4.7. KAFLI Byggingarstjórar

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.7.1. gr .Hlutverk byggingarstjóra

Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri. Óheimilt er að veita byggingarleyfi fyrir framkvæmd nema ráðinn hafi verið byggingarstjóri sem uppfyllir hæfniskröfur reglugerðar þessarar .
Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma .
Byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram .
Um umboð byggingarstjóra, verksvið og ábyrgð fer eftir ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og samningi við eiganda .

4.7.2. gr .Ábyrgð byggingarstjóra á verkþáttum mannvirkjagerðar

Byggingarstjóra er ekki heimilt að taka að sér ábyrgð á hönnun eða framkvæmd á einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar sem hann stýrir. Sé um að ræða smærri byggingu til eigin nota, svo sem bílskúr eða viðbyggingu við íbúðarhús eða frístundahús, getur eigandi þó falið einum af iðnmeisturum eða hönnuðum mannvirkisins byggingarstjórn þess enda hafi viðkomandi starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3) sem byggingarstjóri .
Eftirfarandi telst til smærri bygginga skv. 1. mgr.:
a. Bílskúr, bílgeymsla og vélageymsla/tækjageymsla enda sé um að ræða byggingar minni en 200 m² að flatarmáli .
b. Frístundahús .
c. Viðbygging við íbúðarhús, allt að 200 m² að heildarflatarmáli .
d. Viðbygging við landbúnaðarbyggingu, allt að 500 m² að flatarmáli eða nýbygging samsvarandi verks sem er innan þessara stærðarmarka .
e. [Lítið hús]1), allt að [60 m²]2) að flatarmáli eða önnur smærri mannvirki á lóð .
Það brýtur ekki í bága við ákvæði 1. málsl. 1. mgr. þó að byggingarstjóri mannvirkis, hönnuður þess og eða iðnmeistarar sem ábyrgð bera á einstökum verkþáttum þess starfi hjá sama fyrirtæki né ef hönnuður mannvirkis eða iðnmeistarar þess eru starfsmenn fyrirtækis sem ábyrgð ber sem byggingarstjóri mannvirkisins skv. heimild í 4.7.6. gr .1) Rgl. nr. 350/2013, 6. gr .2) Rgl. nr. 280/2014, 4. gr .
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.3. gr .Starfsleyfi byggingarstjóra

Byggingarstjóri skal hafa starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1). Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis er að umsækjandi uppfylli viðeigandi hæfniskröfur skv. þessum hluta reglugerðarinnar, hafi sótt sérstakt námskeið sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) stendur fyrir og hafi gæðastjórnunarkerfi samkvæmt nánari fyrirmælum þessarar reglugerðar. Starfsleyfi byggingarstjóra skal gefið út til tiltekins tíma. Almennt skal fyrsta starfsleyfi gefið út til fimm ára í senn. Við endurnýjun er heimilt að gefa út starfsleyfi til allt að tíu ára í senn enda hafi byggingarstjóri starfað án áminningar eða sviptingar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1), sbr. 2.9.3. gr .Missi byggingarstjóri starfsleyfi er honum óheimilt að fara með umsjón framkvæmda og skal hann þegar segja sig frá verkinu með skriflegri tilkynningu til eiganda og leyfisveitanda. [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) ber að upplýsa leyfisveitendur um niðurfellingu starfsleyfis byggingarstjóra .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) heldur skrá um byggingarstjóra með starfsleyfi samkvæmt þessari grein og skal hún varðveitt og aðgengileg leyfisveitendum í gagnasafni stofnunarinnar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.4. gr .Flokkun starfsheimilda byggingarstjóra

