4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

Aftur í: Efnisyfirlit

4.1. KAFLI Hönnuðir

4.1.1. gr .Ábyrgð og hlutverk hönnuða

Hönnuðir sem hafa fengið löggildingu, sbr. 25. og 26. gr. laga um mannvirki, skulu gera aðal- og séruppdrætti hver á sínu sviði [og tilheyrandi hluta- og deiliuppdrætti]1) .
Hönnuðir bera ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim enda hafi verið fylgt að fullu uppdráttum hönnuðar, verklýsingu, skriflegum fyrirmælum og viðurkenndum starfsvenjum. Hönnuðir skulu árita uppdrætti sína eigin hendi og þannig staðfesta ábyrgð sína .
Hönnuður séruppdráttar ber ábyrgð á því að hönnun hans sé í samræmi við aðaluppdrætti og skal hann árita á uppdrætti sína síðustu dagsetningu og útgáfu þeirra aðaluppdrátta sem hann hefur samræmt sína hönnun við .
Hönnuður, einstaklingur eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar sem leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu, sbr. ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra .
Hönnuður skal, áður en hann leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda, framvísa staðfestingu þess er tryggingu veitir að hann hafi fullnægjandi tryggingu .
Hafi hönnuður ekki lengur fullnægjandi ábyrgðartryggingu er honum ekki heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfisveitanda .
1) Rgl. nr. 350/2013, 3. gr

4.1.2. gr .Hönnunarstjóri

Eigandi mannvirkis skal tilnefna hönnunarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með og bera ábyrgð á því að samræming aðaluppdrátta, séruppdrátta og annarra hönnunargagna fari fram .
Hönnunarstjóri skal vera löggiltur hönnuður eða hafa réttindi til þess að leggja fram uppdrætti til samþykktar vegna byggingarleyfisumsóknar sbr. 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum um mannvirki .
Hönnunarstjóri skal árita séruppdrætti til staðfestingar á því að samræming hafi farið fram áður en leyfisveitandi samþykkir þá .
Hönnunarstjóri annast innra eftirlit eiganda við hönnun mannvirkis. Hann skal áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um innra eftirlit við hönnunarstörf. Uppfært yfirlit um innra eftirlit skal lagt fram við lok hönnunar mannvirkisins. Hönnunarstjóri skal einnig áður en yfirferð hönnunargagna hefst og áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Við gerð [gæðastjórnunarkerfis]1) hönnuða skal tekið tillit til þessa ákvæðis um framlagningu gagna .
Hönnunarstjóri kallar til aðra hönnuði mannvirkis til vinnu vegna samræmingar hönnunargagna .
Verði breyting á hönnunargögnum eftir að samræming þeirra hefur farið fram ber viðkomandi hönnuði að tilkynna hönnunarstjóra um breytinguna og óska eftir samræmingu hönnunargagna eftir því sem við á .
Eftir hverja breytingu uppdráttar ber hönnunarstjóra að árita hann að nýju til staðfestingar á því að samræming hafi farið fram vegna breytingarinnar .
[Hönnuðir skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt áður en hönnunargögn eru afhent leyfisveitanda til yfirferðar. Skrá skal niðurstöður innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi hönnuðar og skal gátlisti eða önnur staðfesting á eigin yfirferð fylgja hönnunargögnunum skv. e- og f-lið 2. mgr. 4.6.1. gr.]1)
1) Rgl. nr. 1278/2018, 17. gr.

4.1.3. gr .Greinargerð hönnunarstjóra um ábyrgðarsvið hönnuða

Hönnunarstjóri tekur saman greinargerð um ábyrgðarsvið hönnuða og staðfestir með undirskrift sinni að um tæmandi yfirlit sé að ræða. Greinargerðin skal einnig undirrituð af öllum hönnuðum til staðfestingar á samþykki þeirra .
Þegar fleiri en einn hönnuður á sama starfssviði kemur að hönnun mannvirkis skal koma fram á skilmerkilegan hátt hvar skilin á milli ábyrgðarsviða þessa aðila liggja og hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja samræmda hönnun .
Greinargerð hönnunarstjóra skal taka til eftirtalinna hönnunarþátta mannvirkis:
a. Hönnunar aðaluppdrátta .
b. Hönnunar byggingaruppdrátta og byggingartæknilegra deila .
c. Hönnunar burðarvirkja .
d. Hönnunar vatns-, hita- og fráveitulagna .
e. Hönnunar loftræsingar og tilheyrandi lagna .
f. Hönnunar raf- og fjarskiptalagna .
Sé um sérstaka hönnunarþætti að ræða s.s. brunaöryggi, vatnsúða- og slökkvikerfi, hljóðvist, lýsingu, öryggiskerfi, ferlimál, lóð o.fl. skal það koma fram í greinargerð hönnunarstjóra. Að öðrum kosti ber hönnuður aðaluppdrátta ábyrgð á hönnun þessara verkþátta nema raflagnahönnuður á hönnun lýsingar .
Telji einhver hönnuður sig ekki bera ábyrgð á öllum þáttum er varða starfssvið hans skal það sérstaklega tilgreint í greinargerðinni og skal annar hönnuður eða hönnuðir tilgreindir sem ábyrgðaraðilar .

4.2. KAFLI Hönnunargögn

4.2.1. gr .Almennar kröfur

Mannvirki skulu hönnuð á faglega fullnægjandi hátt í samræmi við viðurkenndar venjur, staðla og ákvæði laga og reglugerða um mannvirki og mannvirkjagerð .
Í allri framkvæmd við mannvirkjagerð skal gæta þess að nauðsynleg undirbúningsvinna, s.s .
verkskipulag, fari fram áður en verk hefst. Á verktíma skal viðkomandi hönnuður og hönnunarstjóri gæta þess að allar samþykktar breytingar á hönnun séu skráðar á uppdrætti .
Hönnunargögn skulu vera á íslensku nema leyfisveitandi samþykki annað .

4.2.2. gr .Almennt um hönnunargögn

Hönnunargögn bygginga og annarra mannvirkja greinast í uppdrætti og fylgiskjöl. Uppdrættir greinast í aðaluppdrætti, séruppdrætti, hlutauppdrætti og deiliuppdrætti .
Til fylgiskjala heyra m.a. byggingarlýsingar, skráningartafla, verklýsingar, greinargerðir, ýmiss skrifleg fyrirmæli, forsendur og útreikningar þar sem gerð er nánari grein fyrir einstökum atriðum sem fram koma á uppdráttum og útfærslu þeirra í smáatriðum. Skráningartöflu samkvæmt reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, útreikning hlutfallstalna o.fl. í fjöleignarhúsum, nr. 910/2000, skal skila sem fylgiskjali. Leyfisveitandi getur krafist þess að skráningartöflu og fylgiskjölum sé skilað á tölvutæku formi .
Varðveita skal eitt eintak allra samþykktra uppdrátta af mannvirkjum hjá viðkomandi leyfisveitanda .
Hvert eintak skal undirritað af hönnuði og samþykkt og áritað af leyfisveitanda. Fylgiskjöl skulu einnig undirrituð af viðkomandi hönnuði og varðveitt á sama hátt .

