6.7.3. gr .[Íbúðir hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar

Aftur í: 6.7. KAFLI. Íbúðir og íbúðarhús

Íbúðir sem eru hannaðar á grundvelli algildrar hönnunar skulu uppfylla eftirfarandi kröfur:
a. Í a.m.k. einu svefnherbergi skal vera hindrunarlaust athafnarými ekki minna en 1,50 m að þvermáli við rúm og skáp, en ekki minna en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m² .
b. Í stofu skal vera hindrunarlaust athafnarými sem er ekki minna en 1,50 m að þvermáli, en ekki minna en 1,30 m í íbúðum minni en 55 m² .
c. Hindrunarlaus umferðarleið skal vera að opnanlegum glugga í íbúðarherbergjum skv. a- og b-lið .
d. Athafnarými framan við eldhúsinnréttingu skal ekki vera minna en 1,50 m að þvermáli, en ekki minna en 1,30 í íbúðum minni en 55 m², eða sýnt fram á að unnt sé að breyta innréttingunni á þann veg .
e. Stærð þvottaherbergis/-aðstöðu skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli en a.m.k. 1,30 m í íbúðum minni en 55 m² .
f. Tryggja skal aðgengi hreyfihamlaðra að geymslum .
A.m.k. eitt baðherbergi í íbúðum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skal hannað þannig að það uppfylli eftirfarandi kröfur og skal hönnuður sýna fram á með greinargerð og/eða teikningu að það sé innréttanlegt á auðveldan hátt þannig að þær séu uppfylltar:
a. Stærð baðherbergis skal vera nægjanleg og grunnflötur þannig skipulagður að hægt sé að koma við hindrunarlausu snúningssvæði, a.m.k. 1,50 m að þvermáli, en a.m.k. 1,30 m í íbúðum minni en 55 m². Jafnframt skal vera unnt að koma við hindrunarlausu svæði, a.m.k. 0,90 m breiðu, öðrum megin salernis og a.m.k. 0,20 m að breidd hinum megin .
b. Mögulegt skal vera að koma fyrir þreplausu sturtusvæði .
c. Gerð og frágangur veggja við sturtu- og salernissvæði skal vera þannig að hægt sé að koma fyrir nauðsynlegum stuðningsbúnaði .
d. Hurð skal opnast út eða vera rennihurð .
Mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 13. gr .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018 og í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018.