Heimildir byggingarstjóra takmarkast af gerð mannvirkis og umfangi framkvæmda svo sem hér segir: a. Byggingarstjóra I er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif mannvirkja sem eru allt að 2.000 m² að flatarmáli og mest 16 m að hæð .
Undir þennan lið falla þó ekki mannvirki sem varða almannahagsmuni, s.s. sjúkrahús, byggingar vegna löggæslu, samgöngumiðstöðvar, skólahúsnæði eða mannvirki sem falla undir [b lið.]1) b. Byggingarstjóra II er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif vatnsaflsvirkjana, jarðvarmavirkjana og annarra orkuvera, olíuhreinsunarstöðva og vatnsstífla sem falla undir 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum .
c. Byggingarstjóra III er heimilt að stjórna framkvæmdum við nýbyggingu, viðhald, breytingu, endurbyggingu og niðurrif allra annarra mannvirkja en þeirra sem falla undir [a og b lið.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 6. gr .

4.7.5. gr .Hæfniskröfur byggingarstjóra

Húsasmíðameistarar, múrarameistarar, pípulagningameistarar, blikksmíðameistarar, rafvirkjameistarar og byggingariðnfræðingar geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [a lið 4.7.4. gr.]1) Skulu þeir hafa hlotið löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) og hafa a.m.k. tveggja ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir eða byggingareftirlit sem viðurkennd er af stofnuninni .
Byggingarstjórar sem falla undir þessa málsgrein og hafa starfað við byggingarstjórn í þrjú ár og hafa allan þann tíma haft fullnægjandi gæðastjórnunarkerfi sem slíkir í samræmi við ákvæði laga um mannvirki geta einnig öðlast starfsleyfi til að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [c lið 4.7.4. gr.]1) Verkfræðingar, tæknifræðingar, arkitektar og byggingarfræðingar geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir [a og c lið 4.7.4. gr.]1) Skulu þeir hafa a.m.k. fimm ára reynslu sem slíkir af störfum við byggingarframkvæmdir, hönnun bygginga, byggingareftirlit eða verkstjórn við byggingarframkvæmdir .
Verkfræðingar og tæknifræðingar með löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) á sviði viðkomandi mannvirkjagerðar og að lágmarki tíu ára starfsreynslu af verkstjórn við mannvirkjagerð, byggingareftirliti eða hönnun geta öðlast starfsleyfi til þess að hafa umsjón með framkvæmdum sem falla undir a- til c-lið 4.7.4. gr. Þar af skulu þeir hafa a.m.k. þriggja ára starfsreynslu af stjórnun eða eftirliti við mannvirkjagerð .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 7. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.6. gr .Heimild fyrirtækja og stofnana til að bera ábyrgð sem byggingarstjórar

Fyrirtæki og stofnanir geta í eigin nafni borið ábyrgð sem byggingarstjórar við mannvirkjagerð enda starfi þar maður við byggingarstjórn sem hefur starfsleyfi til að annast umsjón með þeirri gerð mannvirkis í samræmi við ákvæði 4. hluta þessarar reglugerðar. Starfsleyfishafi skal þá annast þau störf við mannvirkjagerðina sem byggingarstjóra er ætlað skv. reglugerð þessari .

