9.5.9. gr .Dyr í flóttaleið

Aftur í: 9.5. KAFLI. Rýming við eldsvoða

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um dyr í flóttaleið:
1. Dyr í flóttaleið bygginga skulu vera vel merktar og sýnilegar. Þær skulu opnast í flóttaátt og skal vera auðvelt að opna þær án tafar og án þess að nota lykil eða sérstök verkfæri.
2. Í rýmum bygginga þar sem ekki er hætta á þvögumyndun, [...]2) og allir eru kunnugir umhverfinu, má nota hurðir sem opnast á móti flóttaátt í flóttaleiðir eða láréttar handvirkar rennihurðir. Þar sem aðgangsstýring eða raflæsing er á dyrum og þar sem opnunarbúnaður er á dyrum fyrir hreyfihamlaða skal sá búnaður einnig vera virkur við eldsvoða og straumleysi. Þess skal gætt að opnar hurðir þrengi ekki flóttaleið og hindri þannig rýmingu.
3. Ekki er heimilt að hafa í flóttaleiðum læstar hurðir sem eingöngu eru opnanlegar með boði frá sjálfvirku brunaviðvörunarkerfi.
4. Í byggingum með rafrænum aðgangsstýringum í flóttaleiðum skal gerð grein fyrir þeim á aðaluppdráttum og sýnt fram á að þær hindri ekki flótta frá byggingunni.
5. Byggingar fyrir dýr og aðrar sambærilegar byggingar skulu þannig gerðar að auðvelt sé að koma dýrum út ef eldur verður laus.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um dyr í flóttaleið:
[1. Í rýmum þar sem fólks­fjöldi er 30 manns eða færri er almennt ekki hætta á þvögumyndun.]2)
2. Hurðir í flóttaleið skulu vera hliðarhengdar.
3. Þegar ekki er góð yfirsýn yfir flóttaleið skal tryggt að hægt sé að rýma til baka frá flóttaleið og að annarri óháðri, reynist sú fyrri ekki greiðfær.
4. Fyrir notkunareiningu með fleiri en 50 manns skal nota opnunarbúnað skv. ÍST EN 179 í flóttaleiðum en skv. ÍST EN 1125 í einingum sem rúma yfir 150 manns.
5. Nota má sneril án hlífar fyrir hurðir sem þjóna allt að 30 manns. Opnunarbúnaður skal vera staðsettur u.þ.b. 1,0 m yfir gólfi.
6. Hurðir með aðgangsstýringu í flóttaleið skulu vera með brotrofa við dyrnar, sem rýfur straum að læsingunni þannig að hún opnist. Rofinn skal vera grænn á litinn og rækilega merktur:
„Neyðarútgangur – Brjótið glerið“.
7. Véldrifnar hurðir, rennihurðir, hverfihurðir og álíka hurðir í byggingum má ekki reikna sem flóttaleið fyrir mikinn mannfjölda, nema þær séu opnanlegar með handafli í flóttaáttina og uppfylli að öllu leyti kröfur um dyr í flóttaleiðum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir miklum mannfjölda má heimila notkun á rafdrifnum hurðum eða rennihurðum í flóttaleið ef tryggt er að dyrnar opnist við straumrof og við boð frá reykskynjara. Hnappur til opnunar skal vera við hliðina á hurðarhúni og vera vel sýnilegur og merktur. Hnappinn skal staðsetja u.þ.b. 1,0 m yfir gólfi og skal hann vera upplýstur af neyðarlýsingarlampa, minnst 5 lux, og merktur með skilti sem er minnst 0,10 m x 0,15 m með mynd af lykli og með textanum:
„Neyðaropnun“.
8. Hindrunarlaus umferðarbreidd dyra í mannvirkjum fyrir dýr skal vera 0,87 m en 1,2 m fyrir stórgripi og skulu minnst tvennar dyr vera á hverju húsi.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 41. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.