4.3. KAFLI Aðaluppdrættir og byggingarlýsing

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.3.1. gr .Aðaluppdrættir

Aðaluppdrættir eru heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd þess. Aðaluppdráttur skal vera í mælikvarða 1:100 en afstöðumynd í mælikvarða 1:500. Nota skal mátkerfi ÍST 20 eftir því sem við á .
Aðaluppdráttur að húsi skal sýna grunnflöt allra hæða þess og milliflata, mismunandi sneiðar húss og lóðar og allar hliðar. Ennfremur skal á uppdrætti, er sýnir grunnflöt jarðhæðar, gera grein fyrir hæðarlegu lóðar eins og hún er og eins og ætlast er til að hún verði gagnvart götu og lóðum sem að henni liggja. Ef hús er í samfelldri húsaröð skal sýna aðlægar húshliðar. Á grunnmyndum skal sýna fastar innréttingar og mögulegt fyrirkomulag húsgagna. Jafnframt skal sýna fyrirkomulag póstkassa og dyrasíma. Á uppdrátt skal rita mál í metramáli og til hvers nota skal hvert einstakt herbergi og enn fremur nettóflatarmál hvers þeirra, sbr. ÍST 50. Sýna skal með strikalínu á grunnmynd og í sniði hvar salarhæð er 1,80 m, í þeim tilvikum sem [salarhæð er lægri í hluta rýmis]1). Eins skal merkja sérstaklega þau rými sem kunna að vera óuppfyllt innan sökkla .
Afstöðumynd í mælikvarða 1:500 skal sýna áttir og afstöðu til aðliggjandi mannvirkja, gatna, nágrannalóða og útivistarsvæða í 30 m fjarlægð frá mannvirki. Á afstöðumynd skal skrá númer lóða og götuheiti. Þá skal og sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu. Sérstaklega skal gera grein fyrir bílastæðum hreyfihamlaðra, þegar við á .
Á afstöðumynd skal rita flatarmál lóðar og mannvirkis, nýtingarhlutfall miðað við lóðarstærð og landnúmer. Þar skal einnig sýna hæðarkóta á lóðarmörkum og gera grein fyrir öllum þeim kvöðum sem haft geta áhrif á mannvirki það sem sótt er um .
Á sniðmynd skal gera grein fyrir samræmi við kröfur um hæðarsetningu, hæðarfjölda og hámarkshæð skv. deiliskipulagi .
Þegar um er að ræða hús með fleiri en einni íbúð skal sýna á uppdrætti og í skráningartöflu hvaða stök rými/herbergi fylgja hverri íbúð. Í fjölbýlishúsum skal sýna á uppdrætti og í skráningartöflu hvaða sérgeymsla fylgir hverri íbúð og tiltaka nettó stærð hverrar einstakrar geymslu .
Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir aðstöðu til að geyma og flokka sorp .
Við íbúðarhús og aðrar byggingar, þar sem það á við, skal á aðaluppdrætti sýna leiksvæði barna, gróður og annað sem varðar skipulag og frágang lóðarinnar. Tilgreina skal fjölda bílastæða, stæða fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í þessari reglugerð. Enn fremur skal sýna hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gámastæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla .
Á öðrum lóðum en íbúðarhúsalóðum skal á aðaluppdrætti sýna sérstaklega bílastæði og aðkomu og er heimilt að það sé í mælikvarða 1:200 .
Byggingarlýsing skal vera á aðaluppdráttum eða í fylgiskjali og skal þá vera tilvísun til þess á aðaluppdrætti .
1) Rgl. nr. 350/2013, 4. gr .

