Aftur í: 4.2. KAFLI Hönnunargögn
Öllum uppdráttum skal skila, samkvæmt ákvörðum leyfisveitanda, á haldgóðum pappír eða á rafrænu formi.
Uppdrættir skulu vera skýrir og skipulega fram settir. Þannig skal frá uppdráttum á pappír gengið að þeir máist ekki við geymslu. Við gerð allra uppdrátta skal nota þau tákn sem gildandi og leiðbeinandi staðlar gera ráð fyrir .
Stærðir uppdrátta skulu vera skv. ÍST 1, þ.e. A0, A1, A2 eða A3. Efst í hægra horni skal afmarkaður 70 mm hár og 100 mm breiður reitur til áritunar fyrir byggingarfulltrúa .
Nafnreitur skal vera neðst í hægra horni uppdráttar innan ramma. Í nafnreit skal skrá heiti þess sem teiknað er, þ.e. götu og númer og annað auðkennisheiti sé það fyrir hendi, mælikvarða, númer uppdráttar og undirritunardag uppdráttar. Með undirritun hönnuðar á uppdrátt skal einnig rituð kennitala hans. Í nafnreit skal gert ráð fyrir reit fyrir undirritun hönnunarstjóra .
Breytingar á uppdrætti skal tölusetja, dagsetja og undirrita í sérstökum reit ofan nafnreits og geta með athugasemd í hverju breytingin felst. Jafnframt skal koma fram í nafnreit auðkenni sem gefur til kynna að teikningu hafi verið breytt .
Uppdrætti skal gera í mælikvörðum 1:500, 1:200, 1:100, 1:50, 1:20, 1:10, 1:5 og/eða 1:1 .
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.