Aftur í: 9. HLUTI. VARNIR GEGN ELDSVOÐA
Flóttaleiðir í byggingum skulu þannig skipulagðar og frágengnar að allir geti bjargast út af eigin rammleik eða fyrir tilstilli annarra á tilgreindum flóttatíma, brjótist eldur út eða annað hættuástand skapast .
Frá hverju rými byggingar þar sem gera má ráð fyrir að fólk dveljist eða sé statt skulu vera fullnægjandi flóttaleiðir úr eldsvoða .
Flóttaleiðir skulu vera einfaldar, auðrataðar og greiðfærar svo að fólk verði ekki innlyksa í skotum og endum ganga .
Flóttaleiðir í byggingum skulu rúma þann fjölda fólks sem þarf að nota þær. Þær skulu útfærðar sem auðrataðir gangar, stigar og/eða flóttalyftur sem gera fólki örugglega fært að komast á öruggan stað úti undir beru lofti eða á öruggt svæði. Flóttaleiðir geta einnig verið gönguleiðir um opin rými bygginga sem krefjast út- og neyðarlýsingar .
Sameiginlegar flóttaleiðir skal hanna m.t.t. fyrirkomulags rýmingar frá viðkomandi svæðum .
Við útreikninga á rýmingu skal heildarflóttatími vera styttri en sá tími þegar hættuástand fyrir fólk hefur skapast .
Allan þann tíma sem gera má ráð fyrir að flótti úr eldsvoða taki skal tryggja, eftir því sem kostur er, að fólk verði ekki fyrir fallandi byggingarhlutum, t.d. gleri, og að hiti, reykur eða eiturgufur fari ekki yfir hættumörk í flóttaleið eða of léleg birtuskilyrði tefji rýmingu .
Flóttaleiðir má ekki innrétta til annars en umferðar. Þó má innrétta ganga til notkunar sem ekki eykur brunaálag að nokkru marki né rýrir hæfni þeirra sem flóttaleiða .
Við ákvörðun flóttaleiða skal tekið tillit til krafna um algilda hönnun .
Uppdráttur sem sýnir útgönguleiðir í mannvirkjum í notkunarflokki 3 og 4 þar sem seld er gisting skal vera festur á vegg við eða á inngangshurð í öllum gistirýmum ásamt upplýsingum um viðbrögð gesta við eldsvoða .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um aðgengi að flóttaleiðum:
1. Úr öllum íbúðum og notkunareiningum skulu vera a.m.k. tvær flóttaleiðir, sem eru óháðar hvor annarri, til öruggs staðar undir beru lofti á jörðu niðri, sbr. þó 9.5.4. gr. Heimilt er að slíkur öruggur staður sé einnig á sérútbúnum svölum eða þaki byggingar sem er aðgengilegt björgunarliði, enda sé slík aðstaða sérstaklega brunahönnuð til slíkra nota. Með óháðum flóttaleiðum er átt við tvær eða fleiri flóttaleiðir sem eru þannig aðskildar að eldur og reykur geti ekki teppt þær báðar/allar [þ.e. svalir og sjálfstætt stigahús eða tvö sjálfstæð stigahús sem gengið er í beint úr hverri íbúð]1).
2. Flóttaleið úr íbúð, notkunareiningu eða gistirými má ekki liggja gegnum aðra íbúð, notkunareiningu eða gistirými.
3. Svalir má nota í flóttaleið fyrir takmarkaðan fjölda fólks ef tryggt er að rýming geti átt sér stað innan ásættanlegs tíma. Svalir skulu rúma þann fjölda sem þarf að nota þær og skulu vera varðar gegn geislun.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um aðgengi að flóttaleiðum:
1. Flóttaleiðir skulu liggja úr gagnstæðum endum íbúða og notkunareininga eða sem næst þeim. Ef íbúð eða notkunareining er á meira en einni hæð skulu vera slíkar flóttaleiðir frá hverri hæð. Fjarlægð frá hvaða stað sem er að næsta útgangi má ekki vera meiri en fram kemur í töflu 9.04. í 9.5.6. gr.
