4.4. KAFLI Aðrir uppdrættir

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.4.1. gr .[Séruppdrættir og aðrir uppdrættir

Á uppdráttum sem tilgreindir eru í þessum kafla skal gera grein fyrir því hvernig kröfur reglugerðar þessarar eru uppfylltar. Jafnframt skal gera grein fyrir málsetningum, frágangi einstakra byggingarhluta, tæknibúnaði og öðru sem nauðsynlegt er til að fullgera mannvirki að utan og innan .
Uppdrættir sem tilgreindir eru í þessum kafla eru háðir samþykki leyfisveitanda og skulu áritaðir af honum því til staðfestingar .
Séruppdráttur er uppdráttur sem sýnir m.a. útfærslu einstakra byggingar- og mannvirkjahluta og tæknibúnaðar og skipulag lóða, ásamt tilvísunum í staðla um efniskröfur og annað sem þarf til að fullgera mannvirki að utan og innan. Séruppdrættir eru eftir eðli máls m.a. lóðaruppdrættir, burðarvirkisuppdrættir og lagnakerfauppdrættir. Séruppdrættir skulu vera með tilheyrandi deiliuppdráttum .
Hlutauppdrættir og deiliuppdrættir til nánari skýringar á aðal- og séruppdráttum skulu vera í mælikvarða 1:20, 1:10, 1:5 og 1:1 eftir því sem við á .
Óheimilt er að gera einstaka áfangaúttekt á mannvirki nema fyrir liggi samþykktir og samræmdir séruppdrættir vegna viðkomandi verkþáttar. Liggi slíkir uppdrættir ekki fyrir við úttekt ber [byggingarstjóra eða]2) leyfisveitanda að stöðva viðkomandi verkþátt þar til bætt hefur verið úr .
Leyfisveitandi getur krafist þess að umsækjandi byggingarleyfis láti í té uppdrætti í tilteknum mælikvarða af einstökum hlutum mannvirkis og láti að öðru leyti í té þær upplýsingar sem hann telur þörf á og máli geta skipt við mat á því hvort mannvirkið uppfylli kröfur .
Þegar um er að ræða sérstök mannvirki, s.s. fjarskiptamöstur, brýr, virkjanir o.fl. ber að skila inn viðeigandi séruppdráttum þar sem gerð er grein fyrir einstökum hönnunarþáttum mannvirkisins.]1)
1) Rgl. nr. 350/2013, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 18. gr.

4.4.2. gr .Byggingaruppdrættir

Byggingaruppdrættir skulu gefa heildaryfirlit og vera málsettir í mælikvarða 1:50. Á þeim skal sýna allar grunnmyndir, útlit og sneiðingar, þ.m.t. steypumálsteikningar og gataplön, ásamt föstum innréttingum, niðurhengdum loftum, upphækkuðum gólfum, handriðum, stigum, skábrautum og rúllustigum. Enn fremur skulu byggingaruppdrættir sýna lyftugöng, klefa fyrir lyftuvélar svo og önnur tækni- og inntaksrými .
Utanhúss skal á byggingaruppdráttum m.a. gera grein fyrir frágangi þaka, snjógildra, þakbrúna, þakniðurfalla, frágangi útveggjaklæðninga, glugga, hurða, svala, svalaniðurfalla og stiga og handriða þeirra ásamt öðru sem varðar frágang mannvirkisins .
Á byggingaruppdráttum skulu vera deiliuppdrættir og sneiðingar sem sýni uppbyggingu og festingar viðkomandi byggingarhluta. Jafnframt skal gera grein fyrir efniskröfum með tilvísun til staðla og reglugerða .

4.4.3. gr .Innréttingauppdrættir

Innréttingauppdrættir skulu eftir því sem við á vera málsettir og í mælikvarða 1:50, 1:20, 1:10, 1:5 og 1:1. Á þeim skal gera grein fyrir fyrirkomulagi innréttinga og nýtingu rýmis .

