14.2. KAFLI. Hita- og kælikerfi

Aftur í: 14. HLUTI. LAGNIR OG TÆKNIBÚNAÐUR

14.2.1. gr .Markmið

Hita- og kælikerfi bygginga skulu þannig hönnuð og gerð að hagkvæmni varðandi orkunotkun og rekstur sé höfð að leiðarljósi. Virkni kerfisins og einstakra hluta þess skal vera fullnægjandi og afkastageta þess vera í samræmi við ákvarðandi heildarleiðnitap byggingar samkvæmt reglugerð þessari og ÍST 66 .
Í byggingum þar sem bæði er um upphitun og kælingu að ræða skal tryggt að ekki geti verið samtímis kæling og hitun í sama rými .
Hitakerfi bygginga skulu þannig hönnuð að ekki sé hætta á bruna, sprengihættu, eitrun eða mengun .

14.2.2. gr .Stýribúnaður

Hita- og kælikerfi bygginga skulu vera búin sjálfvirkum stjórnbúnaði sem stýrir afköstum þeirra eftir varma- og kæliþörf hvers rýmis og byggingar í heild. Þá skal vera unnt að minnka upphitun eða kælingu þegar bygging eða hluti hennar er ekki í notkun .
Hita- og kælikerfi bygginga skulu búin stillibúnaði til jafnvægisstillingar á kerfi .

14.2.3. gr .Dælubúnaður

Dælur í hita-, neysluvatns- og kælikerfum bygginga skulu valdar og þeim stýrt með tilliti til hagkvæmni varðandi orkunotkun. Hitakerfi sem eru með stöðugu rennsli, s.s. snjóbræðslukerfi, þurfa ekki að vera með þrýsti- og álagsstýrða dælu .

14.2.4. gr .Festingar

Tryggja skal að festingar í hita- og kælikerfum bygginga þoli það álag sem þær verða fyrir. Bil milli festinga skal taka mið af styrk þeirra, gerð lagnar og álags frá viðkomandi lögn. Gera skal ráð fyrir þenslum á pípum þegar pípur eru festar .

14.2.5. gr .Frágangur á pípulögn

Pípur í hitakerfum bygginga skulu einangraðar þannig að ekki verði óþarfa orkueyðsla eða óæskileg upphitun á öðrum lögnum og byggingarhlutum. Pípur í kælikerfum skulu einangraðar þannig að ekki verði óþarfa orkueyðsla og slagi á lögnum .
Um kröfur til brunaeiginleika röraeinangrunar gilda ákvæði 9. hluta reglugerðar þessarar .
Hitalagnir og hitagjafar í skólum, frístundaheimilum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, vistheimilum aldraðra og öðrum slíkum stofnunum skulu varðar skv. 12.5. kafla .

14.2.6. gr .Afkastageta

Afkastageta hita- og kælikerfa bygginga skal miðast við að ráðgerður lofthiti haldist miðað við varmatapsreikninga samkvæmt reglugerð þessari og ÍST 66 .
Hita- og kælikerfi skal hanna þannig að fyrirhuguð afkastageta náist við venjulegan rekstrarþrýsting .

14.2.7. gr .Varmagjafar

Ofnar í byggingum skulu uppfylla staðalinn ÍST 69 og ÍST EN 442 .
Þar sem gólf eða loft eru notuð sem varmagjafar skal gæta þess að ekki verði óæskileg varmaleiðni um þessa byggingarhluta á milli rýma, sbr. ÍST EN 1264 .
Við ákvörðun á yfirborðshita í gólfhitakerfi bygginga skal fara eftir ÍST EN 1264. Þægindamörk yfirborðshita skulu vera:
a. íverurými < 29°C,
b. forstofur, þvottaherbergi, baðherbergi, geymslur o.þ.h. rými < 33°C,
c. jaðarsvæði < 35°C. Jaðarsvæði er svæði við útvegg sem nær 1 m inn í rými .
Yfirborðshiti frá gólfhitakerfi skal ekki vera svo hár að hann valdi skemmdum á gólfefni .
Um varnir gegn brunaslysum vegna yfirborðshita varmagjafa og hitalagna gilda ákvæði 12. hluta þessarar reglugerðar .

14.2.8. gr .Afloftun vatnshitakerfis

Hægt skal vera að lofttæma hita- og kælikerfi bygginga .

14.2.9. gr .Áfyllingarbúnaður

Áfyllingarbúnaður lokaðra vatnshitakerfa bygginga skal þannig gerður að tryggt sé að vatn (vökvi) af hitakerfi geti ekki undir neinum kringumstæðum runnið inn á neysluvatnskerfi .

14.2.10. gr .Hljóðvistarkröfur

Við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði skal tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingu eða umhverfi hennar og að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Vatnshraði í pípum skal ákvarðaður á þann hátt að hljóð frá pípum uppfylli kröfur um hljóðvist, sbr. 11 .
hluta þessarar reglugerðar .
Gengið skal þannig frá festingum vatnshitakerfa að hreyfing á pípum og rennslishljóð geti ekki myndað hávaða sem berst út í aðliggjandi byggingarhluta og rými, þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist í 11. hluta þessarar reglugerðar .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.