10.2.5. gr .[Loftræsing íbúða og tengdra rýma

Aftur í: 10.2. KAFLI. Loftgæði og loftræsing

Meginreglur:
Eftirfarandi meginreglur gilda um loftræsingu íbúða og tengdra rýma:
1. Öll rými íbúða og íbúðarhúsa skulu loftræst. Heimilt er að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Loftræsing skal henta viðkomandi rými þannig að magn fersklofts sé fullnægjandi til að komið sé í veg fyrir lyktarmengun og rakamettun innilofts. Útsog skal vera úr eldhúsi, baðherbergi íbúðar, minni snyrtingum, þvottaherbergjum, stökum geymslum og kjallaraherbergjum. Útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi má ekki draga gegnum önnur rými hússins .
2. Íverurými eru loftræst þannig að magn fersklofts sem berst til rýmis sé minnst 0,3 l/s á m² gólfflatar á meðan rýmið er í notkun og minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar meðan rýmið er ekki í notkun. Miða skal við að íbúðir aldraðra og sérhæfðar íbúðir fatlaðra séu í notkun allan sólarhringinn .
3. Magn fersklofts sem berst til svefnherbergis skal aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið er í notkun. Önnur rými þar sem ekki er gert ráð fyrir stöðugri viðveru er heimilt að loftræsa þannig að magn fersklofts sé minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar. Meta skal þörf fyrir loftræsingu í öðrum rýmum, s.s. sameiginlegum göngum, gufuböðum o.þ.h .
Viðmiðunarreglur:
Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um ákvörðun loftmagns í íbúðum og tengdum rýmum:
1. Tryggja skal að eftirfarandi loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar:
a. Útsog úr eldhúsi íbúðar: 30 l/s .
b. Útsog úr baðherbergi íbúðar: 15 l/s .
c. Útsog úr minni snyrtingum: 10 l/s .
d. Útsog úr stökum geymslu- eða kjallaraherbergjum þar sem ekki er stöðug viðvera: 0,2 l/s á m² gólfflatar. Þegar geymslurými er innan íbúðar er heimilt að rýmið sé loftræst á sama hátt og íverurými íbúðarinnar .
e. Útsog frá þvottaherbergi einnar íbúðar: 20 l/s .
f. Sameiginlegt þvottaherbergi með samnýttum þvottavélum fyrir 2 íbúðir eða fleiri: 30 l/s á hverja þvottavél .
g. Stigahús: 17 l/s .
h. Sorpgeymslur: 0,6 l/s á m², þó að lágmarki 20 l/s .
2. Aðstreymi lofts að eldhúsi, baðherbergi, salerni eða þvottahúsi má koma frá aðliggjandi rýmum með minna mengunar- eða rakaálagi.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 22. gr .[...]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 47. gr . [

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.