2. Heimilt er að á heimavistum námsmanna sem eru með einstaklingsherbergjum, sbr. 6.10.4. gr., séu einar veggsvalir fyrir hver sex herbergi á sameiginlegu rými sem tengist herbergjunum.
3. Svalir skal ekki nota í flóttaleið fyrir fleiri en 20 manns.
[4. Svalir í flóttaleið á íbúðarhúsum í notkunarflokki 3 skulu vera a.m.k. 4,0 m² að stærð og ekki mjórri en 1,60 m.]1)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 360/2016, 20. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Meginreglur: Heimilt er að ein flóttaleið sé frá íbúð eða notkunareiningu þegar slíkt hefur ekki í för með sér sérstaka hættu og um er að ræða lítið rými sem ætlað er fyrir takmarkaðan fjölda fólks. Flóttaleiðin skal liggja beint út á öruggan stað undir beru lofti á jörðu niðri eða að gangi sem er sjálfstætt brunahólf og liggur í gagnstæðar áttir að tveimur óháðum útgöngum.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um notkunareiningar með eina flóttaleið.
a. Í greinargerð brunahönnuðar skal sýna fram á að flóttaleið frá rýminu liggi að öruggum stað og að meginmarkmiðum sé náð.
b. Sjálfvirk brunaviðvörun skal vera samkvæmt 9.4.2. gr.
c. Rýmið skal vera sér brunahólf.
d. Hámarksgöngulengd skal mæld með veggjum og hornrétt á þá samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr. og gönguleiðir reiknast tvöfalt í samræmi við töflu 9.04. Með vatnsúðakerfi má lengja göngulengdir um 30% skv. 4. tölul. 2. mgr. 9.5.6. gr.
e. Innréttingar í rýminu skulu vera með þeim hætti að góð yfirsýn sé að útgangi og hindrunarlausri greiðfærri flóttaleið. Sé yfirsýn takmörkuð skal nota brunaviðvörun, neyðarlýsingu og merkingar sem mótvægi eins og þörf krefur.
f. Meta skal brunaálag og brunaáhættu í notkunareiningum. Sé það meira en almennt gerist skal nota vatnsúðakerfi sem mótvægi eins og þörf krefur.
g. Notkunareiningar í flokki 3, 5, og 6 skulu vera með vatnsúðakerfi.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
1) Rgl. nr. 977/2020 37. gr.
Meginreglur: Björgunarop má nota sem aðra flóttaleið fyrir takmarkaðan fjölda fólks í mannvirkjum þar sem ekki er gerð krafa um algilda hönnun ef tryggt er að rýming geti átt sér stað innan ásættanlegs tíma .
Björgunarop í byggingum eru auðopnanlegir gluggar eða hlerar sem nota má við flótta úr eldsvoða til öruggs svæðis og til að gera vart við sig. Björgunarop skulu haldast opin við rýmingu og þau skal vera hægt að opna án lykils eða annarra verkfæra. Á björgunaropum skal vera búnaður sem hindrar að [yngri]2) börn geti opnað þau meira en 89 mm. Þar sem flóttaleið liggur út á þak skulu gerðar viðunandi öryggisráðstafanir til skrikvarnar .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um björgunarop:
1. Heimilt er að nota björgunarop sem aðra flóttaleið fyrir allt að 50 manns, enda sé neðri brún björgunarops í minni hæð en 1,6 m frá jörðu. Reikna skal með einu björgunaropi á hvern byrjaðan tug manna .
2. Breidd björgunarops skal vera minnst 0,60 m og hæð minnst 0,60 m og skal samanlögð hæð og breidd gluggans ekki vera minni en 1,50 m. Hæð frá gólfi að björgunaropi má ekki vera meiri en 1,20 m .
3. Þar sem gert er ráð fyrir rýmingu út á hallandi þak skal staðsetja björgunarop þannig að lárétt fjarlægð frá opi að þakskeggi sé ekki meiri en 1,40 m, nema unnt sé að komast frá opinu á svalir .
