4.10. KAFLI . Iðnmeistarar

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.10.1. gr. Ábyrgð og verksvið iðnmeistara

Leiðbeiningar: Ábyrgð og verksvið iðnmeistara
[Byggingarstjóri skal í gæðastjórnunarkerfi sínu halda skrá yfir alla iðnmeistara sem koma að verkum sem hann stýrir og varðveita afrit af undirrituðum ábyrgðaryfirlýsingum þeirra. Ábyrgðaryfirlýsingar iðnmeistara skal skrá í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2). Skrá skal eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar og eðli hennar þá húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdar og nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki] 1).
Leyfisveitandi getur heimilað að fleiri en einn iðnmeistari á hverju fagsviði beri ábyrgð og undirriti ábyrgðaryfirlýsingu skv. 1. mgr. enda beri hver iðnmeistari ábyrgð á skýrt afmörkuðum verkþætti. Ábyrgðaryfirlýsing skal afmarka skýrt til hvaða verkþátta ábyrgð hvers iðnmeistara tekur og vera [undirrituð]1) af byggingarstjóra, viðkomandi iðnmeistara og öðrum iðnmeisturum sem að fagsviðinu koma .
Iðnmeistari ber ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim .
Ábyrgðarsvið iðnmeistara vegna mannvirkjagerðar skal vera í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Um ábyrgðarsvið iðnmeistara vísast að öðru leyti til reglugerðar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Ef ágreiningur verður um starfssvið iðnmeistara við tiltekið verk sker leyfisveitandi úr .
Þeir iðnmeistarar einir geta borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) skv. lögum um mannvirki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) heldur skrá yfir löggilta iðnmeistara og skal hún varðveitt í gagnasafni stofnunarinnar .
Iðnmeistari sem ekki hefur lokið námi í meistaraskóla en hefur leyst út meistarabréf getur hlotið staðbundna viðurkenningu leyfisveitanda til að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir .
Til þess að hljóta slíka viðurkenningu skal hann hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og fengið áður viðurkenningu í öðru byggingarfulltrúaumdæmi. Skal hann, þegar leitað er nýrrar staðbundinnar viðurkenningar, leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að hann hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi umdæmi/um .
1) Rgl. nr. 1278/2018, 22. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.10.2. gr .Gæðastjórnunarkerfi iðnmeistara

Iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi sem felur a.m.k. í sér:
a. Staðfestingu á hæfni iðnmeistara,
b. Eftirfarandi skrár yfir eigið innra eftirlit vegna einstakra verkþátta:
1. lýsingu á því hvernig innra eftirliti með einstökum verkþáttum er sinnt,
2. skrá yfir hönnunargögn, verklýsingar og önnur skrifleg fyrirmæli,
3. skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra,
4. skrá yfir athugasemdir og samskipti við byggingarstjóra vegna framkvæmdar,
5. skráning á niðurstöðu innra eftirlits .
[c. afrit af ábyrgðaryfirlýsingum þeirra.]2)
Iðnmeistari skal tilkynna [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) um gæðastjórnunarkerfi sitt til skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkefi iðnmeistara ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) gera úttekt á gerð þess og virkni .
[…]1)
1) Rgl. nr. 360/2016, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 23. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.10.3. gr.]1) Iðnmeistaraskipti

Hætti iðnmeistari umsjón með verki áður en hans þætti við mannvirki er lokið skal byggingarstjóri sjá um og bera ábyrgð á að nýr iðnmeistari taki við störfum án tafar og [skrá það í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3)]2) .
Byggingarstjóri skal sjá til þess að framkvæmdir við þá verkþætti sem fráfarandi iðnmeistari bar ábyrgð á og hafði umsjón með séu stöðvaðar þar til nýr iðnmeistari hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu og [hún hefur verið skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra og gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3). Jafnframt skal ábyrgðaryfirlýsingin send leyfisveitanda]2) .
Byggingarstjóri skal gera stöðuúttekt á þeim verkþáttum sem fráfarandi iðnmeistari hafði umsjón með og skulu bæði fráfarandi iðnmeistari, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina ásamt byggingarstjóra .
Stöðuúttekt skal [skráð í gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra og gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3)]2). Nýr iðnmeistari ber ábyrgð á þeim verkþáttum sem unnir eru eftir að hann tekur við starfinu .
1) Rgl. nr. 360/2016, 5. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 24. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.