14.6. KAFLI. Fráveitulagnir

Aftur í: 14. HLUTI. LAGNIR OG TÆKNIBÚNAÐUR

14.6.1. gr .Markmið

Fráveitulagnir bygginga skulu vera þéttar til að fyrirbyggja leka úr lögn við mögulegan hámarksrekstrarþrýsting og að vatn komist inn í lögn frá lagnastæði við eðlilega notkun þannig að ekki sé hætta á mengun nánasta umhverfis lagnanna. Á þeim skal vera nægur halli og vídd þannig að lögnin sé sjálfhreinsandi .
Á lögnum skal vera nægur fjöldi brunna eða hreinsiloka til skoðunar og hreinsunar .

14.6.2. gr .Fráveitulagnir undir neðstu plötu

Fráveitulagnir bygginga skulu liggja sem mest utan við grunn bygginga til að einfalda endurnýjun og viðgerðir. Þær fráveitulagnir sem leggja þarf inn í grunn undir botnplötu skulu liggja þar sem auðveldast er að endurnýja þær með sem minnstu múrbroti .

14.6.3. gr .Frárennsli við töppunarstaði

Við alla töppunarstaði neysluvatnslagna bygginga skal vera frárennsli sem flutt getur burt allt vatnsmagnið sem töppunarstaðurinn afkastar. Þetta gildir ekki um töppunarstaði utanhúss þar sem náttúruleg þerring er fyrir hendi .
Öll tæki sem beintengd eru fráveitukerfi skulu búin vatnslás sem auðvelt er að komast að til hreinsunar og þolir hitastig frárennslisins. Sjálfstæður vatnslás skal vera við hvert tæki og tenging skal vera þannig frágengin að tryggt sé að ekki sé hætta á að frárennsli frá einu tæki geti runnið í vatnslás annars tækis .
Frárennsli frá tæki þar sem hætta er á óþægindum vegna lyktar má ekki tengja gegnum gólfniðurfall .

14.6.4. gr .Varasöm eða hættuleg efni

Óheimilt er að láta efni í fráveitukerfi bygginga sem geta skaðað lagnakerfið, hreinsistöðvar eða umhverfið eða haft áhrif á afköst þess .
Þar sem hætta er á að eld- eða sprengifim efni geti borist að frárennsliskerfi er ekki heimilt að hafa vatnslás. Öll slík efni skulu fjarlægð áður en afrennslinu er hleypt í frárennsliskerfið .
Ekki er heimilt að leiða frárennsli frá salernum að olíu- og fituskilju eða hleypa sprengifimum eða mengandi efnum út í fráveitukerfi .
Þar sem hætta er á að frárennsli innihaldi skaðleg eða hættuleg efni skal það meðhöndlað sérstaklega eða sérstakar skiljur settar í kerfið til hreinsunar. Skiljurnar skulu þannig gerðar að tryggt sé að þessi skaðlegu eða hættulegu efni séu fjarlægð þannig að þau berist ekki í frárennsliskerfið .
Skiljur skal setja upp ef frárennsli inniheldur meira en óverulegt magn af:
a. Fínefnum eða kornum sem geta sest í kerfið og stíflað það .
b. Fitu eða öðrum efnum sem skiljast frá frárennslinu við kælingu .
c. Bensíni eða öðrum eld- eða sprengifimum vökvum .
d. Olíu og öðrum efnum sem blandast ekki við vatn .
Fituskiljur skal hanna samkvæmt ÍST EN 1825-2. Olíu- og bensínskiljur skal hanna samkvæmt ÍST EN 858-2. Þá skal höfð hliðsjón af leiðbeiningum Umhverfisstofnunar .

14.6.5. gr .Gólfniðurföll

Gólfniðurföll bygginga skulu vera með vatnslás og staðsett þannig að auðvelt sé að komast að þeim til hreinsunar. Tryggt skal að gegnumstreymisniðurföll anni að lágmarki vatnsmagni frá því tæki sem það er tengt .
Afköst gegnumstreymisniðurfalls skulu jafnframt vera nægjanleg til þess að það þjóni sem öryggisniðurfall vegna annarra tækja í rýminu, sé ekki sérstakt öryggisniðurfall til staðar .

14.6.6. gr .Öryggisbúnaður

Ekki þarf að gera ráð fyrir sérstökum niðurföllum í byggingum vegna sérstaks öryggisbúnaðar eins og t.d. úðakerfa, öryggissturtu, brunaslöngu o.þ.h .

14.6.7. gr .Loftun frárennslislagna

Frárennslislagnir bygginga skulu þannig hannaðar, frágengnar og loftaðar að breytingar á þrýstingi sem kunna að verða í kerfinu geti ekki tæmt vatnslása. Loftun skal þannig staðsett og frágengin að ekki verði óþægindi vegna lyktar eða rakaþéttingar frá frárennslislögninni. Ekki er heimilt að lofta frárennsliskerfi um loftræsikerfi bygginga .

14.6.8. gr .Bakrennsli (öfugflæði)

Til að hindra bakrennsli skal vatnshæð í lægsta vatnslás í byggingu vera nægjanlega hátt yfir tengistað aðalfrárennslis byggingarinnar .
Fráveitukerfi skal þannig hannað að ekki sé hætta á að flæði inn í hús þar sem aðstæður eru þannig að hætta er á bakrennsli frá stofnlögnum í götu .

14.6.9. gr .Stærðarákvörðun

Fráveitulagnir bygginga sem eingöngu flytja skólp skulu stærðarákvarðaðar og gerðar þannig að þær geti flutt burt allt aðstreymandi skólp jafnóðum svo að hvergi verði vatnsuppistöður eða önnur rennslistruflun .
Regnvatns- og þerrilagnir skulu þannig hannaðar og frágengnar að ekki sé hætta á að jarðvatn og vatnssöfnun geti valdið skaða á byggingunni eða einstaka hlutum hennar, eða öðrum óþægindum, t.d. fyrir vegfarendur .
Við ákvörðun á hönnunarforsendum regnvatnslagna skal miðað við tíu mínútna hámarksúrkomu viðkomandi svæðis skv. gögnum Veðurstofu Íslands .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.