8.1.4. gr .Undirstöður

Aftur í: 8.1. KAFLI. Markmið og almennar kröfur

Undirstöður mannvirkja skulu standa á föstum burðarhæfum botni, klöpp eða burðarhæfum og frostþolnum jarðvegi. Þær skulu þannig hannaðar og byggðar að ekki geti orðið tjón af völdum hreyfinga í jarðvegi, t.d. vegna sigs eða frostlyftinga. Á jarðskjálftasvæðum skal sérstaklega tekið tillit til þeirra skjálftahreyfinga sem verða í jarðvegi af völdum jarðskjálfta .
Liggi ekki fyrir staðfesting á því að jarðvegur sé frostþolinn skulu undirstöður mannvirkis ná niður á frostfrítt dýpi, þ.e. 1,2 - 2,0 m niður fyrir endanlegt jarðvegsyfirborð við útveggi .
Ef undirstöður mannvirkja eiga að hvíla á fyllingu skal byggingarstjóri leggja fram fullnægjandi gögn frá faggiltri rannsóknarstofu á viðkomandi sviði eða rannsóknarstofu sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) viðurkennir um burðarþolsprófun fyllingarinnar sem staðfestir að fyllingin þoli þá áraun sem henni er ætlað að þola .
Undirstöður mannvirkja skulu vera úr varanlegu efni og skal breidd þeirra valin í samræmi við burðarþol jarðvegs og það álag sem þær eiga að bera. Þær skulu þola þá veðrun og/eða hrörnum sem gera má ráð fyrir að þær verði fyrir á endingartíma mannvirkis .
Þar sem annað efni en steinsteypa er notað í undirstöður mannvirkja eða þar sem breidd undirstöðu er minni en 200 mm skal hönnuður ávallt rökstyðja á uppdrætti fullnægjandi styrk og endingu undirstaða .
Undirstöður mannvirkja skulu ganga minnst 300 mm undir neðri brún botnplötu eða 300 mm undir yfirborð frágengins jarðvegs og skal sá kostur valinn sem gefur dýpri undirstöðu .
Á uppdrætti af undirstöðum skal hönnuður rita hvert sé nafnálag á undirstöðujarðveg. Við mat á nafnálagi skal þess gætt að burðarminni jarðvegur liggi ekki dýpra .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.