4.4.4. gr .Lóðauppdrættir

4.4.4. gr .Lóðauppdrættir .
Lóðauppdrættir skulu, eftir því sem við á, vera í mælikvarða 1:500, 1:200, 1:100, 1:50, 1:20 og 1:10. Á þeim skal, eftir því sem við á, sýna fyrirkomulag á lóð, s.s. bílastæði, aðkomu fólks og vöru. Fyrirkomulag lóðar skal vera í eðlilegu samhengi við þá starfsemi sem fram fer í viðkomandi mannvirki og næsta nágrenni .
Á lóðauppdráttum skal nánar tiltekið gera grein fyrir:
a. Aðgengi hreyfihamlaðra, blindra og sjónskertra .
b. Aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla .
c. Gróðri, girðingum, pöllum, skjólveggjum, smáhýsum, rotþróm, o.fl. eftir því sem við á, ásamt gámastæðum, leiksvæðum, göngusvæðum og -stígum .
d. Hæðarlegu á lóðarmörkum, stoðveggjum, stöllum og fláum innan lóðar .

4.4.5. gr .Burðarvirkisuppdrættir

Burðarvirkisuppdrættir skulu gefa heildaryfirlit í mælikvarða 1:50 og deili- og hlutauppdrættir í mælikvarða skv. 4.4.1. gr. eftir því sem við á. Á burðarvirkisuppdráttum skal gera nákvæma grein fyrir burðarvirkjum, öllum festingum og brunaskilum mannvirkis. Þar skulu vera deiliuppdrættir og sneiðingar sem sýna uppbyggingu og festingar allra byggingarhluta. Jafnframt skal á uppdráttum gerð grein fyrir álagsforsendum og efniskröfum með tilvísun til staðla og reglugerða .
Á burðarvirkisuppdráttum skal koma fram notálag einstakra gólfplata .
Burðarvirkisuppdráttum skal fylgja greinargerð hönnuðar um forsendur og niðurstöður útreikninga sem og efnisyfirlit útreikninga .
Að beiðni leyfisveitanda skulu útreikningar á burðarþoli og brunamótstöðu mannvirkis fylgja með burðarvirkisuppdráttum. Hönnuður skal ávallt hafa útreikninga til reiðu ef eftir þeim er leitað .

4.4.6. gr .Lagnakerfauppdrættir

Á lagnakerfauppdráttum skal gera grein fyrir öllum lagnakerfum s.s. lögnum fyrir neysluvatnskerfi, hitakerfi, kælikerfi, ketilkerfi, fráveitukerfi, loftræsikerfi, gufukerfi, loftlagnakerfi, slökkvikerfi o.þ.h. Enn fremur af vökva-, olíu-, þrýsti-, gas- og raflögnum, brunaviðvörunarkerfum og fjarskiptakerfum. Á þeim skal gera nákvæma grein fyrir uppbyggingu, legu og frágangi lagna. Einnig skal á lagnakerfauppdráttum gerð grein fyrir brunaþéttingum, bruna- og reyklokum og festingum .
Lagnakerfauppdrættir skulu vera í mælikvarða 1:50 og deili- og hlutateikningar í mælikvarða skv. 4.4.1. gr. eftir því sem við á .
Á lagnakerfauppdráttum skal gera grein fyrir álagsforsendum og efniskröfum með tilvísun til staðla, reglugerða og krafna viðkomandi veitufyrirtækis. Þá ber að tryggja að efniskröfur til lagna séu þannig að þær henti á viðkomandi veitusvæði .
Lagnakerfauppdráttum skal fylgja greinargerð hönnuðar um forsendur og niðurstöður útreikninga sem og efnisyfirlit hönnunargagna og útreikninga .
Að beiðni leyfisveitanda skulu útreikningar vegna lagnahönnunar einnig fylgja uppdráttum. Hönnuður skal ávallt hafa útreikninga til reiðu ef eftir þeim er leitað .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.