15. HLUTI. MENGUN FRÁ MANNVIRKJUM OG MEÐHÖNDLUN BYGGINGAR- OG NIÐURRIFSÚRGANGS

Aftur í: Efnisyfirlit

15.1. KAFLI. Verndun náttúrufars og varnir gegn mengun

15.1.1. gr .Markmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að allur sá úrgangur sem kann að koma frá þeim sem slíkum, þ.e. vegna byggingarframkvæmda, viðhalds og breytinga á líftíma þeirra svo og niðurrifs, valdi sem minnstum mögulegum spjöllum á umhverfinu .
Við hönnun og gerð mannvirkja ber ávallt að taka tillit til umhverfis og náttúrufars. Leitast skal við, eftir því sem aðstæður leyfa, að láta mannvirki falla sem eðlilegast að umhverfinu og hafa sem minnst truflandi áhrif á náttúrufar og gerð landslags í næsta nágrenni .

15.1.2. gr .Mengað byggingarsvæði

Við hönnun og undirbúning vegna byggingar mannvirkis skal metið hvort líkur séu á að mengun finnist á því svæði þar sem fyrirhugað er að mannvirkið rísi .
Sé ástæða til að ætla að mengun finnist í jarðvegi þar sem byggja á mannvirki ber eiganda lóðar að sjá til þess að mengaður jarðvegur sé meðhöndlaður í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs og reglugerða settum samkvæmt þeim og að gripið sé til nauðsynlegra ráðstafana til að hindra frekari útbreiðslu mengunarinnar og til að tryggja öryggi þeirra sem koma til með að nýta mannvirkið og umhverfi þess .

15.2. KAFLI. Efnisval og úrgangur

15.2.1. gr .Almennt

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að tryggð sé fullnægjandi ending þeirra sjálfra og einstakra hluta þeirra. Mælst er til að gerð sé lífsferilsgreining vegna nýrra mannvirkja, viðbygginga, endurgerðar mannvirkja og meiriháttar viðhalds þeirra.
Til mannvirkjagerðar skal eftir því sem aðstæður leyfa velja endurunnið og endurnýtanlegt byggingarefni.
Úrgangi vegna mannvirkjagerðar skal haldið í lágmarki s.s. afgöngum, ónýttu byggingarefni eða byggingarhlutum.

15.2.2. gr .Áætlun um meðhöndlun

Áður en byggingarleyfisskyldar framkvæmdir hefjast skal eigandi skila til leyfisveitanda áætlun um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs þar sem fram koma upplýsingar um skipulagningu, skráningu, flokkun, endurnýtingu og förgun. Slíka áætlun skal gera vegna eftirfarandi framkvæmda:
a. Nýbygginga, viðbygginga eða breytinga á mannvirki þar sem að brúttó flatarmál gólfflatar þess hluta sem verkið tekur til er 300 m² eða meira .
b. Umfangsmikilla viðgerða útveggja, svala, þaks o.þ.h. þegar flötur verks er 100 m² eða stærri .
c. Niðurrifs á byggingum eða hluta bygginga þar sem brúttó gólfflötur verks er 100 m² að flatarmáli eða meir .
d. Framkvæmda þar sem búast má við að úrgangur verði 10 tonn eða meira .
Taki framkvæmd til fleiri en eins mannvirkis skal reikna heildarverkið sem eina samfellda framkvæmd .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal að höfðu samráði við Umhverfisstofnun gefa út leiðbeiningar um gerð áætlunar um meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

15.2.3. gr .Skrá yfir hættuleg efni

Við byggingu mannvirkja skal leitast við að nota byggingarefni sem hvorki eru skaðleg heilsu né umhverfi .
Vinna við niðurrif á asbesti í byggingum skal fara fram í samræmi við reglugerð um bann við notkun asbests á vinnustöðum og reglugerð um asbestúrgang .
Áður en framkvæmdir hefjast skal við breytingu eða niðurrif eldri byggingar kannað hvort innan hennar séu byggingarhlutar, byggingarefni eða lagnir sem geta verið mengandi eða hættulegar heilsu .
Gera skal lista yfir öll varasöm efni í byggingum sem kunna að vera hættuleg eða mengandi, vegna verka sem falla undir b- til d-lið 1. mgr. 15.2.2. gr. Skal slíkur listi dagsettur og undirritaður og innihalda skrá yfir eftirfarandi þætti:
a. Byggingarár viðkomandi byggingar,
b. niðurstöður efnisprófana, hafi þær verið framkvæmdar,
c. tegund og magn hættulegra efna,
d. staðsetningu efnanna, merkta á teikningu eða ljósmynd,
e. hvernig ákvarðað hafi verið hvort um hættulegt efni væri að ræða,
f. þá aðferð sem notuð var við að fjarlægja efnin,
g. hvar og hvernig fyrirhugað sé að skila efnunum til viðurkenndrar móttökustöðvar og
h. töflu yfir hættulegu efnin.

15.2.4. gr .Meðhöndlun byggingar- og niðurrifsúrgangs

Flytja skal allan úrgang vegna framkvæmda við mannvirki til viðurkenndrar móttökustöðvar .
Eigi síðar en 1. janúar 2015 skal minnst 60% af byggingar- og niðurrifsúrgangi, sbr. 15.2.2. gr., flokkaður með þeim hætti að hann sé hæfur til endurnýtingar áður en honum er skilað á viðurkennda móttökustöð. Frá 1. janúar 2020 skal þetta hlutfall nema minnst 70% .
Gerður skal listi yfir byggingar- og niðurrifsúrgang sem verður til vegna byggingarleyfisskyldra framkvæmda. Efnistegundir og magn þeirra skal skráð .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.