14.9.1. gr .Almennar kröfur

Aftur í: 14.9. KAFLI. Loftræsibúnaður

Um kröfur til gæða innilofts í byggingum gilda ákvæði 10.2. og 10.3. kafla. Gerð skal grein fyrir gerð, eiginleikum og afköstum loftræsibúnaðar á lagnauppdráttum og í greinargerð hönnuðar .
[Stýring loftræsibúnaðar skal vera þannig að hægt sé að draga tímabundið úr loftmagni þegar þörf á loftræsingu innan byggingar eða rýmis minnkar.]1) Þar sem þörf fyrir loftræsingu er breytileg vegna fjölbreyttrar starfsemi eða breytilegs álags í byggingum skulu afköst loftræsibúnaðar nægjanleg og stýring hans þannig að þörf fyrir loftræsingu sé ávallt fullnægt .
[Loftræsikerfi bygginga skal þannig hannað, uppsett og frágengið að uppfyllt séu ákvæði staðalsins ÍST EN 13779 og kröfur til eldvarna skv. 9. hluta þessarar reglugerðar. Ákvæði staðalsins eiga einnig við um stærðir tæknirýma og lagnaleiða.]1) Við hönnun, uppsetningu og frágang loftræsikerfa ber ávallt að velja lausnir sem taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á inniloft rýmisins sem á að loftræsa, þannig að þar séu fullnægjandi loftgæði .
Ef loftræsikerfi er ætlað að þjóna mismunandi rýmum og hætta er á gufum, miklum loftraka eða ögnum í lofti, s.s. vegna reyks, matarlyktar o.þ.h., skal valin lausn sem tekur tillit til allra aðstæðna og tryggir fullnægjandi loftgæði hvers einstaks rýmis .
Búnað til að auka rakainnihald innblásins lofts í byggingum skal aðeins setja upp að því tilskildu að rekstraröryggi búnaðarins sé fullnægjandi og tryggð sé hollusta inniloftsins .
Útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skal ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skal vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu .
Útsog frá eldhúsi, baðherbergjum og salernum skal almennt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks .
[...]2) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 59. gr .2) Rgl. nr. 350/2013, 51. gr .14.9.2. gr .Orkunotkun .
Leitast skal við að lágmarka heildarorkunotkun loftræsikerfa í byggingum .
Almennt skal stefnt að því að varmaendurvinnsla sé á varma í útsogslofti loftræsikerfa bygginga. Stefnt skal að því að hitanýtni varmaendurvinnslu sé a.m.k. 70% og telst blöndun fersklofts og útsogslofts ekki koma í stað endurnýtingar varmaorku. Slík tilmæli um endurnýtingu varmaorku útsogslofts eiga ekki við þar sem hægt er að rökstyðja að ekki sé hagkvæmt að endurnýta orkuna á þennan hátt .
Í loftræsikerfum með föstu loftmagni skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 2,0 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Í loftræsikerfum með breytilegu loftmagni skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 2,2 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Vegna vélræns útsogs án vélræns innblásturs skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 0,9 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Ákvæði 3. til 5. mgr. eiga ekki við um loftræsikerfi tengd iðnaðarframleiðslu eða þegar árleg notkun raforku vegna flutnings loftmassans er minni en 400 kWh .
Rafmagnsaflþörf loftræsikerfa íbúða við mesta álag, þar sem aðfærsla lofts er ýmist stöðug eða breytileg og varmi er endurnýttur, skal ekki vera meiri en 1,2 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.