4.2.3. gr .Almennt um uppdrætti

Öllum uppdráttum skal skila, samkvæmt ákvörðum leyfisveitanda, á haldgóðum pappír eða á rafrænu formi.
Uppdrættir skulu vera skýrir og skipulega fram settir. Þannig skal frá uppdráttum á pappír gengið að þeir máist ekki við geymslu. Við gerð allra uppdrátta skal nota þau tákn sem gildandi og leiðbeinandi staðlar gera ráð fyrir .
Stærðir uppdrátta skulu vera skv. ÍST 1, þ.e. A0, A1, A2 eða A3. Efst í hægra horni skal afmarkaður 70 mm hár og 100 mm breiður reitur til áritunar fyrir byggingarfulltrúa .
Nafnreitur skal vera neðst í hægra horni uppdráttar innan ramma. Í nafnreit skal skrá heiti þess sem teiknað er, þ.e. götu og númer og annað auðkennisheiti sé það fyrir hendi, mælikvarða, númer uppdráttar og undirritunardag uppdráttar. Með undirritun hönnuðar á uppdrátt skal einnig rituð kennitala hans. Í nafnreit skal gert ráð fyrir reit fyrir undirritun hönnunarstjóra .
Breytingar á uppdrætti skal tölusetja, dagsetja og undirrita í sérstökum reit ofan nafnreits og geta með athugasemd í hverju breytingin felst. Jafnframt skal koma fram í nafnreit auðkenni sem gefur til kynna að teikningu hafi verið breytt .
Uppdrætti skal gera í mælikvörðum 1:500, 1:200, 1:100, 1:50, 1:20, 1:10, 1:5 og/eða 1:1 .

4.3. KAFLI Aðaluppdrættir og byggingarlýsing

4.3.1. gr .Aðaluppdrættir

Aðaluppdrættir eru heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd þess. Aðaluppdráttur skal vera í mælikvarða 1:100 en afstöðumynd í mælikvarða 1:500. Nota skal mátkerfi ÍST 20 eftir því sem við á .
Aðaluppdráttur að húsi skal sýna grunnflöt allra hæða þess og milliflata, mismunandi sneiðar húss og lóðar og allar hliðar. Ennfremur skal á uppdrætti, er sýnir grunnflöt jarðhæðar, gera grein fyrir hæðarlegu lóðar eins og hún er og eins og ætlast er til að hún verði gagnvart götu og lóðum sem að henni liggja. Ef hús er í samfelldri húsaröð skal sýna aðlægar húshliðar. Á grunnmyndum skal sýna fastar innréttingar og mögulegt fyrirkomulag húsgagna. Jafnframt skal sýna fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma. Á uppdrátt skal rita mál í metramáli og til hvers nota skal hvert einstakt herbergi og enn fremur nettóflatarmál hvers þeirra, sbr. ÍST 50. Sýna skal með strikalínu á grunnmynd og í sniði hvar salarhæð er 1,80 m, í þeim tilvikum sem [salarhæð er lægri í hluta rýmis]1). Eins skal merkja sérstaklega þau rými sem kunna að vera óuppfyllt innan sökkla .
Afstöðumynd í mælikvarða 1:500 skal sýna áttir og afstöðu til aðliggjandi mannvirkja, gatna, nágrannalóða og útivistarsvæða í 30 m fjarlægð frá mannvirki. Á afstöðumynd skal skrá númer lóða og götuheiti. Þá skal og sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu. Sérstaklega skal gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra, þegar við á .
Á afstöðumynd skal rita flatarmál lóðar og mannvirkis, nýtingarhlutfall miðað við lóðarstærð og landnúmer. Þar skal einnig sýna hæðarkóta á lóðarmörkum og gera grein fyrir öllum þeim kvöðum sem haft geta áhrif á mannvirki það sem sótt er um .
Á sniðmynd skal gera grein fyrir samræmi við kröfur um hæðarsetningu, hæðarfjölda og hámarkshæð skv. deiliskipulagi .
Þegar um er að ræða hús með fleiri en einni íbúð skal sýna á uppdrætti og í skráningartöflu hvaða stök rými/herbergi fylgja hverri íbúð. Í fjölbýlishúsum skal sýna á uppdrætti og í skráningartöflu hvaða sérgeymsla fylgir hverri íbúð og tiltaka nettó stærð hverrar einstakrar geymslu .
Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir aðstöðu til að geyma og flokka sorp .
Við íbúðarhús og aðrar byggingar, þar sem það á við, skal á aðaluppdrætti sýna leiksvæði barna, gróður og annað sem varðar skipulag og frágang lóðarinnar. Tilgreina skal fjölda bílastæða, stæða fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í þessari reglugerð. Enn fremur skal sýna hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gámastæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla .
Á öðrum lóðum en íbúðarhúsalóðum skal á aðaluppdrætti sýna sérstaklega bílastæði og aðkomu og er heimilt að það sé í mælikvarða 1:200 .
Byggingarlýsing skal vera á aðaluppdráttum eða í fylgiskjali og skal þá vera tilvísun til þess á aðaluppdrætti .
1) Rgl. nr. 350/2013, 4. gr .

4.3.2. gr .Málsetning

Málsetja skal mannvirki á aðaluppdrætti þannig að unnt sé að flatarmáls- og rúmmálsreikna það í heild og einstök herbergi. Rýmisnúmer skal skrá á uppdráttinn samkvæmt skráningarreglum og skal skráningartafla útfyllt að öllu leyti .
Tilgreina skal á aðaluppdrætti hæð á neðsta gólfi mannvirkis, hæðarkóta á hverri hæð og hæðarkóta efsta punkts þakvirkis miðað við hæðarkerfi viðkomandi sveitarfélags, en götuhæð þar sem hæðarkerfi er ekki fyrir hendi. Þá skal einnig rita heildarrúmmál og flatarmál hússins á aðaluppdrátt. Heildarflatarmáls og rúmmáls innbyggðra bílgeymslna skal sérstaklega getið á uppdrætti. Ef í deiliskipulagi eru ákvæði sem aðgreina leyfilegt hámarksbyggingarmagn ofanjarðar og neðanjarðar skal aðgreina heildarflatarmál og rúmmál mannvirkis á sama hátt.