4. Björgunarop skulu vera á hverju svefnherbergi í sérbýlishúsum .
5. Björgunarop skal vera á hvern tug svefnplássa í svefnskálum og eitt umfram það .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 38. gr.
Meginreglur: Flóttaleiðir í byggingum skulu gerðar á þann hátt að sem minnstar líkur séu á að fólk lokist inni við eldsvoða .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um göngulengd flóttaleiða:
1. Göngulengd innan flóttaleiða skal mæla með veggjum og hornrétt á þá. Sá hluti gönguleiðar sem liggur í eina átt skal reiknast tvöfalt en margfaldaður með 1,5 í bílgeymsluhúsum og opnum svæðum í notkunarflokki 1. Sé stigi í gönguleið skal reiknuð lengd hans samsvara fjórfaldri hæð hans .
2. Göngulengd innan flóttaleiðar til stigahúss, annars brunahólfs eða útgangs skal ekki vera lengri en fram kemur í töflu 9.04 .
Tafla 9.04 Hámarksgöngulengd að stigahúsi, öðru brunahólfi eða útgangi.
Forsendur | Dæmi | Hámarksgöngulengd |
---|---|---|
Mannvirki þar sem flóttaleiðir eru greiðfærar og yfirsýn góð, þar sem brunaálag er < 50 MJ/m² og eldhætta lítil . | Mannvirki í notkunarflokki 1, s.s. steypueiningaframleiðsla og vélaverkstæði . | 60 m |
Mannvirki þar sem fáir eru og sem hafa þekkingu á flóttaleiðum . | Mannvirki í notkunarflokki 1, t.d. skrifstofur o.þ.h. rými, lager og almennur iðnaður. Bílgeymsluhús í notkunarflokki 1 og notkunarflokki 2 með [vatnsúðakerfi]2). | 45 m |
Mannvirki þar sem fleiri en 50 manns eru og þar sem fólk þekkir ekki vel til aðstæðna eða þar sem hætta er á hraðri útbreiðslu elds . | Mannvirki í notkunarflokki 1, t.d. tré- og plastiðnaður og lager í iðnaði . Mannvirki í notkunarflokki 2 s.s. verslanir, bílgeymsluhús án [vatnsúðakerfis]2), veitingahús, skólar, sýningahús og hliðstæðar byggingar opnar almenningi . Mannvirki í notkunarflokki 4, 5 og 6 . | 30 m |
Íbúðir í notkunarflokki 3 . | Í allt að fjögurra hæða húsum með einu stigahúsi .Fjarlægð frá íbúðardyrum að stigahúsdyrum í svalagangshúsum með opnum svalagangi þar sem hæð upp að efri brún svalahandriðs frá jörðu er mest 10,8 m enda sé hægt að reisa stiga slökkviliðs við enda svalagangsins fjærst stigahúsinu . | 25 m |
Í húsum með einu stigahúsi í fimm til átta hæða húsum. Fjarlægð frá íbúðardyrum að stigahúsdyrum í svalagangshúsum með opnum svalagangi . | 15 m | |
Mannvirki þar sem eldhætta er mikil og þar sem hætta er á að flótti úr mannvirkinu sé erfiðleikum bundinn . | Mannvirki þar sem unnið er með eldfim efni . Vínveitingahús þar sem hætta er á þvögumyndun . | 15 m |
Notkunarflokkur | Hámarksgöngulengd þar sem flóttaleið er í eina átt |
---|---|
Í göngum og samsvarandi í notkunarflokkum 1, 2 og 3 | 10 m |
Í opnum svalagöngum í notkunarflokki 1 eða 3 | 15 m |
Í göngum og samsvarandi í notkunarflokkum 4, 5 og 6 | 7 m |
Meginreglur: Hönnun flóttaleiða í byggingum skal miðuð við mesta fjölda fólks sem ætla má að geti verið samtímis í rýminu. Taka skal tillit til þess hvernig dreifing fólks innan rýmis getur verið. Í anddyri eða forsal samkomusala mannvirkja í notkunarflokki 2 skal vera skilti á áberandi stað þar sem fram kemur hámarksfjöldi gesta og starfsmanna í viðkomandi húsnæði og eftir atvikum í hverjum sal fyrir sig .
