4.11. KAFLI Byggingarvinnustaðurinn

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.11.1. gr .Umgengni

Iðnmeisturum og byggingarstjóra er skylt að beiðni leyfisveitanda að sjá svo um að hindruð sé umferð óviðkomandi aðila um byggingarvinnustað. Ef grunnur stendur óhreyfður í sex mánuði getur leyfisveitandi ákveðið að hann skuli afgirtur á fullnægjandi hátt, eða fylltur ella á kostnað byggingarleyfishafa .
Eigandi skal gæta þess að valda ekki spjöllum á óhreyfðu landi og gróðri utan byggingarlóðar og getur leyfisveitandi mælt fyrir um sérstakar ráðstafanir ef þörf krefur. Öll umgengni á byggingarvinnustað skal miða að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif .

4.11.2. gr .Umgengni um lagnir innan lóðar

Eiganda er óheimilt að raska lögnum, t.d. vatnslögnum, holræsalögnum, rafmagns- eða símastrengjum sem og lögnum vegna gagnaveitu sem liggja um lóð hans, nema með skriflegu leyfi viðkomandi veitufyrirtækja eða eftir atvikum annarra eigenda .

4.11.3. gr .Öryggismál

Girða skal af byggingarvinnustað sem liggur að götu, göngustíg eða öðrum svæðum þar sem hætta getur stafað af fyrir vegfarendur. Þess skal gætt að slíkar girðingar hindri ekki umferð fótgangandi um götuna eða aðra umferð utan lóðar .
Leyfisveitandi getur heimilað, að fengnu samþykki lögreglu og veghaldara, að bráðabirgðagangstétt sé sett út í akbraut og krafist þess að hlífðarþak, viðvörunarbúnaður og raflýsing sé sett yfir gangstétt þar sem honum þykir ástæða til .
Byggingarstjóra og iðnmeisturum er skylt að sjá um að sem minnst hætta, óþrifnaður eða önnur óþægindi stafi af framkvæmdum og að viðhafðar séu fyllstu öryggisráðstafanir, eftir því sem aðstæður leyfa. Við öryggisráðstafanir á vinnustað skal bæði taka tillit til starfsmanna á svæðinu og annarra sem kunna að koma á vinnustaðinn. Þá skal byggingarstjóri sjá til þess að vinnustaður sé merktur með húsnúmeri og götuheiti sé það ekki þegar uppsett .
Byggingarstjóra er skylt að framfylgja tilmælum leyfisveitanda um öryggisráðstafanir á lóðarmörkum byggingarvinnustaðar .
Um gerð og frágang vinnupalla og öryggisbúnað á byggingarvinnustöðum skal farið eftir lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum settum samkvæmt þeim. Leyfisveitandi getur, þar sem hann telur þörf á, krafist þess að fyrir liggi staðfesting Vinnueftirlits ríkisins um að gerð og frágangur vinnupalla svo og aðrar öryggisráðstafanir á byggingarvinnustað séu fullnægjandi .

4.11.4. gr .Aðstaða fyrir starfsmenn

Skylt er að koma upp aðstöðu fyrir starfsmenn á byggingarvinnustöðum, samkvæmt reglum Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð. Staðsetning og frágangur slíkrar aðstöðu er háður samþykki leyfisveitanda. Sé óskað eftir bráðabirgðaheimlögnum í slíkt húsnæði þarf viðkomandi veita að samþykkja staðsetningu þeirra .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.