Aftur í: 6.4. KAFLI. Umferðarleiðir innan bygginga
Stigar og tröppur bygginga skulu þannig hannaðar og byggðar að þær séu öruggar fyrir notanda og þægilegar til gangs. Þær skulu gerðar úr traustum efnum og þannig gerðar að hættu á slysum sé haldið í lágmarki .
Greið leið skal vera að stigum [og tröppum]1) og merkingar sem vísa til þeirra skulu vera fullnægjandi að fjölda og gerð .
Sé þörf á tröppum í byggingum eða á svæðum sem almenningur hefur aðgang að skal reynt að hafa ekki færri uppstig en þrjú í hverjum tröppum. Eftir fremsta megni skal forðast að setja eitt þrep sem tröppu .
Almennt ber að forðast að hafa hvassan kant á frambrún þreps í byggingum eða slétta kanta, t.d. úr stáli eða öðrum efnum sem geta verið hál .
Bil milli þrepa í opnum stigum bygginga má ekki vera meira en 89 mm. Sé bil samsíða stiga, t.d. milli stiga og veggjar eða milli stigapalls og veggjar má slíkt bil ekki vera meira en 50 mm að breidd nema því aðeins að aðgangur að því sé hindraður t.d. með handriði .
Merking hæðarbreytinga í byggingum og stigapalla skal vera í samræmi við leiðbeiningar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) .
Hönnun, frágangur og gerð stiga, s.s. opinna stiga, brunastiga o.þ.h., skal vera þannig að ekki sé hætta á að sjónskertir eða blindir gangi á þá eða innundir þá .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 16. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.