6.7. KAFLI. Íbúðir og íbúðarhús

Aftur í: 6. HLUTI. AÐKOMA, UMFERÐARLEIÐIR OG INNRI RÝMI MANNVIRKJA

6.7.1. gr .[Almennar kröfur til íbúða

Hver einstök íbúð skal sérstaklega afmörkuð með gólfi, lofti og veggjum ásamt hurðum og gluggum, sem hver um sig uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um hljóðvist, loftræsingu, eldvarnir og varmaeinangrun .
Íbúð [og deilihúsnæði]3) skal hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skulu tengd innbyrðis og ekki skal þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Íbúð skal tilheyra geymslurými og þvottaaðstaða í séreign eða sameign. Íbúð í fjölbýlishúsi skal fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign .
Öll rými íbúða, sbr. 2. mgr., skulu vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða. Hönnuður skal rökstyðja skriflega að rýmið sé fullnægjandi að stærð miðað við áætlaðan fjölda íbúa .
Í baðherbergjum skulu vera salerni, baðaðstaða og handlaug. Hreinlætistækjum má koma fyrir í fleiri en einu herbergi og skal þá handlaug vera í þeim herbergjum þar sem eru salerni. Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni .
Aðkoma að öðrum rýmum íbúðar skal ekki vera um baðherbergi eða snyrtingu, nema aðkoma að þvottaherbergi/-aðstöðu .
Anddyri skal vera í íbúðum. Heimilt er að sleppa anddyri ef hönnuður sýnir fram á að kröfur um hljóðvist, loftræsingu og eldvarnir séu uppfylltar og að öryggi vegna vindálags sé tryggt .
Í hverju íbúðarherbergi skal vera opnanlegur gluggi [eða loftræsing]3). Svefnherbergi íbúðar skulu ekki vera hvert inn af öðru og er óheimilt að hafa einu aðkomuna að öðrum íbúðarherbergjum í gegnum svefnherbergi .
Sérgeymslur skulu ekki vera sameiginlegar þvottaherbergjum/-aðstöðu íbúða. Sameiginleg geymsla má vera í tvennu lagi og aðgengi um sameign allra eða utan frá. Aðgengi að geymslu fyrir barnavagna um sameiginlega bílgeymslu er óheimilt. Aðgengi að reiðhjólageymslu um sameiginlega bílgeymslu er heimilt ef umferðarleið að reiðhjólageymslu er aðskilin umferðarleiðum ökutækja .
Óheimilt er að hafa sjálfstæða íbúð í þakrými þar sem eingöngu eru þakgluggar .
Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir aðstöðu, frágangi og búnaði vegna móttöku rafrænna upplýsinga .
Í hverri íbúð skulu vera reykskynjari og slökkvitæki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
[Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði.]
1) Rgl. nr. 360/2016, 11. gr .
2) Rgl. nr. 669/2018, 4. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020, 2. gr. 3) Rgl. nr. 977/2020, 19. gr.

6.7.2. gr .[Lofthæð og birtuskilyrði

Þess skal gætt að íbúðarhús hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni .
Lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skal vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Heimilt er að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Í þakherbergjum og kvistherbergjum íbúða má meðalhæð minnst vera 2,20 m, enda sé lofthæðin minnst 2,50 m í að minnsta kosti þriðjungi herbergis .
Samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skal ekki vera minna en sem svarar til 1/10 af gólffleti þess, þó aldrei minna en 1 m² .
Íbúðir skulu njóta fullnægjandi birtuskilyrða og loftskipta .
Í breiðum (djúpum) byggingum ber að huga sérstaklega að aukinni lofthæð og því að dagsbirtu gæti innan íbúðar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 12. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

