Aftur í: 4.10. KAFLI . Iðnmeistarar
Leiðbeiningar: Ábyrgð og verksvið iðnmeistara
[Byggingarstjóri skal í gæðastjórnunarkerfi sínu halda skrá yfir alla iðnmeistara sem koma að verkum sem hann stýrir og varðveita afrit af undirrituðum ábyrgðaryfirlýsingum þeirra. Ábyrgðaryfirlýsingar iðnmeistara skal skrá í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2). Skrá skal eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar og eðli hennar þá húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdar og nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki] 1).
Leyfisveitandi getur heimilað að fleiri en einn iðnmeistari á hverju fagsviði beri ábyrgð og undirriti ábyrgðaryfirlýsingu skv. 1. mgr. enda beri hver iðnmeistari ábyrgð á skýrt afmörkuðum verkþætti. Ábyrgðaryfirlýsing skal afmarka skýrt til hvaða verkþátta ábyrgð hvers iðnmeistara tekur og vera [undirrituð]1) af byggingarstjóra, viðkomandi iðnmeistara og öðrum iðnmeisturum sem að fagsviðinu koma .
Iðnmeistari ber ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim .
Ábyrgðarsvið iðnmeistara vegna mannvirkjagerðar skal vera í samræmi við gildandi hæfniskröfur og námskrár til meistaraprófs í viðkomandi iðngrein á hverjum tíma. Um ábyrgðarsvið iðnmeistara vísast að öðru leyti til reglugerðar um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Ef ágreiningur verður um starfssvið iðnmeistara við tiltekið verk sker leyfisveitandi úr .
Þeir iðnmeistarar einir geta borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) skv. lögum um mannvirki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) heldur skrá yfir löggilta iðnmeistara og skal hún varðveitt í gagnasafni stofnunarinnar .
Iðnmeistari sem ekki hefur lokið námi í meistaraskóla en hefur leyst út meistarabréf getur hlotið staðbundna viðurkenningu leyfisveitanda til að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum við byggingarframkvæmdir .
Til þess að hljóta slíka viðurkenningu skal hann hafa lokið sveinsprófi fyrir 1. janúar 1989 og fengið áður viðurkenningu í öðru byggingarfulltrúaumdæmi. Skal hann, þegar leitað er nýrrar staðbundinnar viðurkenningar, leggja fram verkefnaskrá staðfesta af byggingarfulltrúa er sýni fram á að hann hafi að staðaldri haft umsjón með og borið ábyrgð á byggingarframkvæmdum í a.m.k. þrjú ár eftir viðurkenningu í viðkomandi umdæmi/um .
1) Rgl. nr. 1278/2018, 22. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.