4.3.3. gr .Brunavarnir

Niðurstöður brunahönnunar skulu koma fram á aðaluppdráttum, þar sem einnig skal gerð grein fyrir notkunarskilmálum með tilliti til brunavarna .
Brunavarnir skulu færðar inn á aðaluppdrátt. Greina skal frá atriðum eins og skiptingu mannvirkis í brunahólf, brunamótstöðu aðalburðarvirkja, flóttaleiðum, þ.m.t. björgunaropum, neyðarlýsingu, brunavarnabúnaði o.fl .
Þar sem því verður ekki við komið að færa brunavarnir inn á aðaluppdrátt skal gera sérstakan brunavarnauppdrátt er fylgi aðaluppdráttum og þá skal vísa til brunavarnauppdráttar á aðaluppdrætti. Hafa skal hliðsjón af leiðbeiningum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) varðandi frágang brunavarnauppdrátta .
Þar sem vatnsþörf slökkvikerfa mannvirkis er mjög mikil skal liggja fyrir vottorð frá hlutaðeigandi vatnsveitu um að nægjanlegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi. Að öðrum kosti skal koma fram á aðaluppdrætti staðsetning sérstaks vatnstanks fyrir slökkvivatn. Slíkt skal einnig koma fram á aðaluppdrætti ef fyrirsjáanlegir eru erfiðleikar vegna vatnsöflunar slökkviliðs .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.3.4. gr .Loftræsing

Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir loftræsingu lokaðra rýma og byggingar í heild. Op í veggjum og hæðaskilum skulu koma fram á grunnmyndum .

4.3.5. gr .Votrými

Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir efnisvali, frágangi og gólfniðurföllum í votrýmum. Op í veggjum og hæðaskilum skulu koma fram á grunnmyndum .

4.3.6. gr .Inntök, heimtaugar og sorpgeymsla

Á aðaluppdráttum skal gera sérstaklega grein fyrir inntökum hitaveitu, vatnsveitu, rafmagns og fjarskiptakerfa svo og sorpgeymslu og aðkomu að henni .

4.3.7. gr .Sérstök mannvirki

Þegar um er að ræða mannvirki fyrir atvinnurekstur, samkomuhús eða annars konar hús sem ætla má að þurfi mikla raforku, þ. á m. fjölbýlishús með fleiri íbúðum en 24, skal sýna á aðaluppdrætti hvar koma megi fyrir á lóð eða í húsi rafmagnsspennistöð er fullnægi kröfum hlutaðeigandi rafmagnsveitu. Heimilt er að víkja frá þessu ef fyrir liggur vottorð hlutaðeigandi rafmagnsveitu um að slíks sé ekki þörf .
Þegar um er að ræða sérstök mannvirki, s.s. fjarskiptamöstur, brýr, virkjanir o.fl. ber að skila inn aðaluppdráttum þar sem gerð er grein fyrir formi, aðgengi, útliti, stærð og staðsetningu mannvirkis, skiptingu þess í eignarhluta ef við á, byggingarefnum, byggingaraðferðum, innra skipulagi og notkun ef við á, brunavörnum, orkunotkun, meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi. Einnig skal leggja fram byggingarlýsingu í samræmi við gerð mannvirkisins .

4.3.8. gr .Uppdráttur af breytingum

Þegar sótt er um byggingarleyfi vegna breytinga á mannvirki skal á aðaluppdráttum gera nákvæma grein fyrir breytingum í texta sem ritaður er á uppdráttinn ásamt dagsetningu. Heimilt er að láta fylgja með umsókn aukaeintak af uppdrætti þar sem breytingar eru sérstaklega afmarkaðar með strikalínu. Slíkur uppdráttur er þá fylgiskjal .
Með uppdráttum af breytingum á mannvirkjum skal fylgja skráningartafla þegar breyting felur í sér breytta stærð eða breytt eignarmörk .

4.3.9. gr .Byggingarlýsing

Í byggingarlýsingu skal a.m.k. gera grein fyrir eftirfarandi þáttum er varða uppbyggingu mannvirkis:
a. Almennum atriðum, s.s. götuheiti, númeri, hnitum og auðkennisnúmeri .
b. Notkun eða starfsemi, áætluðum fjölda starfsmanna og mestum fjölda fólks í salarkynnum .
c. Fjölda hæða, heildarstærð hverrar hæðar, bæði í m² og m³, svo og byggingarinnar í heild (brúttóstærð), sbr. ÍST 50 .
d. Stærð lóðar, nýtingarhlutfalli, heildarfjölda bílastæða og fjölda bílastæða fyrir fatlaða .
e. Almennri lýsingu á burðarkerfi, s.s. byggingarefni hæðarskila, stigum, veggjum og efstu loftplötu/þaks .
f. Gerð og klæðningarefni þaks, frágangi útveggja, gerð útveggjaklæðninga og litavali utanhúss .
g. Gerð og hæð handriða innan sem utan bygginga og á lóð, s.s. við tröppur, stiga, svalir og verandir, gryfjur og aðrar mishæðir .
h. Einangrun allra byggingarhluta, þ.e. gerð hennar og þykkt svo og reiknað einangrunargildi hvers einstaks byggingarhluta [...]1) .
i. Gerð innveggja og innihurða, þ.m.t. er hljóðeinangrun og brunavörn. Eiginleikum klæðninga innan húss skal lýst, þ.e. brunaflokkun og hollustukröfum .
j. Hvort innan byggingarinnar séu kerfisloft og uppbyggð gólf eða kerfisgólf o.þ.h .
k. Lagnaleiðum, upphitun og loftræsingu. Einnig gaslögnum, þrýstilögnum og öðrum slíkum búnaði .
l. Brunavörnum og flóttaleiðum svo og öllum búnaði tengdum brunavörnum, s.s. slökkvitækjum, viðvörunarkerfum, úðakerfum, reyklosun, neyðarlýsingu og leiðamerkingum. Enn fremur öllu öðru er varðar brunavarnir og öryggi fólks innan mannvirkisins .
m. Hljóðvistarkröfum og hvernig þær eru uppfylltar .
n. Öllum öryggisbúnaði, s.s. innbrotaviðvörun, brunaviðvörunarkerfum, vatnsúðakerfum, reyklosunarbúnaði o.þ.h. Einnig vatnsöflun vegna slíkra kerfa í hærri mannvirkjum eða þar sem líkur eru á erfiðleikum við öflun vatns .
o. Öllum tæknibúnaði s.s. lyftum, vélbúnaði tengdum hurðum, gluggum svo og öðrum sjálfvirkum vélog/ eða þrýstibúnaði .
p. Atriðum er varða aðgengi og algilda hönnun .
q. Frágangi lóðar .
r. Meðhöndlun sorps og meðferð hættulegra efna .
s. Öðrum sértækum aðgerðum .
1) Rgl. nr. 280/2014, 2. gr