6.7.3. gr .[Íbúðir hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar

Íbúðir sem eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:
a. Í a.m.k. einu svefnherbergi skal vera hindrunarlaust athafnarými ekki minna en 1,50 m að þvermáli [eða 1,30 m x 1,80 m.]2) við rúm og skáp, en ekki minna [að þvermáli]2) en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m² .
b. Í stofu skal vera hindrunarlaust athafnarými sem er ekki minna en 1,50 m að þvermáli [eða 1,30 m x 1,80 m.]2), en ekki minna [að þvermáli]2) en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m² .
c. Hindrunarlaus umferðarleið skal vera að opnanlegum glugga í íbúðarherbergjum skv. a- og b-lið .
d. Athafnarými framan við eldhúsinnréttingu skal ekki vera minna en 1,50 m að þvermáli [eða 1,30 m x 1,80 m.]2), en ekki minna [að þvermáli]2) en 1,30 í íbúðum minni en 55 m², eða sýnt fram á að unnt sé að breyta innréttingunni á þann veg .
e. Stærð þvottaherbergis/-aðstöðu skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli [eða 1,30 m x 1,80 m.]2) en a.m.k. 1,30 m [að þvermáli]2) í íbúðum minni en 55 m² .
f. Tryggja skal aðgengi hreyfihamlaðra að geymslum .
A.m.k. eitt baðherbergi í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal hannað þannig að það uppfylli eftirfarandi kröfur og skal hönnuður sýna fram á með greinargerð og/eða teikningu að það sé innréttanlegt á auðveldan hátt þannig að þær séu uppfylltar:
a. Stærð baðherbergis skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli [eða 1,30 m x 1,80 m.]2), en a.m.k. 1,30 m í íbúðum minni en 55 m². Jafnframt skal vera unnt að koma við hindrunarlausu svæði, a.m.k. 0,90 m breiðu, öðrum megin salernis og a.m.k. 0,20 m að breidd hinum megin .
b. Mögulegt skal vera að koma fyrir þreplausu sturtusvæði .
c. Gerð og frágangur veggja við sturtu- og salernissvæði skal vera þannig að hægt sé að koma fyrir nauðsynlegum stuðningsbúnaði .
d. Hurð skal opnast út eða vera rennihurð .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
1) Rgl. nr. 360/2016, 13. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020, 2. gr. 2) Rgl. nr. 977/2020, 20. gr.

6.7.4. gr .Íbúðir í kjallara og á jarðhæð

Óheimilt er að hafa sjálfstæða nýja íbúð þar sem útveggir íbúðar eru niðurgrafnir nema að uppfylltum öllum eftirfarandi skilyrðum:
a. [Minnst ein hlið íbúðarrýmis skal ekki vera niðurgrafin, þ.e. frágengið yfirborð jarðvegs skal vera neðar en gólfkóti íbúðarinnar.]1)
b. Óniðurgrafin hlið skal snúa móti suðaustri, suðri, suðvestri eða vestri og þar skal vera stofa íbúðarinnar .
c. Lengd óniðurgrafinnar hliðar skal minnst vera 25% af lengd þeirra veggflata sem afmarka íbúðina .
d. Ákvæði 2. mgr. skulu uppfyllt hvað varðar öll niðurgrafin íbúðarherbergi íbúðar .
Heimilt er að stakt íbúðarherbergi sé niðurgrafið ef yfirborð frágengins jarðvegs utan útveggjar þess er [að hámarki]1) 0,5 m ofan við gólfplötu við gluggahlið og gluggahliðin er ekki nær akbraut en 3,0 m .
Slík íbúðarherbergi og önnur stök íbúðarherbergi skulu fullnægja kröfum reglugerðar þessarar um íbúðarherbergi að því er varðar glugga, björgunarop, lofthæð, stærð o.fl .
Allar aðrar kröfur til íbúða sem fram koma í reglugerð þessari gilda um íbúðir sem falla undir 1. mgr., þ.m.t. eru kröfur um birtuskilyrði, loftræsingu og flóttaleiðir .
Hönnuði ber að gera sérstaka grein fyrir því að ekki sé rakaþrýstingur á niðurgrafna veggi og gólf. Að öðrum kosti skal hann gera sérstaka grein fyrir rakavörn og þéttleika niðurgrafinna veggja og gólfa .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 26. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

6.7.5. gr .[Votrými

Gólf í votrými skal vera vatnshelt með niðurfalli og halla að niðurfalli. Ekki er heimilt að hafa niðurfall í gólfi votrýmis aflokað, t.d. inni í sökkli innréttingar. Gólf skal þannig frágengið að ekki sé hætta á hálku í bleytu .
Baðherbergi, snyrtingar og þvottaherbergi/-aðstaða íbúða skulu uppfylla kröfur til votrýma og skulu þau loftræst skv. ákvæðum 10.2. kafla .
Loft og veggir í votrýmum skulu þannig gerðir að þeir þoli gufu og þann raka sem vænta má að myndist í votrýminu]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 14. gr .

6.7.6. gr .[Svalir og svalaskýli

Svalir skulu vera öruggar og henta til fyrirhugaðra nota .
Við hönnun svalaskýla skal gera grein fyrir því hvernig fullnægjandi loftræsing er tryggð í þeim rýmum sem lokast af vegna svalaskýlisins. Jafnframt skal hönnuður gera grein fyrir opnunarbúnaði glugga svalaskýlisins.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 15. gr .[…]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 16. gr .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.