Aftur í: 9.8. KAFLI. Aðstaða og búnaður vegna aðkomu slökkviliðs
Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um reyklosun:
1. Reyklosun skal þannig hönnuð og gerð að hún geti virkað á réttan hátt í þann tíma sem nauðsynlegur er vegna öryggis þeirra er dvelja í mannvirki og björgunarliðs svo og öryggis mannvirkis. [Ávallt skal gera ráð fyrir aðlofti óháð því hvort reyklosun sé sjálfvirk eða ekki.]2)
2. Í stærri kjöllurum og öðrum niðurgröfnum rýmum bygginga, skal koma fyrir reyklosun. Staðsetning reyklosunaropa skal vera þannig að ekki sé hætta á að eldur eða reykur geti breiðst út um þau til annarra hluta byggingarinnar.
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um reyklosun:
1. Í stigahúsum 1 og 2 sem eru án glugga á útvegg skal vera reyklúga. Reyklúgan skal staðsett efst í stigahúsinu og vera með minnst 1 m² opnun eða samsvarandi vélræna reykloftun. Lúguna skal vera hægt að opna frá jarðhæð (aðalinngangshæð) með þar til gerðum búnaði sem komið er fyrir á áberandi stað og skal hann greinilega merktur:
„Reyklúga“. Sama gildir um staðsetningu og merkingu stjórnbúnaðar fyrir vélræna loftun.
2. Flatarmál reyklosunaropa í kjöllurum og öðrum niðurgröfnum rýmum skal vera a.m.k. 0,5% af gólffleti þar sem brunaálag er minna en 800 MJ/m², en þó aldrei minna en 0,25 m². Annars skal flatarmál reyklosunar vera 1,0% og aldrei minna en 0,25 m². Sé um að ræða annars konar notkun rýmisins skal flatarmál ops ákveðið við brunahönnun. Í kjallararýmum sem eru búin sjálfvirku vatnsúðakerfi er 0,1% opnun nægjanleg.
3. Ætíð skulu vera fyrir hendi op í bílgeymslu í notkunarflokki 1 eða 2 til reyklosunar með tækjum slökkviliðs, staðsett á heppilegum stöðum. Opin skulu vera a.m.k. 0,5% af gólffleti en a.m.k. 0,1% ef bílgeymslan er varin með sjálfvirku vatnsúðakerfi. Ekkert opanna skal vera minna en 1 m² að stærð. Nýta má aðkomudyr, glugga og reyklosunarop í þessu skyni eftir því sem aðstæður leyfa.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020, 51. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.