12. HLUTI. ÖRYGGI VIÐ NOTKUN

Aftur í: Efnisyfirlit

12.1. KAFLI. Almennt um öryggi

12.1.1. gr .Markmið

Byggingar og lóðir skulu þannig hannaðar og byggðar að hætta á slysum sé í lágmarki. Gera skal þær ráðstafanir sem þarf til að koma í veg fyrir slysahættur, s.s. vegna hæðarmunar í byggingum eða á lóðum, vegna oddhvassra hluta, hálla gólfa, [...]1) hita, sprengihættu, hættu á eitrun eða raflosti .
Frágangur og umhirða byggingarvinnustaða skal ávallt vera þannig að ekki skapist þar óþarfa hætta á slysum.
1) Rgl. nr. 977/2020 56. gr.

12.1.2. gr .Breytt notkun þegar byggðra mannvirkja

Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja skal hönnuður staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar .
Varði breyting á mannvirki sem byggt er í gildistíð eldri byggingarreglugerða þá þætti sem falla undir þennan hluta reglugerðarinnar gilda ákvæði reglugerðar þessarar um breytinguna .
[

12.1.3. Merkingar vegna flugumferðaröryggis.

Kröfur um merkingar á há mannvirki vegna flugumferðaröryggis, þ. á m. vindmyllur, er að finna í lögum nr. 60/1998 um loftferðir og reglugerðum sem settar eru á grundvelli laganna.]1)
1) Rgl. nr. 1278/2018, 28. gr.

12.2. KAFLI. Vörn gegn falli

12.2.1. gr .Birta og lýsing umferðarleiða

Birta í umferðarleiðum bygginga og lóða skal vera nægjanleg til að allir aldurshópar geti athafnað sig óhindrað og af fullu öryggi. Þar sem gert er ráð fyrir umgengni almennings skal tekið tillit til heildaráhrifa þannig að tryggt sé að hvergi verði staðbundin, ófullnægjandi birtuskilyrði sem skapað geta slysahættu .
Þar sem gert er ráð fyrir umgengni almennings og straumrof getur valdið hættu skal vera neyðarlýsing til þess að tryggja örugga rýmingu. Við ákvörðun neyðarlýsingar skal fylgja ákvæðum 9. hluta þessarar reglugerðar .

12.2.2. gr .Yfirborð gólfflata

Ganga skal þannig frá yfirborði gólflata í umferðarleiðum bygginga að ekki sé hætta á að fólk hrasi eða detti .
Á gólffleti skulu hvorki vera óvæntar mishæðir né hindranir. Þröskulda skal hafa eins lága og kostur er svo síður sé hætta á að fólk hrasi .
Á hallandi gólfum svo og á gólfum þar sem hætta er á hálku, t.d. vegna bleytu eða ísingar, skal ávallt valið gólfefni með hálkuviðnámi sem hentar aðstæðum. Samfelldur flötur umferðarleiða skal allur lagður gólfefni sem er með sama hálkuviðnámi .
Á svæðum og rýmum opnum almenningi þar sem búast má við hálku vegna bleytu á gólfi, vegna ísingar eða af öðrum orsökum skulu vera handlistar til stuðnings .

12.2.3. gr .Öryggi vegna hæðarmunar

Ofan fyrstu hæðar í byggingum skal komið fyrir viðurkenndri öryggiskeðju eða öðrum jafngóðum viðurkenndum búnaði til slíkra nota á opnanlegum gluggum sem börnum getur stafað hætta af. Skulu slíkir opnanlegir gluggar ekki hafa stærra stillanlegt op en 89 mm .
Þar sem slysahætta getur skapast við glugga í stigahúsi sökum hæðarmunar, þ.e. neðri brún gluggans er minna en 0,80 m ofan við gólf stigapalls eða stigaþreps, skal setja upp handrið við gluggann eða hafa öryggisgler í glugganum .
Í húsum sem eru hærri en ein hæð mega hverfigluggar ekki vera nær gólfi en 1,0 m og stillanlegt op þeirra ekki vera stærra en 89 mm. Sé valið að hafa hverfiglugga nær gólfi skal hann varinn með handriði sem uppfyllir kröfu til handriðs stiga, sbr. ákvæði 6.4. og 6.5. kafla .

