9.5.4. gr. [Ein flóttaleið frá notkunareiningu

Aftur í: 9.5. KAFLI. Rýming við eldsvoða

Meginreglur: Heimilt er að ein flóttaleið sé frá íbúð eða notkunareiningu þegar slíkt hefur ekki í för með sér sérstaka hættu og um er að ræða lítið rými sem ætlað er fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Flóttaleiðin skal liggja beint út á öruggan stað undir beru lofti á jörðu niðri eða að gangi sem er sjálfstætt brunahólf og liggur í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum.

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um notkunareiningar með eina flótta­leið.

a. Í greinargerð brunahönnuðar skal sýna fram á að flóttaleið frá rýminu liggi að öruggum stað og að meginmarkmiðum sé náð.
b. Sjálfvirk brunaviðvörun skal vera samkvæmt 9.4.2. gr.
c. Rýmið skal vera sér brunahólf.
d. Hámarksgöngulengd skal mæld með veggjum og hornrétt á þá samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr. og gönguleiðir reiknast tvöfalt í samræmi við töflu 9.04. Með vatnsúðakerfi má lengja göngulengdir um 30% skv. 4. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr.
e. Innréttingar í rýminu skulu vera með þeim hætti að góð yfirsýn sé að útgangi og hindrunar­lausri greiðfærri flóttaleið. Sé yfirsýn takmörkuð skal nota brunaviðvörun, neyðarlýsingu og merkingar sem mótvægi eins og þörf krefur.
f. Meta skal brunaálag og brunaáhættu í notkunareiningum. Sé það meira en almennt gerist skal nota vatnsúðakerfi sem mótvægi eins og þörf krefur.
g. Notkunareiningar í flokki 3, 5, og 6 skulu vera með vatnsúðakerfi.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
1) Rgl. nr. 977/2020 37. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.