4.4. KAFLI Aðrir uppdrættir

4.4.1. gr .[Séruppdrættir og aðrir uppdrættir

Á uppdráttum sem tilgreindir eru í þessum kafla skal gera grein fyrir því hvernig kröfur reglugerðar þessarar eru uppfylltar. Jafnframt skal gera grein fyrir málsetningum, frágangi einstakra byggingarhluta, tæknibúnaði og öðru sem nauðsynlegt er til að fullgera mannvirki að utan og innan .
Uppdrættir sem tilgreindir eru í þessum kafla eru háðir samþykki leyfisveitanda og skulu áritaðir af honum því til staðfestingar .
Séruppdráttur er uppdráttur sem sýnir m.a. útfærslu einstakra byggingar- og mannvirkjahluta og tæknibúnaðar og skipulag lóða, ásamt tilvísunum í staðla um efniskröfur og annað sem þarf til að fullgera mannvirki að utan og innan. Séruppdrættir eru eftir eðli máls m.a. lóðaruppdrættir, burðarvirkisuppdrættir og lagnakerfauppdrættir. Séruppdrættir skulu vera með tilheyrandi deiliuppdráttum .
Hlutauppdrættir og deiliuppdrættir til nánari skýringar á aðal- og séruppdráttum skulu vera í mælikvarða 1:20, 1:10, 1:5 og 1:1 eftir því sem við á .
Óheimilt er að gera einstaka áfangaúttekt á mannvirki nema fyrir liggi samþykktir og samræmdir séruppdrættir vegna viðkomandi verkþáttar. Liggi slíkir uppdrættir ekki fyrir við úttekt ber [byggingarstjóra eða]2) leyfisveitanda að stöðva viðkomandi verkþátt þar til bætt hefur verið úr .
Leyfisveitandi getur krafist þess að umsækjandi byggingarleyfis láti í té uppdrætti í tilteknum mælikvarða af einstökum hlutum mannvirkis og láti að öðru leyti í té þær upplýsingar sem hann telur þörf á og máli geta skipt við mat á því hvort mannvirkið uppfylli kröfur .
Þegar um er að ræða sérstök mannvirki, s.s. fjarskiptamöstur, brýr, virkjanir o.fl. ber að skila inn viðeigandi séruppdráttum þar sem gerð er grein fyrir einstökum hönnunarþáttum mannvirkisins.]1)
1) Rgl. nr. 350/2013, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 18. gr.

4.4.2. gr .Byggingaruppdrættir

Byggingaruppdrættir skulu gefa heildaryfirlit og vera málsettir í mælikvarða 1:50. Á þeim skal sýna allar grunnmyndir, útlit og sneiðingar, þ.m.t. steypumálsteikningar og gataplön, ásamt föstum innréttingum, niðurhengdum loftum, upphækkuðum gólfum, handriðum, stigum, skábrautum og rúllustigum. Enn fremur skulu byggingaruppdrættir sýna lyftugöng, klefa fyrir lyftuvélar svo og önnur tækni- og inntaksrými .
Utanhúss skal á byggingaruppdráttum m.a. gera grein fyrir frágangi þaka, snjógildra, þakbrúna, þakniðurfalla, frágangi útveggjaklæðninga, glugga, hurða, svala, svalaniðurfalla og stiga og handriða þeirra ásamt öðru sem varðar frágang mannvirkisins .
Á byggingaruppdráttum skulu vera deiliuppdrættir og sneiðingar sem sýni uppbyggingu og festingar viðkomandi byggingarhluta. Jafnframt skal gera grein fyrir efniskröfum með tilvísun til staðla og reglugerða .

4.4.3. gr .Innréttingauppdrættir

Innréttingauppdrættir skulu eftir því sem við á vera málsettir og í mælikvarða 1:50, 1:20, 1:10, 1:5 og 1:1. Á þeim skal gera grein fyrir fyrirkomulagi innréttinga og nýtingu rýmis .

4.4.4. gr .Lóðauppdrættir

4.4.4. gr .Lóðauppdrættir .
Lóðauppdrættir skulu, eftir því sem við á, vera í mælikvarða 1:500, 1:200, 1:100, 1:50, 1:20 og 1:10. Á þeim skal, eftir því sem við á, sýna fyrirkomulag á lóð, s.s. bílastæði, aðkomu fólks og vöru. Fyrirkomulag lóðar skal vera í eðlilegu samhengi við þá starfsemi sem fram fer í viðkomandi mannvirki og næsta nágrenni .
Á lóðauppdráttum skal nánar tiltekið gera grein fyrir:
a. Aðgengi hreyfihamlaðra, blindra og sjónskertra .
b. Aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla .
c. Gróðri, girðingum, pöllum, skjólveggjum, smáhýsum, rotþróm, o.fl. eftir því sem við á, ásamt gámastæðum, leiksvæðum, göngusvæðum og -stígum .
d. Hæðarlegu á lóðarmörkum, stoðveggjum, stöllum og fláum innan lóðar .

4.4.5. gr .Burðarvirkisuppdrættir

Burðarvirkisuppdrættir skulu gefa heildaryfirlit í mælikvarða 1:50 og deili- og hlutauppdrættir í mælikvarða skv. 4.4.1. gr. eftir því sem við á. Á burðarvirkisuppdráttum skal gera nákvæma grein fyrir burðarvirkjum, öllum festingum og brunaskilum mannvirkis. Þar skulu vera deiliuppdrættir og sneiðingar sem sýna uppbyggingu og festingar allra byggingarhluta. Jafnframt skal á uppdráttum gerð grein fyrir álagsforsendum og efniskröfum með tilvísun til staðla og reglugerða .
Á burðarvirkisuppdráttum skal koma fram notálag einstakra gólfplata .
Burðarvirkisuppdráttum skal fylgja greinargerð hönnuðar um forsendur og niðurstöður útreikninga sem og efnisyfirlit útreikninga .
Að beiðni leyfisveitanda skulu útreikningar á burðarþoli og brunamótstöðu mannvirkis fylgja með burðarvirkisuppdráttum. Hönnuður skal ávallt hafa útreikninga til reiðu ef eftir þeim er leitað .

4.4.6. gr .Lagnakerfauppdrættir

Á lagnakerfauppdráttum skal gera grein fyrir öllum lagnakerfum s.s. lögnum fyrir neysluvatnskerfi, hitakerfi, kælikerfi, ketilkerfi, fráveitukerfi, loftræsikerfi, gufukerfi, loftlagnakerfi, slökkvikerfi o.þ.h. Enn fremur af vökva-, olíu-, þrýsti-, gas- og raflögnum, brunaviðvörunarkerfum og fjarskiptakerfum. Á þeim skal gera nákvæma grein fyrir uppbyggingu, legu og frágangi lagna. Einnig skal á lagnakerfauppdráttum gerð grein fyrir brunaþéttingum, bruna- og reyklokum og festingum .
Lagnakerfauppdrættir skulu vera í mælikvarða 1:50 og deili- og hlutateikningar í mælikvarða skv. 4.4.1. gr. eftir því sem við á .
Á lagnakerfauppdráttum skal gera grein fyrir álagsforsendum og efniskröfum með tilvísun til staðla, reglugerða og krafna viðkomandi veitufyrirtækis. Þá ber að tryggja að efniskröfur til lagna séu þannig að þær henti á viðkomandi veitusvæði .
Lagnakerfauppdráttum skal fylgja greinargerð hönnuðar um forsendur og niðurstöður útreikninga sem og efnisyfirlit hönnunargagna og útreikninga .
Að beiðni leyfisveitanda skulu útreikningar vegna lagnahönnunar einnig fylgja uppdráttum. Hönnuður skal ávallt hafa útreikninga til reiðu ef eftir þeim er leitað .

