6.4.12. gr .[Lyftur og lyftupallar

Aftur í: 6.4. KAFLI. Umferðarleiðir innan bygginga

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um lyftur og lyftupalla:
1. Lyftur skulu vera í mannvirkjum, öðrum en einbýlishúsum, raðhúsum og parhúsum, í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar. Kröfurnar eru lágmarkskröfur og ber hönnuðum ávallt að meta þörf fyrir lyftur í mannvirki umfram lágmarkskröfur með hliðsjón af fyrirhugaðri notkun .
2. Aðgengi milli hæða í nýbyggingum skal ekki leysa á annan hátt en með stigum og stokkalyftum. Í áður byggðu húsnæði, þar sem erfitt er að koma fyrir stokkalyftu, má leysa aðgengi milli hæða með hjólastólapallslyftu, stigalyftu fyrir hjólastól eða sætislyftu sem komið er fyrir í stiga. Þá skulu þær þannig gerðar að notandi geti nýtt sér búnaðinn án aðstoðar. [Umfang flatarins (virks svæðis) á hjólastólapallslyftu skal vera minnst 0,90 x 1,40 m og á stigalyftu fyrir hjólastól minnst 0,80 x 1,20 m.]2)
3. Staðsetja ber lyftur þannig að nýting þeirra verði sem best með tilliti til umferðar innan byggingarinnar .
Greið leið skal vera að lyftum og merkingar sem vísa til þeirra skulu vera fullnægjandi að fjölda og gerð. Lyftur til fólksflutninga og aðkoma að þeim skulu þannig hannaðar og frágengnar að þær henti til notkunar fyrir þá einstaklinga sem taldir eru upp í 6.1.2. gr. Hindrunarlaust umferðarmál dyraops að lyftu skal að lágmarki vera [0,80 m að breidd og 2,00 m]2) að hæð .
4. Minnst ein lyfta skal vera í öllum byggingum sem eru tvær eða fleiri hæðir og hýsa opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði eða annað þjónustuhúsnæði s.s. skrifstofur, þjónusturými [iðnaðar­húsnæðis]3) og verslanir svo og starfsemi sem almenningur hefur aðgang að .
5. Í öllum byggingum sem eru þrjár hæðir eða hærri skal minnst vera ein lyfta. Ekki þarf þó lyftu í þriggja hæða íbúðarhús ef hvergi í byggingunni er meira en ein hæð milli aðalaðkomuleiðar og inngangs annars vegar og inngangs að íbúð hins vegar, t.d. ef bygging stendur í halla og aðalinngangur er á miðhæð. [Einnig er heimilt að víkja frá kröfu um lyftu í þriggja hæða íbúðarhúsi með fjórum íbúðum eða færri í þegar byggðu hverfi. Slíkt er þó eingöngu heimilt þegar um nýbyggingu er að ræða á lítilli lóð. Skilyrði er að krafa um lyftu leiði til verulegrar óhagkvæmni sökum þess að rýmisþörf hennar sé verulega mikil borin saman við annað rými íbúðarhússins. Skal hönnuður rökstyðja slíkt skriflega í greinargerð.]2)
6. Í byggingum sem eru átta hæðir eða hærri skulu minnst vera tvær lyftur. Leyfisveitandi getur gert frekari kröfur um lyftur þar sem aðstæður gefa tilefni til .
7. Lyftur skv. 4.-6. lið skulu vera með innanmál minnst 1,10 m x 2,10 m og burðargetu að lágmarki 1.000 kg. [Þó er heimilt í þriggja hæða íbúðarhúsi að hafa minni lyftu að því tilskildu að hún henti til notkunar fyrir fólk í hjólastól. Sama gildir um lyftur í átta hæða íbúðarhúsi eða hærra að því tilskildu að a.m.k. ein lyfta uppfylli kröfur 1. málsl. Þegar vikið er frá kröfum 1. málsl. skal burðargeta lyftu vera að lágmarki 630 kg.]2)
8. Séu fleiri lyftur til fólksflutninga innan mannvirkis en lágmarkskröfur þessarar reglugerðar kveða á um, skal stærð þeirra vera þannig að þær henti til notkunar fyrir fólk í hjólastól [og burðargeta þeirra vera að lágmarki 630 kg.]2)
9. Lyftur skulu þjóna hverri hæð bygginga .
10. Lyftur má ekki nota í eldsvoða nema þær séu sérstaklega hannaðar og byggðar til slíkra nota. Skal skýrri og áberandi aðvörun um að slík notkun sé óheimil komið fyrir við lyftudyr .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um lyftur og lyftupalla:
1. Lyfta skal staðnæmast á hæð undir aðalinngangshæð þar sem eru bílgeymslur, almennar geymslur, þvottahús eða önnur starfsemi. Sama gildir um ris og annað þakrými séu þar íbúðir, starfsemi eða geymslur.
2. Þegar lyftudyr opnast skal það gefið til kynna með hljóði. Hljóðið getur verið hljóðmerki eða töluð skilaboð. Staðsetning lyftu á hæð skal tilgreind með hljóð- og ljósmerki, bæði í lyftu og framan við lyftu .
3. Á minnst einum vegg í lyftu skal vera handlisti í hæfilegri hæð .
4. Hnappur við lyftudyr skal vera í 0,70 m til 1,20 m hæð frá gólfi. Gerð hnappa og fyrirkomulag skal vera skv. leiðbeiningum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3).
5. Hnappaborð í lyftu skal staðsetja minnst 0,50 m frá innhorni og í minnst 0,70 m og mest 1,20 m hæð frá gólfi og skal gerð þeirra vera í samræmi við leiðbeiningar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3).
6. [Hindrunarlaust athafnasvæði fyrir hjólastóla og sjúkraflutninga framan við lyftu skal vera minnst 1,80 m að breidd meðfram lyftudyrum og lengd þess minnst 2,00 m. Þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði allt að þremur hæðum skal athafnasvæðið þó minnst vera 1,50 m að breidd meðfram lyftudyrum og lengd þess minnst 1,50 m.]2)
7. Sé gert ráð fyrir að samskipti við lyftunotanda, sem hefur ýtt á neyðarhnapp, fari fram í gegnum samtalskerfi sem tengir lyftuklefa við þjónustumiðstöð skal samtalskerfið vera þannig að ljós kvikni þegar upplýsingar um neyðarkall eru mótteknar .
8. [...]2) [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
1) Rgl. nr. 350/2013, 17. gr . 1) Rgl. nr. 350/2013, 18. gr .
2) Rgl. nr. 280/2014, 15. gr
3) Rgl. nr. 977/2020, 2. gr. 3) Rgl. nr. 977/2020, 15. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.