12.2.4. gr .Öryggi stiga, skábrauta o.fl .

Stigar, tröppur, þrep og skábrautir í og við byggingar skulu þannig hannaðar og byggðar að fólk geti gengið um þær án óþæginda og hættu á slysum. Um skábrautir, stiga, þrep, handrið og handlista gilda ákvæði 6.4. og 6.5. kafla .

12.2.5. Op og gryfjur í byggingum

Öll op og gryfjur í byggingum, sem eru aðgengilegar og þar sem slysahætta getur skapast sökum hæðarmunar, skulu lokaðar með handriði, grindum eða þar til gerðum lokum. Þessar hindranir skulu festar tryggilega svo barn geti ekki fjarlægt þær. Þær skulu uppfylla allar kröfur staðla um efnisgæði og styrk .

12.2.6. gr .Öryggi vegna þaka

Á eða við þök bygginga skulu vera festingar fyrir öryggisbúnað sem ætlaður er til að tryggja fullnægjandi fallvörn þeirra sem vinna á þakinu .
Þar sem hægt er að ganga út á þak án sérstakra hindrana skal vera handrið við þakbrún. Sömu reglur gilda um styrk og hæð handriða á þökum og handriða á svölum. Handrið á þaki skal tryggja fullnægjandi fallvörn á þakinu öllu .
Ávallt skal vera hægt að fara upp á þak bygginga, t.d. til viðgerða. Heimilt er að gera ráð fyrir lausum búnaði til þessara nota, sé áhættan samfara notkun slíks tækis talin ásættanleg. Við ákvörðun á vali búnaðar til þessara nota skal taka tillit til flutninga á fólki og flutninga á byggingarefni vegna viðhalds og viðgerða .
[Snjógrindur til varnar því að snjór og ís falli af þaki skulu settar á öll þök sem hafa meiri þakhalla en 14° og eru yfir umferðarleiðum eða öðrum svæðum þar sem vænta má umferðar gangandi vegfarenda.]1) Tryggja skal að ekki sé hætta á að farg á þökum, t.d. möl, geti fokið og valdið slysum eða skemmdum .
1) Rgl. nr. 350/2013, 49. gr .

12.3. KAFLI. Innréttingar, búnaður, útstandandi og hreyfanlegir hlutir o.fl.

12.3.1. gr .Almennt

Byggingar skulu þannig hannaðar og byggðar að ekki sé hætta á að fólk reki sig á útstandandi hluti .
Allan búnað sem festur er utan á vegg svo og alla útstandandi byggingarhluta skal staðsetja minnst 2,2 m yfir gólffleti umferðarleiða. Sé ekki hægt að staðsetja slíkan búnað eða byggingarhluta svo hátt yfir gólfi skal merkja þá greinilega og verja þannig að ekki verði slysahætta vegna þeirra .
Ekki er heimilt að hafa byggingarhluta með hvassar brúnir sem geta slasað fólk í umferðarleiðum bygginga eða annars staðar þar sem fólki getur stafað hætta af .
Ganga skal þannig frá öllum hreyfanlegum hlutum í byggingum að ekki sé hætta að fólk klemmi sig .
Mælst er til þess að gluggar séu á vængjahurðum eða að þær séu úr gagnsæju efni .
Almennt skal þannig gengið frá hurðum að ekki skapist hætta við notkun þeirra. Öryggisbúnaður skal vera á öllum vélknúnum hurðum sem virkar bæði gagnvart opnun þeirra og lokun .
Pumpur skulu ávallt hæfa viðkomandi hurðum og skal búnaður vera þannig gerðar að ekki verði slysahætta og aðgengi allra sé tryggt .
Inngangshurðir bygginga sem staðsettar eru áveðurs skulu ávallt búnar dempurum eða öðrum fullnægjandi búnaði til að koma í veg fyrir slysahættu sökum þess að hurð getur skollið aftur, t.d. vegna vindálags .
Hurðir grunnskóla, frístundaheimila og leikskóla skulu vera með klemmuvörn og er einnig mælst til þess að klemmuvörn sé á inngangshurðum íbúðarhúsa .