4.5. KAFLI Aðrir þættir hönnunargagna

4.5.1. gr .Upplýst um sérstakan tæknibúnað

Hönnuður skal í gögnum sínum setja fram kröfur er varða afköst, endingu, öryggi og alla aðra nauðsynlega eiginleika alls þess tæknibúnaðar sem hann lýsir í hönnunargögnum sínum. Tryggja ber að allur slíkur búnaður og frágangur hans uppfylli kröfur sem gerðar eru til hans hérlendis, samkvæmt ákvæðum staðla, reglugerða og laga .
Ávallt ber að tryggja að fylgt sé reglugerðum Vinnueftirlits ríkisins varðandi sérstakan tæknibúnað og frágang hans. Dæmi um slíkan búnað eru togbrautir, loftræsibúnaður, lyftur, stólalyftur, lyftupallar, katlar, kælikerfi, varaaflsstöðvar, hreyfanlegur búnaður ýmis konar, s.s. rennistigar, hurðir/gluggar með vélbúnaði o.fl .
Með hönnunargögnum skulu lagðar fram fullnægjandi upplýsingar varðandi allan búnað vegna öryggis, s.s. brunaviðvörunarkerfi, neyðarlýsingu, leiðakerfi, [sjálfvirk slökkvikerfi]1), læst aðgangskerfi, o.fl .
Þar sem þörf er á stillingum og prófun búnaðar skal því lýst í hönnunargögnum. Dæmi þar um er t.d .
hita- og loftræsikerfi þar sem tilgreina skal nauðsynlegar stillingar, tilgreina gildi og lýsa nauðsynlegum prófunum búnaðar svo og prófun á samvirkni tækja .
Tryggja ber að fyrir hendi séu upplýsingar um eiginleika sérstaks tæknibúnaðar og fyrirhugaða notkun, eftirlit, viðhald, rekstur og áætlaðan endingartíma búnaðarins. Gögn þessa eðlis skulu afhent leyfisveitanda eigi síðar en við lokaúttekt, þannig framsett að þau henti sem hluti handbókar hússins .
1) Rgl. nr. 977/2020, 7. gr.

4.5.2. gr .Upplýsingar um efniseiginleika byggingarvöru

Hönnuður skal í gögnum sínum, þ.e. viðeigandi séruppdráttum eða fylgiskjölum, setja fram kröfur er varða eiginleika og efnisgæði byggingarvöru, svo og allar aðrar nauðsynlegar upplýsingar um vöruna til að tryggja rétt innkaup og notkun hennar. Þá ber að tryggja að uppfylltar séu kröfur sem gerðar eru til byggingarvöru hérlendis, s.s. staðla, reglugerða og laga og ákvæða um CE-merkingu byggingarvöru og eftir atvikum vottun eða umsögn um hana .

4.5.3. gr .Greinargerðir hönnuða

Hönnuðir skulu vinna greinargerðir vegna eftirfarandi hönnunarþátta hvers mannvirkis eftir því sem við á og í samræmi við umfang og eðli verkefnisins: a. Aðgengis, b. [einangrunar, þ.m.t. útreikningur á heildarleiðnitapi, sbr. 13.2.3. gr., og eftir atvikum rakaþéttingu,]1) c. hljóðvistar, d. brunahönnunar, e. burðarþols, f. loftræsingar, g. lagna almennt, h. lýsingar og i. öryggismála .
Leyfisveitandi getur krafist frekari greinargerða vegna flókinna eða sérstakra mannvirkja .
[Í greinargerð skv. 1. og 2. mgr. skal rökstyðja á hvern hátt lágmarksákvæði þessarar reglugerðar og laga um mannvirki eru uppfyllt. Greinargerðina skal afhenda leyfisveitanda eða eftir atvikum skoðunarstofu vegna yfirferðar hönnunargagna. Eftirfarandi þættir skulu nánar koma fram í greinargerðinni:
a. Inngangur, þ.e. fyrir hvern er unnið, staðsetning mannvirkis, hvert sé ábyrgðarsvið hönnuðar og almenn lýsing á viðfangsefninu .
b. Forsendur hönnunar, þ.e. kröfur reglugerða og staðla og fyrirmæli eiganda .
c. Helstu niðurstöður, þ.e. samanburður við hönnunarforsendur og allar lágmarkskröfur ásamt sérstökum rökstuðningi hönnuðar .
d. Aðrar upplýsingar, þ.e. teikningaskrá og skrá yfir önnur fylgiskjöl hönnunargagna ásamt efnisyfirliti útreikninga.]2) [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 280/2014, 3. gr .2) Rgl. nr. 1173/2012, 5. gr .
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.5.4. gr .Efnisyfirlit hönnunargagna

Hönnuðir skulu vinna efnisyfirlit yfir hönnunargögn sín vegna viðkomandi mannvirkis .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessa ákvæðis .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.5.5. gr .Yfirlit yfir útreikninga, rökstuðning og aðrar forsendur hönnunar

Hönnuður skal vinna efnisyfirlit yfir útreikninga sína vegna viðkomandi mannvirkis í samræmi við umfang og eðli verkefnisins .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.6. KAFLI . Gæðastjórnunarkerfi hönnuða og hönnunarstjóra

4.6.1. gr .Kröfur

Hönnuðir og hönnunarstjórar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi . Hönnuður skal í upphafi hvers byggingarleyfisskylds verks skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis .
Gæðastjórnunarkerfi hönnuðar skal a.m.k. fela í sér:
a. Staðfestingu á hæfni hönnuðar,
b. skráningu á endurmenntun hönnuðar,
c. skráningu á ákvörðunum hönnuðar vegna einstakra framkvæmda,
d. lýsingu á innra eftirliti og skráningar í það,
e. gátlista vegna innra eftirlits hönnuðar um samræmi hönnunargagna við reglur og staðla,
f. skrá um útgefin hönnunargögn og uppdrætti sem lagðir hafa verið fram til samþykktar hjá leyfisveitanda og breytingar á þeim,
g. skrá um allar breytingar á hönnunargögnum sem gerðar eru á framkvæmdatíma og leyfisveitandi hefur samþykkt,
h. skrá um samskipti við byggingarstjóra og eftirlitsaðila, þ.m.t. skrifleg fyrirmæli,
i. skrá um athugasemdir hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara vegna hönnunargagna,
j. skrá um leiðbeiningar og athugasemdir skoðunarstofu og leyfisveitanda vegna hönnunargagna og
k. skrá um önnur samskipti og eigin athugasemdir hönnuðar vegna framkvæmdar .
Gæðastjórnunarkerfi hönnunarstjóra skal innihalda sérstaka skrá um innra eftirlit hans sem hönnunarstjóra og lýsingu á því .
Hönnuðir og hönnunarstjórar skulu tilkynna [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) um gæðastjórnunarkerfi sitt til samþykktar og skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkefi hönnuðar ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) gera úttekt á gerð þess og virkni. Að öðrum kosti er leyfisveitanda óheimilt að taka til afgreiðslu gögn sem hönnuðir leggja fram til samþykktar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7. KAFLI Byggingarstjórar

