Aftur í: 2. HLUTI STJÓRN MANNVIRKJAMÁLA
Ef byggingarleyfisskyld framkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag, mannvirki er tekið í notkun án þess að öryggisúttekt hafi farið fram eða ef mannvirki er tekið til annarra nota en heimilt er samkvæmt útgefnu byggingarleyfi getur leyfisveitandi stöðvað slíkar framkvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildir ef ekki er að öðru leyti fylgt ákvæðum laga um mannvirki eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina .
Ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur leyfisveitandi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað .
Reynist öryggi mannvirkis ábótavant við öryggis- eða lokaúttekt þess eða það telst skaðlegt heilsu skal leyfisveitandi fyrirskipa lokun þess og koma í veg fyrir að mannvirkið verði tekið í notkun fyrr en úr hefur verið bætt .
Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða byggingarfulltrúa og [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) við þær aðgerðir er greinir í 1. til 3. mgr .Sveitarfélag eða ríkið eftir atvikum á endurkröfu á eiganda mannvirkis vegna kostnaðar sem það hefur haft af ólöglegri mannvirkjagerð og lögveð fyrir kröfu sinni í hinu ófullgerða mannvirki, byggingarefni og lóð sem um ræðir .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1), eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sama gildir ef vanrækt er að láta fara fram úttektir samkvæmt lögum um mannvirki eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, ef notkun mannvirkis er breytt án samþykkis byggingarfulltrúa eða ef notkun mannvirkis brýtur í bága við skipulag .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) og byggingarfulltrúa er heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögum um mannvirki eða reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim, eða láta af ólögmætu atferli. Dagsektir sem byggingarfulltrúi leggur á renna í sveitarsjóð en í ríkissjóð ef [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) leggur þær á .
Byggingarfulltrúi og [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) geta látið vinna verk, sem þau hafa lagt fyrir að unnið skyldi, á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið .
Dagsektir og kostnað skv. 2. og 3. mgr. má innheimta með fjárnámi og hefur sveitarfélag eða eftir atvikum ríkið lögveð fyrir kröfu sinni í hinu ófullgerða mannvirki, byggingarefni og lóð sem um ræðir .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Ef hönnuður, byggingarstjóri eða iðnmeistari brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulags- og byggingarmálefni, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða eða alvarlega óvarkárni í starfi getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) veitt honum áminningu. Séu brot alvarleg eða ítrekuð getur [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) svipt hönnuð eða iðnmeistara löggildingu .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) getur svipt byggingarstjóra starfsleyfi ef hann uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef byggingarstjóri brýtur ákvæði laga, reglugerða eða samþykkta um skipulagsog byggingarmálefni, vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða eða alvarlega óvarkárni í starfi .
Byggingarfulltrúi sem verður áskynja um brot hönnuðar, byggingarstjóra eða iðnmeistara samkvæmt þessari grein skal tilkynna um það til [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.