3.8.1. gr .Framkvæmd öryggisúttektar

Aftur í: 3.8. KAFLI Öryggisúttekt .

Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum [í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista]1). Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og leyfisveitandi hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt. [Kröfur um aðgengi sem varða öryggisþætti skulu vera uppfylltar í samræmi við samþykkta uppdrætti og ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista.]2) Heimilt er að gera samtímis öryggis- og lokaúttekt .
[Framkvæmi skoðunarstofa öryggisúttekt skal heimild leyfisveitanda til úttektarinnar liggja fyrir áður en hún fer fram.]1) Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun .
Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir öryggisúttekt. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal leyfisveitandi boða til slíkrar úttektar þegar honum er kunnugt um að notkun sé hafin og skal hann tilkynna það [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) .
Byggingarstjóri eða eigandi sem óskar eftir öryggisúttekt skal tilgreina […]1) hve langt verk er komið .
Sé óskað öryggisúttektar vegna hluta mannvirkis skal tilgreint við hvaða hluta er átt og skal þá ástandi þess hluta lýst og jafnframt gerð almennt grein fyrir ástandi annarra hluta mannvirkisins .
Fyrirhuguð starfsemi í viðkomandi mannvirki skal tilgreind við öryggisúttekt og [skulu öryggis- og hollustuháttakröfur uppfylltar]1) í samræmi við fyrirhugaða starfsemi. Eigandi ber ábyrgð á og hefur það hlutverk að rökstyðja að allar slíkar kröfur séu uppfylltar, komi þær ekki óumdeilanlega fram á samþykktum uppdráttum .
Viðstaddir öryggisúttekt skulu auk eftirlitsaðila og byggingarstjóra vera fulltrúi slökkviliðs og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða byggingarstjóri eða úttektarmaður hefur boðað. Leyfisveitanda er heimilt að óska eftir að fulltrúi heilbrigðiseftirlits, Vinnueftirlits ríkisins eða annarra hollustu- eða öryggisstofnana sé viðstaddur eða að hann hafi staðfest skriflega að mannvirkið uppfylli þeirra kröfur, þegar starfsemin varðar slíka þætti .
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 15. gr.
[
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.