4.7.1. gr .Hlutverk byggingarstjóra

Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri. Óheimilt er að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmd nema ráðinn hafi verið byggingarstjóri sem uppfyllir hæfniskröfur reglugerðar þessarar .
Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma .
Byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram .
Um umboð byggingarstjóra, verksvið og ábyrgð fer eftir ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og samningi við eiganda .

4.7.2. gr .Ábyrgð byggingarstjóra á verkþáttum mannvirkjagerðar

Byggingarstjóra er ekki heimilt að taka að sér ábyrgð á hönnun eða framkvæmd á einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar sem hann stýrir. Sé um að ræða smærri byggingu til eigin nota, svo sem bílskúr eða viðbyggingu við íbúðarhús eða frístundahús, getur eigandi þó falið einum af iðnmeisturum eða hönnuðum mannvirkisins byggingarstjórn þess enda hafi viðkomandi starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3) sem byggingarstjóri .
Eftirfarandi telst til smærri bygginga skv. 1. mgr.:
a. Bílskúr, bílgeymsla og vélageymsla/tækjageymsla enda sé um að ræða byggingar minni en 200 m² að flatarmáli .
b. Frístundahús .
c. Viðbygging við íbúðarhús, allt að 200 m² að heildarflatarmáli .
d. Viðbygging við landbúnaðarbyggingu, allt að 500 m² að flatarmáli eða nýbygging samsvarandi verks sem er innan þessara stærðarmarka .
e. [Lítið hús]1), allt að [60 m²]2) að flatarmáli eða önnur smærri mannvirki á lóð .
Það brýtur ekki í bága við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. þó að byggingarstjóri mannvirkis, hönnuður þess og eða iðnmeistarar sem ábyrgð bera á einstökum verkþáttum þess starfi hjá sama fyrirtæki né ef hönnuður mannvirkis eða iðnmeistarar þess eru starfsmenn fyrirtækis sem ábyrgð ber sem byggingarstjóri mannvirkisins skv. heimild í 4.7.6. gr .1) Rgl. nr. 350/2013, 6. gr .2) Rgl. nr. 280/2014, 4. gr .
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.3. gr .Starfsleyfi byggingarstjóra

Byggingarstjóri skal hafa starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1). Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur skv. þessum hluta reglugerðarinnar, hafi sótt sérstakt námskeið sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari fyrirmælum þessarar reglugerðar. Starfsleyfi byggingarstjóra skal gefið út til tiltekins tíma. Almennt skal fyrsta starfsleyfi gefið út til fimm ára í senn. Við endurnýjun er heimilt að gefa út starfsleyfi til allt að tíu ára í senn enda hafi byggingarstjóri starfað án áminningar eða sviptingar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1), sbr. 2.9.3. gr .Missi byggingarstjóri starfsleyfi er honum óheimilt að fara með umsjón framkvæmda og skal hann þegar segja sig frá verkinu með skriflegri tilkynningu til eiganda og leyfisveitanda. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) ber að upplýsa leyfisveitendur um niðurfellingu starfsleyfis byggingarstjóra .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) heldur skrá um byggingarstjóra með starfsleyfi samkvæmt þessari grein og skal hún varðveitt og aðgengileg leyfisveitendum í gagnasafni stofnunarinnar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.4. gr .Flokkun starfsheimilda byggingarstjóra

Heimildir byggingarstjóra takmarkast af gerð mannvirkis og umfangi framkvæmda svo sem hér segir: a. Byggingarstjóra I er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif mannvirkja sem eru allt að 2.000 m² að flatarmáli og mest 16 m að hæð .
Undir þennan lið falla þó ekki mannvirki sem varða almannahagsmuni, s.s. sjúkrahús, byggingar vegna löggæslu, samgöngumiðstöðvar, skólahúsnæði eða mannvirki sem falla undir [b lið.]1) b. Byggingarstjóra II er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif vatnsaflsvirkjana, jarðvarmavirkjana og annarra orkuvera, olíuhreinsunarstöðva og vatnsstífla sem falla undir 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum .
c. Byggingarstjóra III er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif allra annarra mannvirkja en þeirra sem falla undir [a og b lið.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 6. gr .

4.7.5. gr .Hæfniskröfur byggingarstjóra

Húsasmíðameistarar, múrarameistarar, pípulagningameistarar, blikksmíðameistarar, rafvirkjameistarar og byggingariðnfræðingar geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [a lið 4.7.4. gr.]1) Skulu þeir hafa hlotið löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) og hafa a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit sem viðurkennd er af stofnuninni .
Byggingarstjórar sem falla undir þessa málsgrein og hafa starfað við byggingarstjórn í þrjú ár og hafa allan þann tíma haft fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi sem slíkir í samræmi við ákvæði laga um mannvirki geta einnig öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [c lið 4.7.4. gr.]1) Verkfræðingar, tæknifræðingar, arkitektar og byggingarfræðingar geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [a og c lið 4.7.4. gr.]1) Skulu þeir hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir .
Verkfræðingar og tæknifræðingar með löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) á sviði viðkomandi mannvirkjagerðar og að lágmarki tíu ára starfsreynslu af verkstjórn við mannvirkjagerð, byggingareftirliti eða hönnun geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir a- til c-lið 4.7.4. gr. Þar af skulu þeir hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu af stjórnun eða eftirliti við mannvirkjagerð .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 7. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.6. gr .Heimild fyrirtækja og stofnana til að bera ábyrgð sem byggingarstjórar

Fyrirtæki og stofnanir geta í eigin nafni borið ábyrgð sem byggingarstjórar við mannvirkjagerð enda starfi þar maður við byggingarstjórn sem hefur starfsleyfi til að annast umsjón með þeirri gerð mannvirkis í samræmi við ákvæði 4. hluta þessarar reglugerðar. Starfsleyfishafi skal þá annast þau störf við mannvirkjagerðina sem byggingarstjóra er ætlað skv. reglugerð þessari .

