Aftur í: 14. HLUTI. LAGNIR OG TÆKNIBÚNAÐUR
Neysluvatnskerfi bygginga skulu þannig hönnuð og gerð að öryggi fólks, eigna og umhverfis sé tryggt og að fyrirhuguð afköst náist við venjulegan rekstrarþrýsting .
Efnisval neysluvatnskerfa skal vera þannig að ekki sé hætta á að vatnið spillist og að tæringarhætta sé í lágmarki .
Við efnisval neysluvatnskerfa í byggingum ber að taka mið af þoli lagnaefnis vegna eiginleika, efnainnihalds, þrýstings og hita vatns á viðkomandi veitusvæði. Jafnframt skal höfð hliðsjón af ÍST 67 .
Neysluvatnslagnir fyrir kalt og heitt vatn skulu þola þann þrýsting og það hitastig sem vænta má í viðkomandi veitukerfum. Í neysluvatnslögnum fyrir heitt vatn skal þó aldrei miða við lægri þrýsting en 1 MPa eða lægra hitastig en 70°C. Sömu lágmarkskröfur gilda um þrýsting í neysluvatnslögnum fyrir kalt vatn .
Tenging neysluvatnskerfis byggingar við veitukerfi skal gerð í fullu samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu. Tengigrind neysluvatnskerfis skal almennt vera í inntaksrými byggingar, að öðrum kosti í sérstöku tæknirými. Gott aðgengi skal vera að tengigrind til aflestrar mæla og viðhalds .
Merkja skal pípur, loka og tækjabúnað eftir því sem við á og skulu mælar vera á lögnum neysluvatnskerfis svo örugglega megi fylgjast með hita og þrýstingi í kerfinu .
Tryggja skal að festingar í neysluvatnskerfum bygginga þoli það álag sem þær verða fyrir. Bil milli festinga skal taka mið af styrk þeirra, gerð lagnar og álags frá viðkomandi lögn. Gera skal ráð fyrir þenslum á pípum þegar þær eru festar .
Neysluvatnslagnir bygginga skulu þannig hannaðar og frágengnar að þéttleiki þeirra sé tryggður á fullnægjandi hátt. Almennt skal leitast við að staðsetja neysluvatnslagnir þannig að hægt sé að greina leka sem kemur fram áður en hann veldur skemmdum og komast að lögn til viðgerða .
Þéttleika allra neysluvatnslagna bygginga skal sannreyna með þrýstiprófun, með að lágmarki 1,0 MPa vatnsþrýstingi. Þeir kerfishlutar sem huldir eru skulu þéttleikaprófaðir áður en þeir eru huldir, sbr . leiðbeiningar í ÍST 67 .
Pípur í neysluvatnskerfum sem ætlaðar eru fyrir heitt vatn skulu einangraðar þannig að hvorki verði ónauðsynleg orkueyðsla né óæskileg upphitun á öðrum lögnum og byggingarhlutum. Pípur ætlaðar fyrir kalt vatn skulu einangraðar þannig að hvorki verði ónauðsynleg rakaþétting né óæskileg upphitun á kalda vatninu frá öðrum lögnum eða byggingarhlutum .
Í fjölbýlishúsum skal, innan hverrar íbúðar, vera hægt að loka fyrir vatn að öllum töppunarstöðum neysluvatnskerfis í íbúðinni, annað hvort með lokum á stofnlögnum að íbúðinni eða með lokum við hvern töppunarstað .
Um kröfur til brunaeiginleika röraeinangrunar í neysluvatnskerfum gilda ákvæði 9. hluta þessarar reglugerðar .
Neysluvatnskerfi skal þannig hannað og gert að vatnsrennsli að töppunarstað sé fullnægjandi án þess að vatnshraði valdi truflandi hávaða eða skemmdum á lögn. Jafnframt skulu gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif vatnshöggs .
Við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði neysluvatnskerfa skal tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingunni eða umhverfi hennar og þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Vatnshraði í pípum neysluvatnskerfa skal ákvarðaður á þann hátt að hljóð frá pípum uppfylli kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Gengið skal þannig frá festingum neysluvatnskerfa að hreyfing á pípum og rennslishljóð geti ekki myndað hávaða sem berst út í aðliggjandi byggingarhluta og rými, þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist í 11. hluta þessarar reglugerðar .
