3.9. KAFLI Lokaúttekt

Aftur í: 3. HLUTI FAGGILDING, EFTIRLIT OG ÚTTEKTIR

3.9.1. gr .Framkvæmd lokaúttektar

Þegar mannvirkjagerð er lokið og innan þriggja ára frá því að mannvirki var tekið í notkun og öryggisúttekt fór fram skal gera lokaúttekt á því [í samræmi við ákvæði skoðunarhandbókar og skoðunarlista .
Framkvæmi skoðunarstofa lokaúttekt skal heimild leyfisveitanda til úttektarinnar liggja fyrir áður en hún fer fram]1) .
Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir lokaúttekt. Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir að lokaúttekt sé gerð. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir lokaúttekt innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. skal leyfisveitandi boða til slíkrar úttektar og skal hann tilkynna það [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2). Viðstaddir lokaúttekt skulu auk eftirlitsaðila vera byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs .
Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuðum mannvirkis um lokaúttekt og gefa þeim kost á að vera viðstaddir .
Við lokaúttekt skal gerð úttekt á því hvort mannvirki uppfylli ákvæði laga um mannvirki, reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og hvort byggt hefur verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn .
[…]1)
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

3.9.2. gr .Gögn vegna lokaúttektar

Við lokaúttekt ber byggingarstjóra að tryggja að samþykktir uppdrættir séu á byggingarstað. Að auki skal byggingarstjóri [þegar sótt er um]1) lokaúttekt [afhenda leyfisveitanda]1) eftirtalin gögn:
a. [Staðfestingu rafvirkjameistara um að raforkuvirki mannvirkisins sé tilbúið til úttektar.]2)
b. Yfirlýsingu rafvirkjameistara um að brunaviðvörunarkerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður .
c. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að vatnsúðakerfi eða sambærilegt kerfi sé fullbúið og þjónustusamningur vegna rekstrar kerfisins hafi verið gerður .
d. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að lyfta og búnaður hennar hafi verið prófaður með fullnægjandi hætti og þjónustusamningur vegna reksturs hennar liggi fyrir .
e. Yfirlýsingu pípulagningameistara um að hitakerfi hafi verið stillt samkvæmt hönnunarlýsingu og stýritæki séu virk .
f. Yfirlýsingu blikksmíða-, pípulagninga- og rafvirkjameistara um að loftræsikerfi hafi verið stillt, samvirkni tækja prófuð og að afköst þeirra séu í samræmi við hönnunargögn. Einnig skulu afhentar niðurstöður loftmagnsmælinga ásamt samanburði við kröfur um loftmagn í hönnunargögnum .
g. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að gaslagnir uppfylli reglur og staðla sem til þeirra eru gerðar, ásamt staðfestingu pípulagnameistara og/eða stálvirkjameistara á að þéttleiki þeirra, virkni og þrýstiþol hafi verið prófað og sé í samræmi við hönnunargögn .
h. Yfirlýsingu Vinnueftirlits ríkisins um að olíu-, gufu-, loft- og aðrar þrýstilagnir uppfylli reglur sem til þeirra eru gerðar ásamt staðfestingu pípulagnameistara og/eða stálvirkjameistara á að þéttleiki þeirra, virkni og þrýstiþol hafi verið prófað og sé í samræmi við hönnunargögn .
i. Handbók hússins sem leyfisveitandi varðveitir, sbr. 16. hluta þessarar reglugerðar .
j. Uppfært yfirlit um innra eftirlit byggingarstjóra .
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Regl. nr.669/2018, 3 gr.
[

3.9.3. gr . Niðurstaða lokaúttektar

Séu gerðar athugasemdir í skoðunaskýrslu skal byggingarstjóri sjá til þess að bætt sé úr og úttekt endurtekin. Í skoðunarhandbók er tilgreint í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum byggingarstjóra er heimilað að leiðrétta minniháttar frávik án kröfu um að lokaúttekt sé endurtekin.]1)
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
[

3.9.4. gr.]1) Vottorð um lokaúttekt

Leyfisveitandi skal að lokinni lokaúttekt afhenda eiganda undirritað vottorð um að lokaúttekt hafi farið fram. Þar skal koma fram að lágmarki útgáfudagur vottorðs, hvenær lokaúttekt fór fram, hver framkvæmdi hana og til hvaða mannvirkis eða eftir atvikum hluta þess lokaúttekt hafi náð. Tilgreint skal auðkenni byggingarleyfis séu þau fyrir hendi, t.d. númer byggingarleyfis. Varði fleiri en eitt byggingarleyfi þessa tilteknu lokaúttekt skulu auðkenni allra viðkomandi byggingarleyfa tilgreind .
Sé mannvirki ekki [fullgert við lokaúttekt, ef það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði reglugerðar þessarar eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn getur leyfisveitandi gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Ekki mega þó vera ófullgerðir verkþættir sem varða öryggis- og hollustukröfur né verkþættir sem háðir eru áfangaúttekt.]1) [Í skoðunarhandbók er tilgreint í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum leyfisveitanda er heimilt að samþykkja lokaúttekt með athugasemdum.]1) [Leyfisveitandi getur synjað um útgáfu vottorðs um lokaúttekt ef hann telur framkvæmd of skammt á veg komna .
Uppfylli mannvirki ekki öryggis- eða hollustukröfur getur leyfisveitandi synjað um útgáfu vottorðs um lokaúttekt, fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr. Skal lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en úrbætur hafa verið framkvæmdar .
Þáttum sem varða aðgengi skal ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.]1)
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.