4.7.7. gr .Ábyrgð og verksvið byggingarstjóra

Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Samsvarandi gildir um uppsögn iðnmeistara. Byggingarstjóri skal gera skriflegan samning við iðnmeistara sem hann ræður í umboði eiganda. Í samningi skal m.a. koma fram á hvaða verkþáttum iðnmeistari ber ábyrgð .
Byggingarstjóri skal í umboði eiganda annast samskipti við leyfisveitendur, eftirlitsaðila mannvirkis, hönnuði og iðnmeistara, auk annarra sem að verkinu koma. Skal hann sjá um að aflað sé nauðsynlegra heimilda vegna framkvæmdarinnar, eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir .
Byggingarstjóri fer yfir hönnunargögn með iðnmeisturum mannvirkis vegna heildarskipulags og samræmingar á mismunandi verkþáttum. Leiki vafi á túlkun hönnunargagna skal byggingarstjóri skera úr, eftir atvikum í samráði við hönnuði, og skrá niðurstöður í gæðastjórnunarkerfi sitt. Falli mannvirki undir [b eða c lið 4.7.4. gr.]1) skal byggingarstjóri sjá til þess að skipulagðir samráðsfundir séu haldnir með eiganda og hönnuðum og skrá efni þeirra í gæðastjórnunarkerfi sitt .
Byggingarstjóri hefur yfirumsjón með því að aflað sé samþykktar leyfisveitanda við breytingum sem gerðar eru á hönnun eða gerð mannvirkis í byggingu og að ávallt sé unnið í samræmi við nýjustu útgáfu samþykktra hönnunargagna .
Byggingarstjóri skal hafa virkt eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Verði byggingarstjóri við eftirlit var við ágalla á verki iðnmeistara eða hönnuðar skal hann gera viðkomandi aðvart og krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs tíma. Athugasemdir byggingarstjóra skulu skráðar á viðeigandi hátt í gæðastjórnunarkerfi hans og annarra hlutaðeigandi. Sé athugasemdum byggingarstjóra ekki sinnt eða um ítrekaða vanrækslu að ræða skal hann tilkynna það eiganda .
Komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja má til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, ber byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit .
[Byggingarstjóri skal gera eftirlitsaðila viðvart um lok allra úttektarskyldra verkþátta með skráningu í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3). Byggingarstjóri annast sjálfur framkvæmd áfangaúttekta nema leyfisveitandi ákveði að annast áfangaúttekt sjálfur eða tilkynni um úrtaksskoðun og skal byggingarstjóri þá vera viðstaddur úttektina. Hann skal jafnframt tilkynna viðeigandi iðnmeisturum og hönnuðum með sannanlegum hætti um allar úttektir nema samningur þeirra á milli kveði á um annað.]2)
Hljóti eigandi eða annar þriðji maður tjón af völdum gáleysis byggingarstjóra í starfi ber hann skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennum reglum .
Byggingarstjóri ber ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta á ábyrgð einstakra iðnmeistara eða hönnuða né því að iðnmeistarar og aðrir sem að verkinu koma uppfylli skyldur sínar samkvæmt verk- eða kaupsamningi .
Byggingarstjóri skal hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi hans, sbr .
ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 8. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 19. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.8. gr .Byggingarstjóraskipti

Hætti byggingarstjóri umsjón með framkvæmdum áður en lokaúttekt fer fram skal hann tilkynna það á sannanlegan hátt til leyfisveitanda. Fellur ábyrgð byggingarstjóra á verkinu niður vegna verkþátta sem ólokið er þegar leyfisveitandi tekur á móti slíkri tilkynningu .
Eiganda er skylt að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri með gilt starfsleyfi frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu, leyfisveitandi hefur staðfest að hann uppfylli skilyrði 27. til 29. gr. laga um mannvirki og úttekt á stöðu framkvæmda hefur farið fram .
Leyfisveitandi skal án ástæðulauss dráttar frá móttöku tilkynningar samkvæmt 1. mgr. gera úttekt á stöðu framkvæmda og skulu bæði fráfarandi byggingarstjóri, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina ásamt leyfisveitanda og skal leyfisveitandi [skrá úttektina í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2)]1). Leyfisveitandi skal gefa þeim, sem fráfarandi byggingarstjóri keypti ábyrgðartryggingu hjá, kost á að taka út stöðu verksins fyrir sitt leyti .
Verði leyfisveitandi þess var að byggingarframkvæmdum er fram haldið án byggingarstjóra skal hann tafarlaust stöðva framkvæmdir og loka vinnusvæði ef nauðsyn krefur.
1) Rgl. nr. 1278/2018, 20.gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.8. KAFLI Gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra

4.8.1. gr .Kröfur

Byggingarstjóri skal hafa gæðastjórnunarkerfi . Byggingarstjóri skal í upphafi hvers byggingarleyfisskylds verks skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis. Gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra skal a.m.k. fela í sér:
a. Staðfestingu á hæfni og endurmenntun byggingarstjóra,
b. skrá um innra eftirlit byggingarstjóra vegna einstakra framkvæmda og lýsingu á því,
c. skrá yfir móttekin hönnunargögn,
d. skrá yfir leiðbeiningar og samskipti við byggingaryfirvöld og aðra eftirlitsaðila,
e. [[skrá yfir iðnmeistara og þá verkþætti sem þeir bera ábyrgð á, afrit af ábyrgðaryfirlýsingum þeirra sem og athugasemdir við störf þeirra,]1)]2)
f. skrá yfir áfangaúttektir og niðurstöður ásamt öryggisúttekt,
g. skrá yfir hönnunarstjóra, hönnuði og athugasemdir til þeirra vegna hönnunargagna,
h. skráningu á öðrum ákvörðunum og athugasemdum byggingarstjóra og
i. lýsingu á lokaúttekt og undirbúningi hennar þar sem m.a. er gengið frá skýrslu yfir allar úttektir, frágangi handbókar, þ.m.t. er lýsing á verki og skrá um samþykkt hönnunargögn .
Byggingarstjóri skal tilkynna [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkefi byggingarstjóra ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) gera úttekt á gerð þess og virkni .
1) Rgl. nr. 360/2016, 4. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 21. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.9. KAFLI Samningur byggingarstjóra og eiganda

4.9.1. gr .Kröfur

Samningur milli byggingarstjóra og eiganda skal m.a. fjalla um hlutverk og starfssvið byggingarstjóra með tilvísun til laga um mannvirki og þessarar reglugerðar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.10. KAFLI . Iðnmeistarar

