6.8.3. gr .Algild hönnun snyrtinga og baðherbergja

Aftur í: 6.8. KAFLI. Byggingar til annarra nota en íbúðar

Í byggingum sem falla undir þennan kafla og eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar, skulu a.m.k .
eitt af hverjum tíu baðherbergjum og/eða snyrtingum á hverri hæð vera fyrir hreyfihamlaða [þó aldrei færri en eitt]1). Snyrtingarnar skulu taldar með í heildarfjölda snyrtinga hverrar byggingar og uppfylla eftirfarandi kröfur:
a. Stærð, grunnflötur og innrétting rýmis skal vera þannig að hindrunarlaust snúningssvæði, 1,80 m að þvermáli, sé framan við salerni og einnig sé hindrunarlaust svæði, minnst 0,90 m breitt, beggja vegna salernis. Armstoðir skulu vera beggja vegna salernis .
b. Undir handlaug skal vera nægjanlegt hindrunarlaust svæði svo hægt sé að komast að handlauginni í hjólastól .
c. Sturtusvæði skal vera þreplaust og minnst 1,60 m x 1,30 m að stærð. Sturtuhaus skal vera hæðarstillanlegur. Svæðið skal vera með vegghengdum stuðningsslám/búnaði .
d. Gólf og veggir skulu vera með sýnilegum og skýrum litamun. Sama gildir um litamun fasts búnaðar við gólf og veggi .
Í atvinnuhúsnæði skal a.m.k. eitt baðherbergi og/eða snyrting á hverri hæð uppfylla kröfur 1. mgr. um aðgengi beggja vegna salernis. Koma skal fyrir fleiri snyrtingum fyrir hreyfihamlaða á hæðinni ef vegalengd frá vinnustöð að snyrtingu er meiri en 25 m .
Séu fleiri en ein snyrting á hverri hæð atvinnuhúsnæðis er heimilt að þær séu með aðgengi að salerni frá sitt hvorri hlið. Slíkar snyrtingar skulu vera með a.m.k. 0,90 m breiðu, hindrunarlausu svæði öðru megin salernis og hinu megin, þ.e. á þeirri hlið sem handlaugin er, skal vera samsvarandi svæði, a.m.k. 0,50 m að breidd. Fjarlægð milli handlaugar og salernis skal vera slík að hægt sé að ná til blöndunartækja af salerninu .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 34. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.