2.4.1. gr .Umsókn um byggingarleyfi

Aftur í: 2.4. KAFLI Byggingarleyfið

Umsókn um byggingarleyfi skal vera skrifleg og send hlutaðeigandi leyfisveitanda. Á fyrra stigi umsóknar, þ.e. vegna byggingaráforma, skal skila inn gögnum sem tilgreind eru í 2. mgr. Á seinna stigi, þ.e .
vegna endanlegrar afgreiðslu byggingarleyfis, skal skila inn gögnum sem tilgreind eru í 3. mgr. Heimilt er að samþykkja byggingaráform og gefa út byggingarleyfi samtímis hafi öllum gögnum verið skilað til leyfisveitanda .
Gögn vegna samþykktar byggingaráforma eru eftirtalin:
a. Aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu á pappír eða á rafrænu formi samkvæmt ákvörðun leyfisveitanda. [Sé bygging eða starfsemi sér­staks eðlis getur leyfisveitandi krafist þess að viðbótargreinargerð fylgi umsókn auk greinargerða skv. 4.5.3. gr.]3) Ennfremur skal fylgja mæli- og hæðarblað er sýnir götunafn og númer, afstöðu húss og lóðar, hæðarlegu miðað við götu, eftir því sem við á og hnitaskrá og landnúmer. Leyfisveitandi ákveður hvort og að hvaða leyti leggja þarf fram aðaluppdrætti vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum
b. Tilkynning um hönnunarstjóra mannvirkisins .
c. Samþykki meðeigenda eða annarra aðila eftir atvikum .
d. Önnur gögn sem leyfisveitandi telur nauðsynleg vegna afgreiðslu umsóknar, s.s. umsögn [Minjastofnunar Íslands]1), Vinnueftirlits ríkisins, slökkviliðs og annarra eftirlitsaðila og gögn sem sýna fram á eignarheimildir, réttindi hönnuða o.fl .
e. Staðfesting skipulagsfulltrúa viðkomandi sveitarfélags ef mannvirki er á varnar- og öryggissvæði á því að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu .
f. Skráningartafla vegna allra nýrra mannvirkja svo og vegna breytinga á stærð eða breytinga á eignarmörkum eldri mannvirkja .
Vegna útgáfu byggingarleyfis ber, til viðbótar gögnum skv. 2. mgr., að leggja fram eftirfarandi gögn:
a. [Áætlun um verkframvindu]2)
b. Undirritaða yfirlýsingu byggingarstjóra um ábyrgð á viðkomandi framkvæmd .
c. Undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu [húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara og rafvirkjameistara]2) sem ábyrgð bera á einstökum verkþáttum .
d. Yfirlit hönnunarstjóra um innra eftirlit við framkvæmd hönnunar .
e. Yfirlit hönnunarstjóra um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða og áritun hans til staðfestingar á því að um tæmandi yfirlit sé að ræða .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 1. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018 3. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 6. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.