4.7.7. gr .Ábyrgð og verksvið byggingarstjóra

Byggingarstjóri ræður iðnmeistara í upphafi verks með samþykki eiganda eða samþykkir ráðningu þeirra. Samsvarandi gildir um uppsögn iðnmeistara. Byggingarstjóri skal gera skriflegan samning við iðnmeistara sem hann ræður í umboði eiganda. Í samningi skal m.a. koma fram á hvaða verkþáttum iðnmeistari ber ábyrgð .
Byggingarstjóri skal í umboði eiganda annast samskipti við leyfisveitendur, eftirlitsaðila mannvirkis, hönnuði og iðnmeistara, auk annarra sem að verkinu koma. Skal hann sjá um að aflað sé nauðsynlegra heimilda vegna framkvæmdarinnar, eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir .
Byggingarstjóri fer yfir hönnunargögn með iðnmeisturum mannvirkis vegna heildarskipulags og samræmingar á mismunandi verkþáttum. Leiki vafi á túlkun hönnunargagna skal byggingarstjóri skera úr, eftir atvikum í samráði við hönnuði, og skrá niðurstöður í gæðastjórnunarkerfi sitt. Falli mannvirki undir [b eða c lið 4.7.4. gr.]1) skal byggingarstjóri sjá til þess að skipulagðir samráðsfundir séu haldnir með eiganda og hönnuðum og skrá efni þeirra í gæðastjórnunarkerfi sitt .
Byggingarstjóri hefur yfirumsjón með því að aflað sé samþykktar leyfisveitanda við breytingum sem gerðar eru á hönnun eða gerð mannvirkis í byggingu og að ávallt sé unnið í samræmi við nýjustu útgáfu samþykktra hönnunargagna .
Byggingarstjóri skal hafa virkt eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Verði byggingarstjóri við eftirlit var við ágalla á verki iðnmeistara eða hönnuðar skal hann gera viðkomandi aðvart og krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs tíma. Athugasemdir byggingarstjóra skulu skráðar á viðeigandi hátt í gæðastjórnunarkerfi hans og annarra hlutaðeigandi. Sé athugasemdum byggingarstjóra ekki sinnt eða um ítrekaða vanrækslu að ræða skal hann tilkynna það eiganda .
Komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja má til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, ber byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit .
[Byggingarstjóri skal gera eftirlitsaðila viðvart um lok allra úttektarskyldra verkþátta með skráningu í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3). Byggingarstjóri annast sjálfur framkvæmd áfangaúttekta nema leyfisveitandi ákveði að annast áfangaúttekt sjálfur eða tilkynni um úrtaksskoðun og skal byggingarstjóri þá vera viðstaddur úttektina. Hann skal jafnframt tilkynna viðeigandi iðnmeisturum og hönnuðum með sannanlegum hætti um allar úttektir nema samningur þeirra á milli kveði á um annað.]2)
Hljóti eigandi eða annar þriðji maður tjón af völdum gáleysis byggingarstjóra í starfi ber hann skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennum reglum .
Byggingarstjóri ber ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta á ábyrgð einstakra iðnmeistara eða hönnuða né því að iðnmeistarar og aðrir sem að verkinu koma uppfylli skyldur sínar samkvæmt verk- eða kaupsamningi .
Byggingarstjóri skal hafa í gildi tryggingu vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af gáleysi í starfi hans, sbr .
ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 8. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018, 19. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

4.7.8. gr .Byggingarstjóraskipti

Hætti byggingarstjóri umsjón með framkvæmdum áður en lokaúttekt fer fram skal hann tilkynna það á sannanlegan hátt til leyfisveitanda. Fellur ábyrgð byggingarstjóra á verkinu niður vegna verkþátta sem ólokið er þegar leyfisveitandi tekur á móti slíkri tilkynningu .
Eiganda er skylt að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri með gilt starfsleyfi frá [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu, leyfisveitandi hefur staðfest að hann uppfylli skilyrði 27. til 29. gr. laga um mannvirki og úttekt á stöðu framkvæmda hefur farið fram .
Leyfisveitandi skal án ástæðulauss dráttar frá móttöku tilkynningar samkvæmt 1. mgr. gera úttekt á stöðu framkvæmda og skulu bæði fráfarandi byggingarstjóri, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina ásamt leyfisveitanda og skal leyfisveitandi [skrá úttektina í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2)]1). Leyfisveitandi skal gefa þeim, sem fráfarandi byggingarstjóri keypti ábyrgðartryggingu hjá, kost á að taka út stöðu verksins fyrir sitt leyti .
Verði leyfisveitandi þess var að byggingarframkvæmdum er fram haldið án byggingarstjóra skal hann tafarlaust stöðva framkvæmdir og loka vinnusvæði ef nauðsyn krefur.
1) Rgl. nr. 1278/2018, 20.gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.