4.3.2. gr .Málsetning

Málsetja skal mannvirki á aðaluppdrætti þannig að unnt sé að flatarmáls- og rúmmálsreikna það í heild og einstök herbergi. Rýmisnúmer skal skrá á uppdráttinn samkvæmt skráningarreglum og skal skráningartafla útfyllt að öllu leyti .
Tilgreina skal á aðaluppdrætti hæð á neðsta gólfi mannvirkis, hæðarkóta á hverri hæð og hæðarkóta efsta punkts þakvirkis miðað við hæðarkerfi viðkomandi sveitarfélags, en götuhæð þar sem hæðarkerfi er ekki fyrir hendi. Þá skal einnig rita heildarrúmmál og flatarmál hússins á aðaluppdrátt. Heildarflatarmáls og rúmmáls innbyggðra bílgeymslna skal sérstaklega getið á uppdrætti. Ef í deiliskipulagi eru ákvæði sem aðgreina leyfilegt hámarksbyggingarmagn ofanjarðar og neðanjarðar skal aðgreina heildarflatarmál og rúmmál mannvirkis á sama hátt.

4.3.3. gr .Brunavarnir

Niðurstöður brunahönnunar skulu koma fram á aðaluppdráttum, þar sem einnig skal gerð grein fyrir notkunarskilmálum með tilliti til brunavarna .
Brunavarnir skulu færðar inn á aðaluppdrátt. Greina skal frá atriðum eins og skiptingu mannvirkis í brunahólf, brunamótstöðu aðalburðarvirkja, flóttaleiðum, þ.m.t. björgunaropum, neyðarlýsingu, brunavarnabúnaði o.fl .
Þar sem því verður ekki við komið að færa brunavarnir inn á aðaluppdrátt skal gera sérstakan brunavarnauppdrátt er fylgi aðaluppdráttum og þá skal vísa til brunavarnauppdráttar á aðaluppdrætti. Hafa skal hliðsjón af leiðbeiningum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) varðandi frágang brunavarnauppdrátta .
Þar sem vatnsþörf slökkvikerfa mannvirkis er mjög mikil skal liggja fyrir vottorð frá hlutaðeigandi vatnsveitu um að nægjanlegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi. Að öðrum kosti skal koma fram á aðaluppdrætti staðsetning sérstaks vatnstanks fyrir slökkvivatn. Slíkt skal einnig koma fram á aðaluppdrætti ef fyrirsjáanlegir eru erfiðleikar vegna vatnsöflunar slökkviliðs .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.3.4. gr .Loftræsing

Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir loftræsingu lokaðra rýma og byggingar í heild. Op í veggjum og hæðaskilum skulu koma fram á grunnmyndum .

4.3.5. gr .Votrými

Á aðaluppdráttum skal gera grein fyrir efnisvali, frágangi og gólfniðurföllum í votrýmum. Op í veggjum og hæðaskilum skulu koma fram á grunnmyndum .

4.3.6. gr .Inntök, heimtaugar og sorpgeymsla

Á aðaluppdráttum skal gera sérstaklega grein fyrir inntökum hitaveitu, vatnsveitu, rafmagns og fjarskiptakerfa svo og sorpgeymslu og aðkomu að henni .

4.3.7. gr .Sérstök mannvirki

Þegar um er að ræða mannvirki fyrir atvinnurekstur, samkomuhús eða annars konar hús sem ætla má að þurfi mikla raforku, þ. á m. fjölbýlishús með fleiri íbúðum en 24, skal sýna á aðaluppdrætti hvar koma megi fyrir á lóð eða í húsi rafmagnsspennistöð er fullnægi kröfum hlutaðeigandi rafmagnsveitu. Heimilt er að víkja frá þessu ef fyrir liggur vottorð hlutaðeigandi rafmagnsveitu um að slíks sé ekki þörf .
Þegar um er að ræða sérstök mannvirki, s.s. fjarskiptamöstur, brýr, virkjanir o.fl. ber að skila inn aðaluppdráttum þar sem gerð er grein fyrir formi, aðgengi, útliti, stærð og staðsetningu mannvirkis, skiptingu þess í eignarhluta ef við á, byggingarefnum, byggingaraðferðum, innra skipulagi og notkun ef við á, brunavörnum, orkunotkun, meginskipulagi lóðar og aðlögun mannvirkis að næsta umhverfi og samþykktu deiliskipulagi. Einnig skal leggja fram byggingarlýsingu í samræmi við gerð mannvirkisins .

