Aftur í: 12. HLUTI. ÖRYGGI VIÐ NOTKUN
Aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skal þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu .
Yfirborðsefni á lóðum skal valið þannig að hálkuviðnám þess henti við þær aðstæður sem það er notað .
Almennt ber að forðast að hafa í umferðarleiðum í eða við byggingar hvassar brúnir fremst á tröppubrún eða slétta kanta t.d. úr stáli eða öðrum efnum sem geta verið hál .
Öll op eða gryfjur, á eða við lóðir bygginga, sem eru aðgengilegar og fólk kemst að og getur hugsanlega fallið niður um skulu lokuð með handriði, grindum eða þar til gerðum lokum. Sama á við um alla stoðveggi við mishæðir og annars staðar þar sem fallhætta er á lóð. Þessar hindranir skulu festar tryggilega svo barn geti ekki fjarlægt þær og hafa nægan styrk til að þola fyrirhugað álag .
Við frágang leikvallatækja á lóðum og annars búnaðar sem er tengdur þeim skal þess gætt að öryggi og aðgengi notenda verði sem best tryggt. Leikvallatæki skulu þannig gerð og frágengin að ekki skapist hætta á slysum við notkun þeirra .
Um öryggi á leiksvæðum fer samkvæmt reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim .
Hurðir, hlið, grindur o.þ.h. á lóðum sem opnast og lokast af vélarafli eða vogarafli skulu þannig frágengnar að ekki sé hætta á að fólk geti slasast .
Búnaður af þessum toga skal uppfylla alla viðeigandi staðla svo og ákvæði reglugerða Vinnueftirlits ríkisins varðandi öryggi, rekstur og viðhald .
Tjarnir á lóð, gosbrunnar, heitir pottar, brunnar o.þ.h. skulu búnir öryggisbúnaði sem tryggir að börn og fullorðnir geti ekki fallið í þá. Afrennsli sundlauga, heitra potta, tjarna o.þ.h. skal vera varið þannig að ekki sé hætta á slysum .
Sundlaugar, sá hluti lóðar sem þær eru á eða lóðin í heild, skulu girtar með a.m.k. 0,90 m hárri girðingu sem smábörn komast ekki í gegnum og hliði sem þau geta ekki opnað .
Við gerð og frágang sundlauga, setlauga og útibaðstaða skal gætt öryggis og þess sérstaklega gætt að hvergi sé hætta á hálku .
Setlaugar á lóðum íbúðar- og frístundahúsa skulu búnar læsanlegu loki til að hylja þær með þegar þær eru ekki í notkun. Barmur setlaugar skal vera a.m.k. 0,40 m yfir göngusvæði umhverfis hana .
Brunnlok skulu vera fest og þannig frágengin að börn geti ekki opnað þau .
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.