12.3.2. gr .Fastar innréttingar og búnaður

Í byggingum eða rýmum sem sérstaklega eru ætlaðar börnum, s.s. skólum, frístundaheimilum o.þ.h., skal frágangur innréttinga, tækja og annars búnaðar þar sem börn hafa aðgang að vera þannig að búnaðurinn geti ekki dottið eða oltið. Frágangur búnaðarins skal vera þannig að börn geti ekki skaðað sig á honum, t.d .
við það að klifra í honum eða við að opna skápahurðir. Glerhurðir í byggingum eða rýmum skulu vera með viðeigandi öryggisgleri, sbr. 8.5. kafla. Ávallt skulu vera læstir skápar eða læst rými fyrir geymslu á lyfjum, hreinsiefnum og öðrum slíkum, varasömum efnum .

12.3.3. gr .Hreyfanlegur búnaður innanhúss .

Frágangur hreyfanlegs búnaðar, s.s. hurða, hliða, veggja, grinda o.fl. sem opnast og lokast af vélarafli eða vogarafli, skal vera þannig að ekki sé hætta á að fólk geti slasast við notkun búnaðarins. Sama gildir um lyftur, rúllustiga o.þ.h. Búnaður af þessum toga skal ávallt uppfylla alla viðeigandi staðla svo og ákvæði reglugerðar Vinnueftirlits ríkisins varðandi öryggi, rekstur og viðhald .

12.4. KAFLI. Gler í byggingum

12.4.1. gr .Óvarið gler

Allt óvarið gler í byggingum, s.s. glerveggir, handrið, gluggar við göngusvæði og hurðir, og festingar þess skulu þola það álag sem búast má við að glerið eða festingarnar verði fyrir. Burðarþolshönnuður skal ákvarða styrk og festingar glersins og velja gerð þess samkvæmt nánari ákvæðum 8. hluta þessarar reglugerðar .
Viðeigandi öryggisgler skal vera í anddyri bygginga sem almenningur hefur aðgang að, s.s. opinberra bygginga, skrifstofubygginga, verslunarmiðstöðva, veitinga- og samkomuhúsa o.fl., sbr. 8.5. kafla .

12.4.2. gr .Merking glerveggja og glerhurða

Glerveggi, glerhurðir svo og rúður í umferðarleiðum í og við byggingar skal merkja á greinilegan hátt samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Merking skal þannig staðsett að hún sé sýnileg bæði þeim sem eru standandi og sitjandi. Merkingin skal vera í þannig lit að hún sé vel sýnileg og skeri sig úr umhverfinu .

12.4.3. gr .Fallhæð við glervegg eða glugga

Sé fallhæð utan við glervegg eða glugga í byggingum 2,0 m eða meiri og neðri brún glers nær gólfi en 0,60 m skal glerið í veggnum eða glugganum vera viðeigandi öryggisgler samkvæmt 8.5. kafla og nægjanlega þykkt til að standast fyrirhugað álag. Ef öryggisgler er ekki í glugganum skal vera handrið innan við glerið, minnst 0,80 m hátt .

