Aftur í: 2.3. KAFLI Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir
Tilkynningum til leyfisveitanda smkvæmt ákvæðum 2.3.5. gr. skulu fylgja eftirfarandi gögn:
a. Greinargerð hönnuðar um að breytingin sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. og rökstuðningur fyrir því að breytingin uppfylli kröfur reglugerðar þessarar og samræmist skipulagsáætlunum .
b. Viðeigandi hönnunargögn þar sem gerð er grein fyrir breytingunni .
Greinargerðir og hönnunargögn skv. 1. mgr. skulu gerð af löggiltum hönnuðum á þeim sérsviðum sem breytingin nær til og gilda allar viðeigandi kröfur 4.2. – 4.5. kafla um hönnunargögnin. Hönnuður sem áritar slíka uppdrætti og greinargerð ber ábyrgð á því gagnvart eiganda að framkvæmdin sé hönnuð á faglega fullnægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð .
Yfirferð leyfisveitanda vegna framkvæmda sem tilkynntar eru skv. 2.3.5. gr. takmarkast við það að fara yfir hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og hún sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í ákvæðinu. Ef ekki fylgja tilkynningu gögn, sbr. 1. mgr., eða þau eru ekki undirrituð af löggiltum hönnuði getur leyfisveitandi krafist þess að sótt verði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni .
Leyfisveitandi skal staðfesta móttöku tilkynningar eins fljótt og unnt er og tilkynnir hann viðkomandi innan 20 virkra daga um það hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. Eiganda er heimilt að hefja framkvæmd eða breytingu sem tilkynnt hefur verið leyfisveitanda þegar honum hefur borist tilkynning hans um að hún sé í samræmi við skipulagsáætlanir og innan þeirra marka sem tilgreind eru í 2.3.5. gr. Leyfisveitandi getur með skriflegum hætti áskilið sér lengri frest, allt að 20 virkum dögum, og skal hann þá tilgreina ástæður tafanna og hvenær tilkynningar sé að vænta .
Tilkynning veitir aldrei heimild til að hefja framkvæmdir ef um byggingarleyfisskylda framkvæmd er að ræða .
Þegar um er að ræða minniháttar breytingar á burðarveggjum og eldvarnarveggjum skv. a-lið 2.3.5. gr .og framkvæmdir og breytingar samkvæmt h-, i- og j-liðum sömu greinar skal eigandi senda leyfisveitanda stutta lýsingu með upplýsingum um lok framkvæmdarinnar sem skal árituð af þeim aðila sem sá um framkvæmdina eða breytinguna .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 3. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.