Aftur í: 6.7. KAFLI. Íbúðir og íbúðarhús
Hver einstök íbúð skal sérstaklega afmörkuð með gólfi, lofti og veggjum ásamt hurðum og gluggum, sem hver um sig uppfyllir ákvæði reglugerðar þessarar um hljóðvist, loftræsingu, eldvarnir og varmaeinangrun .
Íbúð [og deilihúsnæði]3) skal hafa að lágmarki eitt íbúðarherbergi, eldunaraðstöðu og baðherbergi. Öll slík rými innan íbúðar skulu tengd innbyrðis og ekki skal þurfa að fara um sameign á milli rýmanna. Íbúð skal tilheyra geymslurými og þvottaaðstaða í séreign eða sameign. Íbúð í fjölbýlishúsi skal fylgja geymsla fyrir barnavagna og hjól, sameiginleg eða í séreign .
Öll rými íbúða, sbr. 2. mgr., skulu vera nægjanlega stór þannig að þar rúmist innréttingar af þeim gerðum sem henta stærð íbúða. Hönnuður skal rökstyðja skriflega að rýmið sé fullnægjandi að stærð miðað við áætlaðan fjölda íbúa .
Í baðherbergjum skulu vera salerni, baðaðstaða og handlaug. Hreinlætistækjum má koma fyrir í fleiri en einu herbergi og skal þá handlaug vera í þeim herbergjum þar sem eru salerni. Aðkoma að snyrtingu eða baðherbergi íbúðar skal ekki vera frá svefnherbergi, nema annað baðherbergi eða snyrting sé í íbúðinni .
Aðkoma að öðrum rýmum íbúðar skal ekki vera um baðherbergi eða snyrtingu, nema aðkoma að þvottaherbergi/-aðstöðu .
Anddyri skal vera í íbúðum. Heimilt er að sleppa anddyri ef hönnuður sýnir fram á að kröfur um hljóðvist, loftræsingu og eldvarnir séu uppfylltar og að öryggi vegna vindálags sé tryggt .
Í hverju íbúðarherbergi skal vera opnanlegur gluggi [eða loftræsing]3). Svefnherbergi íbúðar skulu ekki vera hvert inn af öðru og er óheimilt að hafa einu aðkomuna að öðrum íbúðarherbergjum í gegnum svefnherbergi .
Sérgeymslur skulu ekki vera sameiginlegar þvottaherbergjum/-aðstöðu íbúða. Sameiginleg geymsla má vera í tvennu lagi og aðgengi um sameign allra eða utan frá. Aðgengi að geymslu fyrir barnavagna um sameiginlega bílgeymslu er óheimilt. Aðgengi að reiðhjólageymslu um sameiginlega bílgeymslu er heimilt ef umferðarleið að reiðhjólageymslu er aðskilin umferðarleiðum ökutækja .
Óheimilt er að hafa sjálfstæða íbúð í þakrými þar sem eingöngu eru þakgluggar .
Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir aðstöðu, frágangi og búnaði vegna móttöku rafrænna upplýsinga .
Í hverri íbúð skulu vera reykskynjari og slökkvitæki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.]1)
[Í nýbyggingum og við endurbyggingu skal gert ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði.]
1) Rgl. nr. 360/2016, 11. gr .
2) Rgl. nr. 669/2018, 4. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020, 2. gr. 3) Rgl. nr. 977/2020, 19. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.