14.3. KAFLI. Hitakerfi tengd hitaveitu

Aftur í: 14. HLUTI. LAGNIR OG TÆKNIBÚNAÐUR

14.3.1. gr .Markmið

Hitakerfi bygginga sem fá orku frá jarðhita skulu búin stjórn- og stillibúnaði þannig að nýting varmaorkunnar verði sem best og öryggis fólks, eigna og umhverfis sé tryggt .

14.3.2. gr .Efniskröfur

Við efnisval hitakerfis í byggingum skal taka mið af þoli þess vegna eiginleika, efnainnihalds, þrýstings og hita vatns á viðkomandi veitusvæði þannig að lagnir þoli þann þrýsting, hitastig og efnainnihald sem vænta má í veitukerfinu og ending hitakerfisins verði fullnægjandi. Jafnframt skal höfð hliðsjón af ÍST 67 .
Lagnir í hitakerfum skulu þannig gerðar að ekki komist súrefni í því magni inn í lagnir að valdið geti tæringu á ofnum eða öðrum búnaði sem tærist vegna súrefnis í vatni .

14.3.3. gr .Tengigrind og tenging við veitukerfi

Tenging hitakerfis bygginga við veitukerfi skal gerð í fullu samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu. Tengigrind hitakerfis skal vera í inntaksrými byggingar og þar skal vera niðurfall .
Setja skal varmaskipti við hitakerfi ef vatn í viðkomandi veitu er þess eðlis að hætta sé á tæringu eða útfellingum sem skaðað getur hitakerfið .
Gott aðgengi skal vera að tengigrind hitakerfis til aflestrar mæla og viðhalds og skal merkja pípur, loka og tækjabúnað eftir því sem við á. Þá skulu mælar vera á bakrás og framrás hitakerfis svo örugglega megi fylgjast með hita og þrýstingi í kerfinu. Skal kvarði þrýstimæla geta sýnt a.m.k. 50% hærra gildi en ráðgerðan rekstrarþrýsting .
Við endurnýjun tengigrinda í eldri byggingum skal uppfylla öryggiskröfur þessa kafla .

14.3.5. gr .Stillibúnaður

Auðveldur aðgangur skal vera að jafnvægisstillibúnaði hitakerfa í byggingum .
Hitakerfi með gegnumrennsli skulu búin stýribúnaði sem tryggir nægjanlegan bakþrýsting þannig að þrýstingur við efsta ofn sé nægjanlegur .
Hitakerfi sem tengd eru beint við veitur skulu vera búin þrýstijafnara sem stýrir rekstrarþrýstingi og mismunaþrýstingi yfir hitakerfið á fullnægjandi hátt. Þrýstijafnari skal almennt staðsettur í inntaksrými inntaksmegin við öryggisloka skv. 14.3.5. gr .14.3.5. gr .Öryggisloki .
Á tengigrind hitakerfis bygginga skal koma fyrir öryggisloka. Öryggisloki skal hafa fullnægjandi afköst svo ekki skapist hætta fyrir öryggi fólks, eignir og umhverfi vegna of hás þrýstings í hitakerfinu. Öryggisloka skal setja á fram- og bakrás hitakerfa sem tengjast beint við veitur .
Í gegnumrennslishitakerfum skal eingöngu setja öryggisloka á framrás. Jafnframt skal setja öryggisloka á öll lokuð hita- og kælikerfi. Pípa frá öryggisloka á tengigrind skal lögð niður að gólfi og þar skal henni þannig fyrir komið að ekki stafi hætta af útrennsli frá henni. Pípa frá öryggisloka á lokuðum hitakerfum sem ekki er staðsettur í inntaksrými skal leidd að frárennsli og frágengin á sama hátt .
Gólfniðurfall skal vera í sama herbergi og öryggisloki hitakerfis .

14.3.6. gr .Bakrennslisvatn

Sé bakrennslisvatni veitt í frárennsliskerfi bygginga skal tryggt að hitastig þess sé ekki það hátt að lagnaefni í frárennsliskerfi geti orðið fyrir skemmdum. Eins skal tryggt að ekki geti undir neinum kringumstæðum orðið bakrennsli frá frárennsliskerfi að hitakerfi .
Leggja skal út úr sökkli byggingar sérstaka affallslögn, sem þolir hita á affallsvatni frá viðkomandi hitakerfi, að viðeigandi tengibrunni sem næstur er götulögn .

14.3.7. gr .Þrýstiprófun

Hitalagnir bygginga skulu þannig hannaðar og frágengnar að þéttleiki þeirra sé tryggður á fullnægjandi hátt .
Þéttleika allra hitakerfa bygginga skal sannreyna með þrýstiprófun, með að lágmarki 0,6 MPa vatnsþrýstingi. Þrýstiprófa skal lagnir áður en þær eru huldar. Fylgja skal leiðbeiningum í ÍST EN 12828 .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.