Viðmiðunarreglur: Reikna skal með að 1% þeirra sem eru í rýminu séu hreyfihamlaðir, þó aldrei færri en einn maður .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Meginreglur: Lyftur, rúllustigar og færibönd mega ekki vera flóttaleiðir, nema þar sem um sérstakar flóttalyftur er að ræða. Í rýmum bygginga þar sem búist er við miklum mannfjölda skal hanna flóttaleiðir þannig að sem minnst hætta sé á að þvaga myndist við hindranir, s.s. hurðir.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um gerð flóttaleiða:
1. Samanlögð breidd allra flóttaleiða skal vera minnst 1,0 m fyrir hverja hundrað menn sem henni er ætlað að þjóna.
2. Til að tryggja sem jafnasta dreifingu flóttaleiða frá rými skal miða við að ein flóttaleið á hverju svæði geti lokast og má þá reikna með að flutningsgeta annarra flóttaleiða sé 200 manns á hvern 1,0 m í breidd flóttaleiðar.
3. Gangur í flóttaleið skal vera sjálfstætt brunahólf EI 60 og ef hann er lengri en 50 m skal skipta honum með a.m.k. [E 30-CS200]2) hurðum. Frá þeim stað þar sem tvær eða fleiri flóttaleiðir sameinast skal flóttaleiðin í framhaldi af því anna öllum fjöldanum. Breidd stiga í flóttaleið, þar sem aðeins þarf að rýma eina hæð í einu og hver hæð er sérstakt brunahólf, skal miðuð við þá hæð þar sem mesti fjöldinn er. Þar sem rýma þarf fleiri en eina hæð samtímis skal stigabreiddin miðast við mesta fjölda sem þá þarf að nota hann. Ekki þarf að reikna með rýmingu á meira en þremur hæðum samtímis. Hringstiga má ekki nota í flóttaleið sem er ætluð fyrir fleiri en 50 manns né fyrir meira en fjórar hæðir og ekki fyrir samkomusali í notkunarflokki 2 né fyrir byggingar í notkunarflokkum 5 og 6. Frá byggingum í notkunarflokki 2 skulu flóttaleiðir liggja í gegnum ganga eða stigahús eða beint út.
4. Brunahólf sem reiknað er fyrir fleiri en 600 manns skal hafa minnst þrjá útganga og fjóra ef brunahólfið er reiknað fyrir fleiri en 1.000 manns. Lágmarksbreidd flóttaleiðar (hurðar) frá rými með meira en 300 manns skal vera 1,2 m.
5. Stigahús í flóttaleið skal vera með hurð sem opnast beint út undir bert loft eða inn í anddyri sem er brunahólf EI 60 með hurðum minnst [E 30-CS200]2) .
6. Í kvikmyndasölum, leikhúsum og fyrirlestrasölum í notkunarflokki 2, og öðrum þeim sölum sem eru notaðir sem slíkir, skulu stólar vera festir við gólf. Fjarlægð milli stólaraða, mæld milli sætisbaka, skal vera minnst 0,80 m séu stólarnir búnir veltisetum, en 1,00 m séu setur fastar. Breidd einstakra sæta skal vera a.m.k. 0,50 m. Stólar skulu þannig festir að rýming sé greiðfær og þeir valdi ekki hættu við rýmingu. Ekki mega vera fleiri en 12 stólar í samfelldri röð að gönguleið og stólaraðir ekki fleiri en 20. Lágmarksbreidd gönguleiðar þvert á raðir skal vera 1,30 m, og einnig meðfram röðum, ef stólar eru festir í gólf, en 2,00 m, ef þeir eru spenntir saman. Í stórum byggingum skal við útreikning breiddar gönguleiðar miða við a.m.k. 0,01 m fyrir hvern mann sem um hana skal fara til að komast að útgöngudyrum salar. Í stúkum með allt að 10 stólum mega stólar vera lausir .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.
Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um dyr í flóttaleið:
1. Dyr í flóttaleið bygginga skulu vera vel merktar og sýnilegar. Þær skulu opnast í flóttaátt og skal vera auðvelt að opna þær án tafar og án þess að nota lykil eða sérstök verkfæri.
2. Í rýmum bygginga þar sem ekki er hætta á þvögumyndun, [...]2) og allir eru kunnugir umhverfinu, má nota hurðir sem opnast á móti flóttaátt í flóttaleiðir eða láréttar handvirkar rennihurðir. Þar sem aðgangsstýring eða raflæsing er á dyrum og þar sem opnunarbúnaður er á dyrum fyrir hreyfihamlaða skal sá búnaður einnig vera virkur við eldsvoða og straumleysi. Þess skal gætt að opnar hurðir þrengi ekki flóttaleið og hindri þannig rýmingu.
3. Ekki er heimilt að hafa í flóttaleiðum læstar hurðir sem eingöngu eru opnanlegar með boði frá sjálfvirku brunaviðvörunarkerfi.
4. Í byggingum með rafrænum aðgangsstýringum í flóttaleiðum skal gerð grein fyrir þeim á aðaluppdráttum og sýnt fram á að þær hindri ekki flótta frá byggingunni.
5. Byggingar fyrir dýr og aðrar sambærilegar byggingar skulu þannig gerðar að auðvelt sé að koma dýrum út ef eldur verður laus.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um dyr í flóttaleið:
[1. Í rýmum þar sem fólksfjöldi er 30 manns eða færri er almennt ekki hætta á þvögumyndun.]2)
2. Hurðir í flóttaleið skulu vera hliðarhengdar.
3. Þegar ekki er góð yfirsýn yfir flóttaleið skal tryggt að hægt sé að rýma til baka frá flóttaleið og að annarri óháðri, reynist sú fyrri ekki greiðfær.
4. Fyrir notkunareiningu með fleiri en 50 manns skal nota opnunarbúnað skv. ÍST EN 179 í flóttaleiðum en skv. ÍST EN 1125 í einingum sem rúma yfir 150 manns.
5. Nota má sneril án hlífar fyrir hurðir sem þjóna allt að 30 manns. Opnunarbúnaður skal vera staðsettur u.þ.b. 1,0 m yfir gólfi.
6. Hurðir með aðgangsstýringu í flóttaleið skulu vera með brotrofa við dyrnar, sem rýfur straum að læsingunni þannig að hún opnist. Rofinn skal vera grænn á litinn og rækilega merktur:
„Neyðarútgangur – Brjótið glerið“.
7. Véldrifnar hurðir, rennihurðir, hverfihurðir og álíka hurðir í byggingum má ekki reikna sem flóttaleið fyrir mikinn mannfjölda, nema þær séu opnanlegar með handafli í flóttaáttina og uppfylli að öllu leyti kröfur um dyr í flóttaleiðum. Þar sem ekki er gert ráð fyrir miklum mannfjölda má heimila notkun á rafdrifnum hurðum eða rennihurðum í flóttaleið ef tryggt er að dyrnar opnist við straumrof og við boð frá reykskynjara. Hnappur til opnunar skal vera við hliðina á hurðarhúni og vera vel sýnilegur og merktur. Hnappinn skal staðsetja u.þ.b. 1,0 m yfir gólfi og skal hann vera upplýstur af neyðarlýsingarlampa, minnst 5 lux, og merktur með skilti sem er minnst 0,10 m x 0,15 m með mynd af lykli og með textanum:
„Neyðaropnun“.
8. Hindrunarlaus umferðarbreidd dyra í mannvirkjum fyrir dýr skal vera 0,87 m en 1,2 m fyrir stórgripi og skulu minnst tvennar dyr vera á hverju húsi.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 41. gr.