12.4.4. gr .Önnur slysahætta vegna glers

Glerveggir í byggingum skulu þannig frágengnir að ekki sé hætta á að fólk skeri sig ef glerið brotnar .
Um val á gleri í byggingar skal fylgja kröfum sem fram koma í 8.5. kafla .
Í stórum gluggaflötum þaka og þar sem byggt er með gleri yfir götur eða torg skal vera viðeigandi öryggisgler eða plastefni, sem hefur verið prófað og viðurkennt af óháðri rannsóknastofnun til þessara sérstöku nota. Undanþegin þessu ákvæði eru gróðurhús sem eingöngu eru notuð til ræktunar .
Gler í þakflötum útbygginga, yfirbygginga o.þ.h., þar sem hætta er talin á hruni frá hærra liggjandi svæðum eða byggingarhlutum niður á glerið, skal vera viðeigandi öryggisgler. Í stað öryggisglers má nota plastefni sem hefur verið prófað og viðurkennt af óháðri rannsóknastofnun til þessara sérstöku nota .

12.5. KAFLI. Varnir gegn brunaslysum

12.5.1. gr .Markmið

Byggingar, lagnir innan þeirra sem utan, svo og allur annar búnaður skal þannig hannaður og frágenginn að ekki sé hætta á að fólk geti brennt sig snerti það þennan búnað í ógáti .

12.5.2. gr .Kröfur

Lampar og hitatæki, s.s. ofnar, svo og allur annar búnaður í byggingum sem valdið getur brunaskaða við snertingu skal varinn með hlífðarbúnaði til varnar slysum:
a. [Í leikskólum og dagvistun aldraðra og fatlaðra skal allur búnaður varinn gegn snertingu ef hitastig á yfirborði hans getur orðið 60°C eða heitara.]1) b. Slíkur búnaður skal ávallt varinn gegn snertingu ef hitastig á ytra byrði hans getur orðið allt að 90°C heitt eða heitara .
1) Rgl. nr. 350/2013, 50. gr .

12.6. KAFLI. Varnir gegn sprengingum

12.6.1. gr .Eldfim og sprengifim efni

Við hönnun og gerð ketilrýma í byggingum skal tryggt að ákvæði reglugerðar Vinnueftirlits ríkisins vegna slíkra rýma séu uppfylltar. Gufukatla sem eru með margfeldistölu stærri en 10.000 (bar x lítrar) skulu vera í sérrými. Stærri þrýstikerfi, suðutæki og gashylki skulu einnig vera í sérrými .
Ekki er heimilt við hönnun og gerð byggingar að gera ráð fyrir því að þrýstihylki, með miðli sem er samanþjappanlegur og með þrýstingi yfir 10.000 (bar x lítrar) sé staðsett í rými þar sem vinna er framkvæmd .

12.7. KAFLI. Varnir gegn innilokun

12.7.1. gr .Kröfur

Dyr að almennum snyrtingum bygginga svo og öðrum rýmum sem aðeins er hægt að læsa/opna innanfrá skulu hafa læsingu þannig frágengna að við neyðartilvik sé hægt að opna læsinguna með sérstökum þar til gerðum búnaði utanfrá .
Hurðir að snyrtingum/baðherbergjum sem ætlaðar eru hreyfihömluðu fólki skulu opnast út eða vera rennihurðir .
Hurð á gufubaði skal vera þannig að hægt sé að yfirgefa rýmið tafarlaust án hindrunar. Ekki má vera hægt að læsa rýminu. Hurðin má ekki vera úr þannig efni eða það þétt að hún geti þanist út vegna hita eða raka og orðið föst í karminum. Hurðin skal opnast út eða bæði út og inn og vera opnanleg bæði utanfrá og innanfrá .
Lokunarbúnaður á hurðum frysti- og kælirýma í byggingum skal vera þannig að ávallt sé hægt að opna hurðina innanfrá án erfiðleika. Í byggingum þar sem gera má ráð fyrir umgangi barna, s.s. íbúðum, skólum og frístundaheimilum, skal lokun á hurðum að kæli- eða frystirýmum vera þannig að barn geti opnað hurðina innanfrá án erfiðleika .
Geymslur, geymsluskúrar, sorpgeymslur o.þ.h á lóðum skulu þannig frágengnar að ekki sé hætta á að börn geti lokast þar inni .

