Aftur í: 2.4. KAFLI Byggingarleyfið
Leyfisveitanda er heimilt að krefjast prófunar, vottunar eða skoðunar á mannvirki, hlutum þess eða tæknibúnaði á kostnað umsækjanda ef rökstuddur grunur er um að það uppfylli ekki kröfur laga um mannvirki eða þessarar reglugerðar eða ef viðkomandi hlutur eða tæknibúnaður hefur ekki verið notaður áður við sambærilegar aðstæður eða á sambærilegan hátt .
Standist mannvirkið eða hluti þess ekki prófun, vottun eða skoðun skal leyfisveitandi gefa eiganda hæfilegan frest til að gera nauðsynlegar úrbætur. Geri eigandi ekki nauðsynlegar úrbætur getur leyfisveitandi gripið til viðeigandi úrræða, sbr. 2.9. kafla .
Þegar sérstaklega stendur á getur leyfisveitandi við útgáfu byggingarleyfis sett skilyrði um að prófun, vottun eða skoðun skuli framkvæmd á kostnað umsækjanda eftir að mannvirki er tekið í notkun, til að tryggja að uppfyllt séu ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar þessarar og að gerðar séu viðeigandi aðgerðir til úrbóta .
Prófun, skoðun og vottun skal fara fram í samræmi við viðeigandi staðla af aðila sem viðurkenndur er af [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1). Heimilt er leyfisveitanda að krefjast þess að faggiltur aðili annist þetta, sbr. lög um faggildingu o.fl. Séu ekki til staðlaðar prófunarlýsingar skal prófandi leggja fram skriflega lýsingu um prófunina ásamt rökstuðningi fyrir réttmæti prófunaraðferðar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.