12.2. KAFLI. Vörn gegn falli

Aftur í: 12. HLUTI. ÖRYGGI VIÐ NOTKUN

12.2.1. gr .Birta og lýsing umferðarleiða

Birta í umferðarleiðum bygginga og lóða skal vera nægjanleg til að allir aldurshópar geti athafnað sig óhindrað og af fullu öryggi. Þar sem gert er ráð fyrir umgengni almennings skal tekið tillit til heildaráhrifa þannig að tryggt sé að hvergi verði staðbundin, ófullnægjandi birtuskilyrði sem skapað geta slysahættu .
Þar sem gert er ráð fyrir umgengni almennings og straumrof getur valdið hættu skal vera neyðarlýsing til þess að tryggja örugga rýmingu. Við ákvörðun neyðarlýsingar skal fylgja ákvæðum 9. hluta þessarar reglugerðar .

12.2.2. gr .Yfirborð gólfflata

Ganga skal þannig frá yfirborði gólflata í umferðarleiðum bygginga að ekki sé hætta á að fólk hrasi eða detti .
Á gólffleti skulu hvorki vera óvæntar mishæðir né hindranir. Þröskulda skal hafa eins lága og kostur er svo síður sé hætta á að fólk hrasi .
Á hallandi gólfum svo og á gólfum þar sem hætta er á hálku, t.d. vegna bleytu eða ísingar, skal ávallt valið gólfefni með hálkuviðnámi sem hentar aðstæðum. Samfelldur flötur umferðarleiða skal allur lagður gólfefni sem er með sama hálkuviðnámi .
Á svæðum og rýmum opnum almenningi þar sem búast má við hálku vegna bleytu á gólfi, vegna ísingar eða af öðrum orsökum skulu vera handlistar til stuðnings .

12.2.3. gr .Öryggi vegna hæðarmunar

Ofan fyrstu hæðar í byggingum skal komið fyrir viðurkenndri öryggiskeðju eða öðrum jafngóðum viðurkenndum búnaði til slíkra nota á opnanlegum gluggum sem börnum getur stafað hætta af. Skulu slíkir opnanlegir gluggar ekki hafa stærra stillanlegt op en 89 mm .
Þar sem slysahætta getur skapast við glugga í stigahúsi sökum hæðarmunar, þ.e. neðri brún gluggans er minna en 0,80 m ofan við gólf stigapalls eða stigaþreps, skal setja upp handrið við gluggann eða hafa öryggisgler í glugganum .
Í húsum sem eru hærri en ein hæð mega hverfigluggar ekki vera nær gólfi en 1,0 m og stillanlegt op þeirra ekki vera stærra en 89 mm. Sé valið að hafa hverfiglugga nær gólfi skal hann varinn með handriði sem uppfyllir kröfu til handriðs stiga, sbr. ákvæði 6.4. og 6.5. kafla .

12.2.4. gr .Öryggi stiga, skábrauta o.fl .

Stigar, tröppur, þrep og skábrautir í og við byggingar skulu þannig hannaðar og byggðar að fólk geti gengið um þær án óþæginda og hættu á slysum. Um skábrautir, stiga, þrep, handrið og handlista gilda ákvæði 6.4. og 6.5. kafla .

12.2.5. Op og gryfjur í byggingum

Öll op og gryfjur í byggingum, sem eru aðgengilegar og þar sem slysahætta getur skapast sökum hæðarmunar, skulu lokaðar með handriði, grindum eða þar til gerðum lokum. Þessar hindranir skulu festar tryggilega svo barn geti ekki fjarlægt þær. Þær skulu uppfylla allar kröfur staðla um efnisgæði og styrk .

12.2.6. gr .Öryggi vegna þaka

Á eða við þök bygginga skulu vera festingar fyrir öryggisbúnað sem ætlaður er til að tryggja fullnægjandi fallvörn þeirra sem vinna á þakinu .
Þar sem hægt er að ganga út á þak án sérstakra hindrana skal vera handrið við þakbrún. Sömu reglur gilda um styrk og hæð handriða á þökum og handriða á svölum. Handrið á þaki skal tryggja fullnægjandi fallvörn á þakinu öllu .
Ávallt skal vera hægt að fara upp á þak bygginga, t.d. til viðgerða. Heimilt er að gera ráð fyrir lausum búnaði til þessara nota, sé áhættan samfara notkun slíks tækis talin ásættanleg. Við ákvörðun á vali búnaðar til þessara nota skal taka tillit til flutninga á fólki og flutninga á byggingarefni vegna viðhalds og viðgerða .
[Snjógrindur til varnar því að snjór og ís falli af þaki skulu settar á öll þök sem hafa meiri þakhalla en 14° og eru yfir umferðarleiðum eða öðrum svæðum þar sem vænta má umferðar gangandi vegfarenda.]1) Tryggja skal að ekki sé hætta á að farg á þökum, t.d. möl, geti fokið og valdið slysum eða skemmdum .
1) Rgl. nr. 350/2013, 49. gr .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.