4.3.8. gr .Uppdráttur af breytingum

Þegar sótt er um byggingarleyfi vegna breytinga á mannvirki skal á aðaluppdráttum gera nákvæma grein fyrir breytingum í texta sem ritaður er á uppdráttinn ásamt dagsetningu. Heimilt er að láta fylgja með umsókn aukaeintak af uppdrætti þar sem breytingar eru sérstaklega afmarkaðar með strikalínu. Slíkur uppdráttur er þá fylgiskjal .
Með uppdráttum af breytingum á mannvirkjum skal fylgja skráningartafla þegar breyting felur í sér breytta stærð eða breytt eignarmörk .

4.3.9. gr .Byggingarlýsing

Í byggingarlýsingu skal a.m.k. gera grein fyrir eftirfarandi þáttum er varða uppbyggingu mannvirkis:
a. Almennum atriðum, s.s. götuheiti, númeri, hnitum og auðkennisnúmeri .
b. Notkun eða starfsemi, áætluðum fjölda starfsmanna og mestum fjölda fólks í salarkynnum .
c. Fjölda hæða, heildarstærð hverrar hæðar, bæði í m² og m³, svo og byggingarinnar í heild (brúttóstærð), sbr. ÍST 50 .
d. Stærð lóðar, nýtingarhlutfalli, heildarfjölda bílastæða og fjölda bílastæða fyrir fatlaða .
e. Almennri lýsingu á burðarkerfi, s.s. byggingarefni hæðarskila, stigum, veggjum og efstu loftplötu/þaks .
f. Gerð og klæðningarefni þaks, frágangi útveggja, gerð útveggjaklæðninga og litavali utanhúss .
g. Gerð og hæð handriða innan sem utan bygginga og á lóð, s.s. við tröppur, stiga, svalir og verandir, gryfjur og aðrar mishæðir .
h. Einangrun allra byggingarhluta, þ.e. gerð hennar og þykkt svo og reiknað einangrunargildi hvers einstaks byggingarhluta [...]1) .
i. Gerð innveggja og innihurða, þ.m.t. er hljóðeinangrun og brunavörn. Eiginleikum klæðninga innan húss skal lýst, þ.e. brunaflokkun og hollustukröfum .
j. Hvort innan byggingarinnar séu kerfisloft og uppbyggð gólf eða kerfisgólf o.þ.h .
k. Lagnaleiðum, upphitun og loftræsingu. Einnig gaslögnum, þrýstilögnum og öðrum slíkum búnaði .
l. Brunavörnum og flóttaleiðum svo og öllum búnaði tengdum brunavörnum, s.s. slökkvitækjum, viðvörunarkerfum, úðakerfum, reyklosun, neyðarlýsingu og leiðamerkingum. Enn fremur öllu öðru er varðar brunavarnir og öryggi fólks innan mannvirkisins .
m. Hljóðvistarkröfum og hvernig þær eru uppfylltar .
n. Öllum öryggisbúnaði, s.s. innbrotaviðvörun, brunaviðvörunarkerfum, vatnsúðakerfum, reyklosunarbúnaði o.þ.h. Einnig vatnsöflun vegna slíkra kerfa í hærri mannvirkjum eða þar sem líkur eru á erfiðleikum við öflun vatns .
o. Öllum tæknibúnaði s.s. lyftum, vélbúnaði tengdum hurðum, gluggum svo og öðrum sjálfvirkum vélog/ eða þrýstibúnaði .
p. Atriðum er varða aðgengi og algilda hönnun .
q. Frágangi lóðar .
r. Meðhöndlun sorps og meðferð hættulegra efna .
s. Öðrum sértækum aðgerðum .
1) Rgl. nr. 280/2014, 2. gr

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.