4.6. KAFLI . Gæðastjórnunarkerfi hönnuða og hönnunarstjóra

Aftur í: 4. HLUTI HÖNNUÐIR, BYGGINGARSTJÓRAR OG IÐNMEISTARAR

4.6.1. gr .Kröfur

Hönnuðir og hönnunarstjórar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi . Hönnuður skal í upphafi hvers byggingarleyfisskylds verks skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis .
Gæðastjórnunarkerfi hönnuðar skal a.m.k. fela í sér:
a. Staðfestingu á hæfni hönnuðar,
b. skráningu á endurmenntun hönnuðar,
c. skráningu á ákvörðunum hönnuðar vegna einstakra framkvæmda,
d. lýsingu á innra eftirliti og skráningar í það,
e. gátlista vegna innra eftirlits hönnuðar um samræmi hönnunargagna við reglur og staðla,
f. skrá um útgefin hönnunargögn og uppdrætti sem lagðir hafa verið fram til samþykktar hjá leyfisveitanda og breytingar á þeim,
g. skrá um allar breytingar á hönnunargögnum sem gerðar eru á framkvæmdatíma og leyfisveitandi hefur samþykkt,
h. skrá um samskipti við byggingarstjóra og eftirlitsaðila, þ.m.t. skrifleg fyrirmæli,
i. skrá um athugasemdir hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara vegna hönnunargagna,
j. skrá um leiðbeiningar og athugasemdir skoðunarstofu og leyfisveitanda vegna hönnunargagna og
k. skrá um önnur samskipti og eigin athugasemdir hönnuðar vegna framkvæmdar .
Gæðastjórnunarkerfi hönnunarstjóra skal innihalda sérstaka skrá um innra eftirlit hans sem hönnunarstjóra og lýsingu á því .
Hönnuðir og hönnunarstjórar skulu tilkynna [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) um gæðastjórnunarkerfi sitt til samþykktar og skráningar í gagnasafn stofnunarinnar. Sé gæðastjórnunarkefi hönnuðar ekki vottað af faggiltri vottunarstofu skal [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) gera úttekt á gerð þess og virkni. Að öðrum kosti er leyfisveitanda óheimilt að taka til afgreiðslu gögn sem hönnuðir leggja fram til samþykktar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.