Neysluvatnslagnir bygginga skulu þannig hannaðar og gerðar að ávallt sé fullnægjandi þrýstingur og vatnsmagn við eðlilega notkun kerfis. Ennfremur skal kerfið þannig hannað og gert að biðtími eftir heitu vatni verði ekki of langur við töppunarstað .
Í neysluvatnslagnir bygginga skal einungis nota viðurkennd efni sem hvorki innihalda skaðleg efni sem borist geta í neysluvatnið og haft áhrif á hollustu þess né efni sem áhrif geta haft á bragð þess eða lykt .
Hreinsa skal allar nýjar neysluvatnslagnir að hverjum töppunarstað fyrir notkun, þannig að vatnið standist almennar kröfur hvað varðar hollustu, bragð og lykt .
Til að tryggja fullnægjandi öryggi neysluvatnslagna gegn mengun skal vera búnaður á lögnunum sem kemur í veg fyrir bakrennsli, á tengigrind og að einstökum óskyldum einingum innan viðkomandi byggingar, þannig að komið sé í veg fyrir að utanaðkomandi mengandi efni geti runnið inn í kerfi einstakra eininga eða mengað allt lagnakerfið .
Neysluvatnskerfi skal þannig hannað og gert að ekki sé hætta á bakrennsli við einstaka töppunarstaði, sbr. ÍST EN 1717 .
Tryggja skal að hitastig vatns við töppunarstaði neysluvatnskerfa í byggingum sé ekki það hátt að hætta sé á húðbruna fólks í steypiböðum og baðkerum. Þá skulu vera hitastýrð blöndunartæki á handlaugum í baðherbergjum og snyrtingum sé hitastig neysluvatns það hátt að það geti valdið húðbruna .
Þannig skal frá neysluvatnslögnum bygginga gengið að ekki sé hætta á að bakteríugróður geti þrifist í neysluvatninu. Því skulu eftirfarandi kröfur uppfylltar:
a. Heitt vatn í neysluvatnslögnum skal ávallt vera nægjanlega heitt til að það spillist ekki vegna bakteríugróðurs, t.d. hermannaveiki (legionellu) .
b. Neysluvatnslögn fyrir kalt vatn skal vera þannig frágengin að ekki sé hætta á að vatnið spillist og í því myndist bakteríugróður, t.d. vegna hermannaveiki, vegna of mikillar upphitunar .
Með öryggisbúnaði neysluvatnskerfa, t.d. varmaskipti eða uppblöndunarloka, skal komið í veg fyrir að hiti við töppunarstað fari yfir 65°C. Til að koma í veg fyrir hættu á hermannaveiki skal hiti á heitu vatni í neysluvatnslögn, þar sem vatnið er að jafnaði ekki á hreyfingu, aldrei fara undir 60°C og hiti þess almennt ekki vera lægri en 65°C í stofnlögnum .
Hanna skal neysluvatnskerfi þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda og skulu eftirfarandi kröfur uppfylltar:
a. Hitastig vatns við töppunarstaði í böðum skal ekki vera það hátt að hætta sé á húðbruna .
b. Hitastig vatns við þá töppunarstaði, sem gestir, almenningur, vistmenn og börn hafa aðgang að, skal ekki fara yfir 43°C í skólum, frístundaheimilum, sundlaugum, sjúkrahúsum, dvalarheimilum, opinberum baðstöðum, hótelum og samsvarandi stöðum .
c. Hitastig vatns við töppunarstaði, sem börn geta komist að, skal ekki fara yfir 38°C á leikskólum .
[...]1)
Við endurnýjun blöndunartækja við alla töppunarstaði í baðherbergjum og á snyrtingum í eldri byggingum skal nota hitastýrð blöndunartæki. Við endurnýjun tengigrinda í eldri byggingum skal uppfylla öryggiskröfur þessarar reglugerðar .
Við rekstur neysluvatnskerfa þar sem hitastig á heitu vatni er lægra en 60°C, s.s. í sturtukerfum, skal þess gætt að kerfin séu yfirhituð með minnst 70°C heitu vatni nægjanlega oft til að koma í veg fyrir hættu á hermannaveiki.
1) Rgl. nr. 977/2020 57. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.