hægt að opna frá jarðhæð (aðalinngangshæð) með þar til gerðum búnaði sem komið er fyrir á áberandi stað og skal hann greinilega merktur:
„Reyklúga“. Sama gildir um staðsetningu og merkingu stjórnbúnaðar fyrir vélræna loftun.
2. Flatarmál reyklosunaropa í kjöllurum og öðrum niðurgröfnum rýmum skal vera a.m.k. 0,5% af gólffleti þar sem brunaálag er minna en 800 MJ/m², en þó aldrei minna en 0,25 m². Annars skal flatarmál reyklosunar vera 1,0% og aldrei minna en 0,25 m². Sé um að ræða annars konar notkun rýmisins skal flatarmál ops ákveðið við brunahönnun. Í kjallararýmum sem eru búin sjálfvirku vatnsúðakerfi er 0,1% opnun nægjanleg.
3. Ætíð skulu vera fyrir hendi op í bílgeymslu í notkunarflokki 1 eða 2 til reyklosunar með tækjum slökkviliðs, staðsett á heppilegum stöðum. Opin skulu vera a.m.k. 0,5% af gólffleti en a.m.k. 0,1% ef bílgeymslan er varin með sjálfvirku vatnsúðakerfi. Ekkert opanna skal vera minna en 1 m² að stærð. Nýta má aðkomudyr, glugga og reyklosunarop í þessu skyni eftir því sem aðstæður leyfa.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020, 51. gr.

9.8.5. gr .Stigleiðsla

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um stigleiðslu:
1. Stigleiðslu skal setja í mannvirki þar sem slökkvistarf er erfiðleikum bundið svo sem þegar hæð þess, aðkoma eða byggingarmáti er með þeim hætti að erfiðleikum er bundið að koma vatni að brunastað .
Stigleiðslu skal einnig setja í byggingu sem er hærri en 18 m eða með fleiri hæðir en sex, svo og í kjallara þar sem botnplata er 10 m eða meira undir jarðvegsyfirborði eða þar sem fyrirsjáanlegt er að slökkvilið þurfi að leggja slöngur langa leið við slökkvistarf. [...]2)
2. Á hverri hæð byggingar og á hverjum tengipunkti slökkviliðs skal vera grein með loka og tengingu fyrir slöngur slökkviliðs. Staðsetja skal búnaðinn þannig að hættu á því að eldur eða reykur geti borist á milli brunahólfa við slökkvistarf sé haldið í lágmarki.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um stigleiðslu:
[1. Stigleiðsla skal vera í stigahúsum 2 og 3 og í stigahúsum þar sem breidd ljósops stiga er minna en 0,20 m.]2)
2. Stigleiðsla skal vera minnst 80 mm að innanmáli og nægjanlega afkastamikil til að anna slökkvivatnsþörf á hverri hæð byggingar.
3. Úttakstengi slökkviliðs skulu að jafnaði vera 75 mm og þannig staðsett að ekki komi brot í slöngur sem lagðar eru frá tengingunni. Úttakstengi stigleiðslu skulu vera við stigahús og staðsett þannig að slökkvilið þurfi ekki að nota lengri slöngu en 40 m við slökkvistarf innanhúss.
4. Á jarðhæð byggingar skal vera búnaður til að tengja stigleiðslu við tæki slökkviliðs. Hann skal greinilega merktur:
„Stigleiðsla“. Mesta [...]2) fjarlægð tengistaðar frá aðkomu slökkviliðs er 20 m. Tæming skal vera á neðsta punkti leiðslunnar.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 52. gr.

9.8.6. gr .Brunavarnar- og flóttalyftur

Meginreglur: [Brunavarnarlyftur]2) og flóttalyftur skal nota þar sem slíkt er nauðsynlegt vegna slökkvi- og björgunarstarfa eða öryggis fólks. Í byggingum sem eru átta hæðir og hærri skal vera brunavarnarlyfta í lyftustokk sem er sjálfstætt brunahólf. Framan við lyftuna á hverri hæð skal vera brunastúka. Slík lyfta skal ætíð hafa minnst tvo óháða straumgjafa .
Viðmiðunarreglur: Í byggingum sem tilgreindar eru í 1. mgr. og eru með grunnflöt stærri en 900 m² eða hærri en fimmtán hæðir skulu að jafnaði vera a.m.k. tvær brunavarnarlyftur. Brunavarnarlyfta skal rúma sjúkrabörur og skal ekki nota hana sem almenna flóttalyftu. Séu lyftur þannig frágengnar að nota megi þær sem flóttaleið skulu þær vera sérstaklega merktar. Brunavarnarlyfta sem slökkvilið getur nýtt við björgun úr byggingum skal uppfylla ákvæði ÍST EN 81-72 um brunavarnarlyftur .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 53. gr.

9.8.7. gr .Merkingar

Þar sem brunavarnir bygginga gera ráð fyrir sérstökum aðgerðum slökkviliðs skulu þær vera merktar og þeim fylgja leiðbeiningar sem komið er fyrir við viðkomandi stjórnbúnað. Staðsetning slíks stjórnbúnaðar og gerð hans skal ákveðin við brunahönnun .
Í mannvirkjum þar sem krafist er brunahönnunar og/eða áhættumats skulu upplýsingar um brunavarnir fyrir björgunaraðila vera aðgengilegar .
Brunavarnabúnað bygginga, þ.m.t. brunahólfandi hurðir og öryggisbúnað, skal merkja þannig að hann sé vel sýnilegur björgunaraðilum og öðrum sem eru í mannvirkinu. Merkja skal t.d. inndælingu vatnsúðakerfis og stigleiðslu, reyklúgur, aðkomuleiðir og sérstakar aðgerðir fyrir slökkvilið. Á búnað sem ætlaður er fyrir tengingu við dælur slökkviliðs skal gefa upp þann þrýsting sem nauðsynlegur er til að búnaðurinn vinni skv. hönnun og þann hámarksþrýsting sem búnaðurinn þolir .
Auðkenni um staðsetningu frístundahúsa, fjallaskála, skíðaskála, veiðihúsa og annarra slíkra bygginga sem gefa má upp til neyðarlínu skal vera utandyra á útvegg .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.