4.1. KAFLI Hönnuðir

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.1.1. gr .Ábyrgð og hlutverk hönnuða

Hönnuðir sem hafa fengið löggildingu, sbr. 25. og 26. gr. laga um mannvirki, skulu gera aðal- og séruppdrætti hver á sínu sviði [og tilheyrandi hluta- og deiliuppdrætti]1) .
Hönnuðir bera ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að hönnun þeirra sé faglega unnin og mannvirkið standist þær kröfur sem til þess eru gerðar í lögum um mannvirki og reglugerðum settum samkvæmt þeim enda hafi verið fylgt að fullu uppdráttum hönnuðar, verklýsingu, skriflegum fyrirmælum og viðurkenndum starfsvenjum. Hönnuðir skulu árita uppdrætti sína eigin hendi og þannig staðfesta ábyrgð sína .
Hönnuður séruppdráttar ber ábyrgð á því að hönnun hans sé í samræmi við aðaluppdrætti og skal hann árita á uppdrætti sína síðustu dagsetningu og útgáfu þeirra aðaluppdrátta sem hann hefur samræmt sína hönnun við .
Hönnuður, einstaklingur eða fyrirtæki þar sem löggiltur hönnuður starfar sem leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu, sbr. ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra .
Hönnuður skal, áður en hann leggur uppdrætti fyrir leyfisveitanda, framvísa staðfestingu þess er tryggingu veitir að hann hafi fullnægjandi tryggingu .
Hafi hönnuður ekki lengur fullnægjandi ábyrgðartryggingu er honum ekki heimilt að leggja uppdrætti fyrir leyfisveitanda .
1) Rgl. nr. 350/2013, 3. gr

4.1.2. gr .Hönnunarstjóri

Eigandi mannvirkis skal tilnefna hönnunarstjóra sem skal hafa yfirumsjón með og bera ábyrgð á því að samræming aðaluppdrátta, séruppdrátta og annarra hönnunargagna fari fram .
Hönnunarstjóri skal vera löggiltur hönnuður eða hafa réttindi til þess að leggja fram uppdrætti til samþykktar vegna byggingarleyfisumsóknar sbr. 3. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lögum um mannvirki .
Hönnunarstjóri skal árita séruppdrætti til staðfestingar á því að samræming hafi farið fram áður en leyfisveitandi samþykkir þá .
Hönnunarstjóri annast innra eftirlit eiganda við hönnun mannvirkis. Hann skal áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um innra eftirlit við hönnunarstörf. Uppfært yfirlit um innra eftirlit skal lagt fram við lok hönnunar mannvirkisins. Hönnunarstjóri skal einnig áður en yfirferð hönnunargagna hefst og áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um ábyrgðarsvið einstakra hönnuða. Við gerð [gæðastjórnunarkerfis]1) hönnuða skal tekið tillit til þessa ákvæðis um framlagningu gagna .
Hönnunarstjóri kallar til aðra hönnuði mannvirkis til vinnu vegna samræmingar hönnunargagna .
Verði breyting á hönnunargögnum eftir að samræming þeirra hefur farið fram ber viðkomandi hönnuði að tilkynna hönnunarstjóra um breytinguna og óska eftir samræmingu hönnunargagna eftir því sem við á .
Eftir hverja breytingu uppdráttar ber hönnunarstjóra að árita hann að nýju til staðfestingar á því að samræming hafi farið fram vegna breytingarinnar .
[Hönnuðir skulu fara yfir eigin verk að þeim loknum og ganga úr skugga um að ákvæði laga og reglugerða séu uppfyllt áður en hönnunargögn eru afhent leyfisveitanda til yfirferðar. Skrá skal niðurstöður innra eftirlits í gæðastjórnunarkerfi hönnuðar og skal gátlisti eða önnur staðfesting á eigin yfirferð fylgja hönnunargögnunum skv. e- og f-lið 2. mgr. 4.6.1. gr.]1)
1) Rgl. nr. 1278/2018, 17. gr.

4.1.3. gr .Greinargerð hönnunarstjóra um ábyrgðarsvið hönnuða

Hönnunarstjóri tekur saman greinargerð um ábyrgðarsvið hönnuða og staðfestir með undirskrift sinni að um tæmandi yfirlit sé að ræða. Greinargerðin skal einnig undirrituð af öllum hönnuðum til staðfestingar á samþykki þeirra .
Þegar fleiri en einn hönnuður á sama starfssviði kemur að hönnun mannvirkis skal koma fram á skilmerkilegan hátt hvar skilin á milli ábyrgðarsviða þessa aðila liggja og hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja samræmda hönnun .
Greinargerð hönnunarstjóra skal taka til eftirtalinna hönnunarþátta mannvirkis:
a. Hönnunar aðaluppdrátta .
b. Hönnunar byggingaruppdrátta og byggingartæknilegra deila .
c. Hönnunar burðarvirkja .
d. Hönnunar vatns-, hita- og fráveitulagna .
e. Hönnunar loftræsingar og tilheyrandi lagna .
f. Hönnunar raf- og fjarskiptalagna .
Sé um sérstaka hönnunarþætti að ræða s.s. brunaöryggi, vatnsúða- og slökkvikerfi, hljóðvist, lýsingu, öryggiskerfi, ferlimál, lóð o.fl. skal það koma fram í greinargerð hönnunarstjóra. Að öðrum kosti ber hönnuður aðaluppdrátta ábyrgð á hönnun þessara verkþátta nema raflagnahönnuður á hönnun lýsingar .
Telji einhver hönnuður sig ekki bera ábyrgð á öllum þáttum er varða starfssvið hans skal það sérstaklega tilgreint í greinargerðinni og skal annar hönnuður eða hönnuðir tilgreindir sem ábyrgðaraðilar .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.