7.1. KAFLI. Almennar kröfur

Aftur í: 7. HLUTI. ÚTISVÆÐI VIÐ MANNVIRKI

7.1.1. gr .Markmið

Útisvæði við mannvirki skulu hönnuð þannig að gæði byggingarlistar séu höfð að leiðarljósi og skulu þannig gerð að þau henti til fyrirhugaðra nota. Leitast skal við að hanna og byggja útisvæði þannig að nýttir séu þeir náttúrulegu kostir sem fyrir eru á hverjum stað, svæðið sé örvandi, skapi vellíðan og hvetji til útiveru .
Ávallt skal tryggja fullnægjandi öryggi fólks á slíkum svæðum og að allar kröfur til hollustuhátta séu virtar .
Við hönnun og gerð útisvæða ber ávallt að taka tillit til umhverfisáhrifa, orkunotkunar, hagkvæmni við rekstur svæðisins, þrifa þess og viðhalds .
Við hönnun útisvæða skal, eftir því sem framast er unnt, beitt algildri hönnun þannig að almennt sé jafnt aðgengi allra að byggingum og lóðum þeirra .
Frágangur lóða og útisvæða skal vera þannig að þar verði ekki uppsöfnun vatns .
Frágangur gönguleiða á útisvæðum skal vera með þeim hætti að yfirborð þeirra henti umferð fólks, sbr .
6.1.2. gr .

7.1.2. gr .Algild hönnun

Eftirtalin útisvæði skal hanna og byggja á grundvelli algildrar hönnunar, þannig að þar sé tryggt jafnt aðgengi allra:
a. Við opinberar byggingar .
b. Við byggingar sem almenningur hefur aðgang að .
c. Við atvinnuhúsnæði eftir því sem unnt er .
d. Við byggingar ætlaðar öldruðum .
e. Við byggingar með íbúðir ætlaðar fötluðum .
f. Við stúdentagarða .
g. Við byggingar þar sem samkvæmt reglugerð þessari er krafist lyftu til fólksflutninga .
h. Leiksvæði innan lóða .
i. Íþróttasvæði .
Kröfur 1. mgr. gilda ekki ef útisvæði er í eðli sínu þannig að það geti ekki hentað fötluðum, s.s. vegna landslags .

7.1.3. gr .Umferðarleiðir

Um gönguleiðir og frágang þeirra og um skábrautir, tröppur og stiga gilda ákvæði 6. hluta þessarar reglugerðar .
Lýsing umferðarleiða útisvæða skal henta þeirri umferð sem þar er gert ráð fyrir. Huga skal sérstaklega að merkingum fyrir blinda og sjónskerta og einnig skal lögð sérstök áhersla á að lýsing henti þörfum hreyfihamlaðra .
[Á útisvæðum sem hönnuð eru á grundvelli algildrar hönnunar skal koma fyrir bekkjum með u.þ.b. 150 m millibili meðfram gönguleiðum.]1) [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um nánari framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 350/2013, 43. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

7.1.4. gr .Fallhætta

Þegar skipulagi útisvæðis er þannig háttað að slysahætta skapast vegna hættu á falli, t.d. við stoðveggi eða gryfjur, er skylt að setja upp handrið. Sömu kröfur gilda um styrkleika, hæð og op slíkra handriða og fram kemur í 6. hluta þessarar reglugerðar .

7.1.5. gr .Yfirborðsvatn

Í þéttbýli ber lóðarhafa að haga skipulagi og frágangi lóðar þannig að yfirborðsvatn af lóð hans valdi ekki skaða eða óþægindum á götu, gangstétt eða nágrannalóð .

7.1.6. gr .Dvalar- og leiksvæði

Grein þessi gildir um dvalar- og leiksvæði innan lóða eða opinna svæða við mannvirki. Slík svæði skulu henta til útivistar, hvíldar og leikja og skulu staðsett og gerð með tilliti til skjóls, sólar- og birtuskilyrða, hljóðvistar og annarra umhverfisáhrifa .
Öryggi fólks skal tryggt á öllum dvalar- og leiksvæðum. Leiksvæði skulu afgirt frá umferð og þannig frágengin að þar sé ekki fallhætta. Um kröfur til öryggis dvalarsvæða og opinna svæða gilda ákvæði 12. hluta þessarar reglugerðar og eftir því sem við á reglugerðar um öryggi leiktækja og leiksvæða og eftirlits með þeim .
Stærð dvalar- og leiksvæðis skal vera í viðeigandi samræmi við gerð og stærð byggingar eða þann fólksfjölda sem gera má ráð fyrir innan viðkomandi svæðis .
Þar sem gerð er krafa um algilda hönnun dvalar- og leiksvæða gilda að auki eftirfarandi kröfur:
a. Hindrunarlaust svæði skal vera á dvalar- og leiksvæði sem að lágmarki er 1,8 m x 1,8 m að stærð .
Yfirborð þess skal vera slétt og þétt þannig að hægt sé að athafna sig þar á hjólastól .
b. Koma skal fyrir bekkjum á dvalarsvæðum og við leiksvæði .
c. Mishæðir, þar sem fallhætta er, skulu afgirtar. Mishæðir og þrep skulu greinilega merkt þannig að sjónskertum sé ljós lega þeirra .
d. Frágangur staura, girðinga o.þ.h. skal vera þannig að staðsetning þeirra sé ljós sjónskertum .
e. Nægjanlegt rými fyrir hjólastóla skal vera þar sem gert er ráð fyrir hvíldarsvæðum .
f. Baðsvæði skulu gerð þannig að auðvelt sé fyrir alla að komast í og upp úr vatninu á baðsvæðinu .
g. Litaval og merkingar á leiksvæðum skulu vera með hliðsjón af þörfum blindra og sjónskertra .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.