Meginreglur: Í byggingum sem hannaðar eru á grundvelli algildrar hönnunar skulu allir hafa aðgengi að tveimur óháðum öruggum svæðum. Örugg svæði skulu vera á hverri hæð, nema þar sem hreyfihamlaðir geta komist beint út úr byggingunni án sérstakrar aðstoðar. Auðvelt skal vera fyrir hreyfihamlaða að opna hurð að örugga svæðinu. Rafmagnsopnunarbúnaður á hurðum skal vera með varaaflgjafa. Öruggu svæðin skulu vera í sérstöku brunahólfi með fullnægjandi flóttaleiðum, t.d. stigahúsi eða á svölum. Við ákvörðun stærðar þeirra skal taka tillit til fjölda fatlaðra í viðkomandi byggingu. Öruggt svæði skal aldrei vera minna en sem nemur svæði fyrir minnst einn hjólastól 1,5 m x 0,8 m að stærð að því tilskildu að a.m.k. önnur langhliðin sé opin út í stærra svæði, s.s. stigahús eða svalir. Innan öruggs svæðis bygginga skal vera samskiptabúnaður eða með öðrum hætti tryggt að þeir sem eru á svæðinu geti gert vart við sig. Búnaðurinn skal virka í jafn langan tíma og brunahólfun viðkomandi brunahólfs eða stigahúss .
Viðmiðunarreglur: Reikna skal með að 1% gesta í byggingum í notkunarflokki 2 þurfi að nýta öruggt svæði og skulu þau rúma þann fjölda. Opnunarkraftur á handfangi hurðar að öruggu svæði má ekki vera yfir 25 N .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um leiðamerkingar á flóttaleiðum:
1. Með leiðamerkingu flóttaleiða í byggingum er átt við skilti eða aðrar merkingar á flóttaleiðum sem vísa leiðina að útgönguhurðum. Merkin skulu staðsett þannig að þau séu sýnileg frá meginsvæðum eða flóttaleiðum og rata megi með hjálp þeirra einna út undir bert loft á jörð niður eða til öruggs svæðis innanhúss. Merkin skal staðsetja hátt, t.d. hengd niður úr lofti eða fest á vegg yfir eða við útgöngudyr og glugga sem eru í flóttaleið. Merkin skulu vera rétthyrnd græn að lit með hvítu merki, sbr. reglur Vinnueftirlits ríkisins um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum, og vera stöðugt gegnumlýst eða álýst. Lýsingin skal vera á varastraumi sem uppfyllir sömu kröfur og fyrir neyðarlýsingu .
2. Setja skal leiðamerkingar flóttaleiða á alla staði þar sem ekki er augljóst hvar útgangar eru og þar sem dagsbirtu nýtur ekki. Stærð og staðsetning skilta og birta þeirra skal vera slík að þau sjáist vel við venjuleg birtuskilyrði í rýminu. Minnsta mál skilta skal ekki vera minna en 100 mm en þó 200 mm í stærri rýmum í notkunarflokkum 1 og 2 .
3. Fyrir sjónskerta og blinda skal koma fyrir heppilegum leiðamerkingum, t.d. með hljóðmerkjum við útganga, merkingum í handlistum eða í gólfi eða á annan jafntryggan hátt. Í öllum byggingum í öðrum notkunarflokkum en flokki 3 skulu vera leiðamerkingar á flóttaleiðum .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um leiðamerkingar á flóttaleiðum:
1. Heimilt er að nota eftirálýsandi leiðarmerki skv. ISO 16069 í byggingu sem búin er neyðarlýsingu þar sem tryggt er að almenn lýsing á flóttaleiðinni sé með þeim hætti að skiltin séu með fullnægjandi hleðslu á þeim tíma sem byggingin er í notkun .
2. Í leikhúsum og kvikmyndahúsum í notkunarflokki 2 má dimma merki á meðan á sýningu stendur, þó þannig að ljómi sé ekki minni en 2 cd/m² á skiltinu þar sem hún er minnst. Stærð merkja miðast við þá fjarlægð sem þau þurfa að sjást í. Taka skal tillit til aðstæðna við ákvörðun á stærð merkinga .
Stigaþrep skulu eftir aðstæðum búin leiðarlýsingu .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um ákvæði þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.