12.8. KAFLI. Varnir gegn eitrun

12.8.1. gr .Kröfur

Bein tenging má ekki vera milli rýmis í byggingum þar sem vinnsla, notkun eða myndun hættulegs gass er möguleg og rýma þar sem gert er ráð fyrir umgangi fólks. Lokun þar á milli skal vera þannig frágengin að ekki sé hætta á að fólk verði fyrir eitrun .
Í íbúðum og á öðrum stöðum þar sem búast má við umgangi barna, skal vera fyrir hendi læstur skápur fyrir geymslu á lyfjum. Einnig skal vera fyrir hendi læst geymsla eða skápur fyrir hættuleg þvottaefni, hreinsiefni o.þ.h .

12.9. KAFLI. Varnir gegn bruna og öðrum slysum af völdum rafmagns

12.9.1. gr .Kröfur

Virki og rafföng skulu vera þannig úr garði gerð, notuð, þeim haldið við og eftir þeim litið að hætta af þeim fyrir heilsu og öryggi manna og dýra, svo og hætta á eignatjóni og umhverfisspjöllum, verði í lágmarki, sbr. reglugerð um raforkuvirki nr. 678/2009 .

12.10. KAFLI. Varnir gegn slysum á lóð

12.10.1. gr .Aðkoma og umferðarleiðir

Aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skal þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu .
Yfirborðsefni á lóðum skal valið þannig að hálkuviðnám þess henti við þær aðstæður sem það er notað .
Almennt ber að forðast að hafa í umferðarleiðum í eða við byggingar hvassar brúnir fremst á tröppubrún eða slétta kanta t.d. úr stáli eða öðrum efnum sem geta verið hál .
Öll op eða gryfjur, á eða við lóðir bygginga, sem eru aðgengilegar og fólk kemst að og getur hugsanlega fallið niður um skulu lokuð með handriði, grindum eða þar til gerðum lokum. Sama á við um alla stoðveggi við mishæðir og annars staðar þar sem fallhætta er á lóð. Þessar hindranir skulu festar tryggilega svo barn geti ekki fjarlægt þær og hafa nægan styrk til að þola fyrirhugað álag .

12.10.2. gr .Leiksvæði og leikvallatæki

Við frágang leikvallatækja á lóðum og annars búnaðar sem er tengdur þeim skal þess gætt að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt. Leikvallatæki skulu þannig gerð og frágengin að ekki skapist hætta á slysum við notkun þeirra .
Um öryggi á leiksvæðum fer samkvæmt reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim .

12.10.3. gr .Hreyfanlegur búnaður

Hurðir, hlið, grindur o.þ.h. á lóðum sem opnast og lokast af vélarafli eða vogarafli skulu þannig frágengnar að ekki sé hætta á að fólk geti slasast .
Búnaður af þessum toga skal uppfylla alla viðeigandi staðla svo og ákvæði reglugerða Vinnueftirlits ríkisins varðandi öryggi, rekstur og viðhald .

12.10.4. gr .Varnir gegn drukknun

Tjarnir á lóð, gosbrunnar, heitir pottar, brunnar o.þ.h. skulu búnir öryggisbúnaði sem tryggir að börn og fullorðnir geti ekki fallið í þá. Afrennsli sundlauga, heitra potta, tjarna o.þ.h. skal vera varið þannig að ekki sé hætta á slysum .
Sundlaugar, sá hluti lóðar sem þær eru á eða lóðin í heild, skulu girtar með a.m.k. 0,90 m hárri girðingu sem smábörn komast ekki í gegnum og hliði sem þau geta ekki opnað .
Við gerð og frágang sundlauga, setlauga og útibaðstaða skal gætt öryggis og þess sérstaklega gætt að hvergi sé hætta á hálku .
Setlaugar á lóðum íbúðar- og frístundahúsa skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær með þegar þær eru ekki í notkun. Barmur setlaugar skal vera a.m.k. 0,40 m yfir göngusvæði umhverfis hana .
Brunnlok skulu vera fest og þannig frágengin að börn geti ekki opnað þau .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.