4.10.1. gr. Ábyrgð og verksvið iðnmeistara

Leiðbeiningar: Ábyrgð og verksvið iðnmeistara
[Byggingarstjóri skal í gæðastjórnunarkerfi sínu halda skrá yfir alla iðnmeistara sem koma að verkum sem hann stýrir og varðveita afrit af undirrituðum ábyrgðaryfirlýsingum þeirra. Ábyrgðaryfirlýsingar iðnmeistara skal skrá í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2). Skrá skal eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar og eðli hennar þá húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdar og nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki] 1).
Leyfisveitandi getur heimilað að fleiri en einn iðnmeistari á hverju fagsviði beri ábyrgð og undirriti ábyrgðaryfirlýsingu skv. 1. mgr. enda beri hver iðnmeistari ábyrgð á skýrt afmörkuðum verkþætti. Ábyrgðaryfirlýsing skal afmarka skýrt til hvaða verkþátta ábyrgð hvers iðnmeistara tekur og vera [undirrituð]1) af byggingarstjóra, viðkomandi iðnmeistara og öðrum iðnmeisturum sem að fagsviðinu koma .
Iðnmeistari ber ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim .
Ábyrgðarsvið iðnmeistara vegna mannvirkjagerðar skal vera í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Um ábyrgðarsvið iðnmeistara vísast að öðru leyti til reglugerðar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Ef ágreiningur verður um starfssvið iðnmeistara við tiltekið verk sker leyfisveitandi úr .
Þeir iðnmeistarar einir geta borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) skv. lögum um mannvirki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) heldur skrá yfir löggilta iðnmeistara og skal hún varðveitt í gagnasafni stofnunarinnar .
Iðnmeistari sem ekki hefur lokið námi í meistaraskóla en hefur leyst út meistarabréf getur hlotið staðbundna viðurkenningu leyfisveitanda til að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir .
Til þess að hljóta slíka viðurkenningu skal hann hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og fengið áður viðurkenningu í öðru byggingarfulltrúaumdæmi. Skal hann, þegar leitað er nýrrar staðbundinnar viðurkenningar, leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að hann hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi umdæmi/um .
1) Rgl. nr. 1278/2018, 22. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.10.2. gr .Gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara

Iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi sem felur a.m.k. í sér:
a. Staðfestingu á hæfni iðnmeistara,
b. Eftirfarandi skrár yfir eigið innra eftirlit vegna einstakra verkþátta:
1. lýsingu á því hvernig innra eftirliti með einstökum verkþáttum er sinnt,
2. skrá yfir hönnunargögn, verklýsingar og önnur skrifleg fyrirmæli,
3. skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra,
4. skrá yfir athugasemdir og samskipti við byggingarstjóra vegna framkvæmdar,
5. skráning á niðurstöðu innra eftirlits .
[c. afrit af ábyrgðaryfirlýsingum þeirra.]2)
Iðnmeistari skal tilkynna [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkefi iðnmeistara ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) gera úttekt á gerð þess og virkni .
[…]1)
1) Rgl. nr. 360/2016, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 23. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.10.3. gr.]1) Iðnmeistaraskipti

Hætti iðnmeistari umsjón með verki áður en hans þætti við mannvirki er lokið skal byggingarstjóri sjá um og bera ábyrgð á að nýr iðnmeistari taki við störfum án tafar og [skrá það í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3)]2) .
Byggingarstjóri skal sjá til þess að framkvæmdir við þá verkþætti sem fráfarandi iðnmeistari bar ábyrgð á og hafði umsjón með séu stöðvaðar þar til nýr iðnmeistari hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu og [hún hefur verið skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra og gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3). Jafnframt skal ábyrgðaryfirlýsingin send leyfisveitanda]2) .
Byggingarstjóri skal gera stöðuúttekt á þeim verkþáttum sem fráfarandi iðnmeistari hafði umsjón með og skulu bæði fráfarandi iðnmeistari, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina ásamt byggingarstjóra .
Stöðuúttekt skal [skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra og gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3)]2). Nýr iðnmeistari ber ábyrgð á þeim verkþáttum sem unnir eru eftir að hann tekur við starfinu .
1) Rgl. nr. 360/2016, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 24. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.11. KAFLI Byggingarvinnustaðurinn

4.11.1. gr .Umgengni

Iðnmeisturum og byggingarstjóra er skylt að beiðni leyfisveitanda að sjá svo um að hindruð sé umferð óviðkomandi aðila um byggingarvinnustað. Ef grunnur stendur óhreyfður í sex mánuði getur leyfisveitandi ákveðið að hann skuli afgirtur á fullnægjandi hátt, eða fylltur ella á kostnað byggingarleyfishafa .
Eigandi skal gæta þess að valda ekki spjöllum á óhreyfðu landi og gróðri utan byggingarlóðar og getur leyfisveitandi mælt fyrir um sérstakar ráðstafanir ef þörf krefur. Öll umgengni á byggingarvinnustað skal miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif .

4.11.2. gr .Umgengni um lagnir innan lóðar

Eiganda er óheimilt að raska lögnum, t.d. vatnslögnum, holræsalögnum, rafmagns- eða símastrengjum sem og lögnum vegna gagnaveitu sem liggja um lóð hans, nema með skriflegu leyfi viðkomandi veitufyrirtækja eða eftir atvikum annarra eigenda .

4.11.3. gr .Öryggismál

Girða skal af byggingarvinnustað sem liggur að götu, göngustíg eða öðrum svæðum þar sem hætta getur stafað af fyrir vegfarendur. Þess skal gætt að slíkar girðingar hindri ekki umferð fótgangandi um götuna eða aðra umferð utan lóðar .
Leyfisveitandi getur heimilað, að fengnu samþykki lögreglu og veghaldara, að bráðabirgðagangstétt sé sett út í akbraut og krafist þess að hlífðarþak, viðvörunarbúnaður og raflýsing sé sett yfir gangstétt þar sem honum þykir ástæða til .
Byggingarstjóra og iðnmeisturum er skylt að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum og að viðhafðar séu fyllstu öryggisráðstafanir, eftir því sem aðstæður leyfa. Við öryggisráðstafanir á vinnustað skal bæði taka tillit til starfsmanna á svæðinu og annarra sem kunna að koma á vinnustaðinn. Þá skal byggingarstjóri sjá til þess að vinnustaður sé merktur með húsnúmeri og götuheiti sé það ekki þegar uppsett .
Byggingarstjóra er skylt að framfylgja tilmælum leyfisveitanda um öryggisráðstafanir á lóðarmörkum byggingarvinnustaðar .
Um gerð og frágang vinnupalla og öryggisbúnað á byggingarvinnustöðum skal farið eftir lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim. Leyfisveitandi getur, þar sem hann telur þörf á, krafist þess að fyrir liggi staðfesting Vinnueftirlits ríkisins um að gerð og frágangur vinnupalla svo og aðrar öryggisráðstafanir á byggingarvinnustað séu fullnægjandi .

4.11.4. gr .Aðstaða fyrir starfsmenn

Skylt er að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum, samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu er háður samþykki leyfisveitanda. Sé óskað eftir bráðabirgðaheimlögnum í slíkt húsnæði þarf viðkomandi veita að samþykkja staðsetningu þeirra .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.