10. HLUTI. HOLLUSTA, HEILSA OG UMHVERFI

Aftur í: Efnisyfirlit

10.1. KAFLI. Almennar hollustukröfur til mannvirkja

10.1.1. gr .Meginmarkmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að heilsu og innra umhverfi sé ekki spillt, m.a. vegna hita og raka, hávaða, titrings, fráveitu, meindýra, reyks, úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi eða vatni, gasleka eða geislunar sem valdið getur óþægindum, vanlíðan, minna starfsþreki eða heilsutjóni fyrir þá sem þar dvelja .
Tryggja ber að þessa sé gætt allan líftíma mannvirkisins .
Nota skal endurnýtanleg eða endurunnin byggingarefni eins og kostur er, þannig að við niðurrif sé mögulegt að endurvinna byggingarefnin þar sem slíkt er hagkvæmt frá fjárhagslegu og umhverfislegu sjónarmiði .

10.1.2. gr .Breytt notkun þegar byggðra mannvirkja

Við breytta notkun þegar byggðra mannvirkja skal hönnuður staðfesta að uppfyllt séu öll viðeigandi ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar .

10.1.3. gr .Framsetning krafna

Um þau ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar sem skipast í meginreglur og viðmiðunarreglur gildir að meginreglur eru ávallt ófrávíkjanlegar en viðmiðunarreglur eru frávíkjanlegar ef sýnt er fram á að hollusta, [loftgæði og loftræsing]2), rakavörn og öryggi sé tryggt með jafngildum hætti og meginregla viðkomandi ákvæðis uppfyllt. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila með hönnunargögnum greinargerð þar sem gerð er grein fyrir því og rökstutt með hvaða hætti meginregla ákvæðisins er uppfyllt. Önnur ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar eru ófrávíkjanleg nema annað sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi ákvæði.]1) 1) Rgl. nr. 350/2013, 46. gr .2) Rgl. nr. 360/2016, 21. gr .

10.2. KAFLI. Loftgæði og loftræsing

10.2.1. gr .Markmið

Loftgæði innan mannvirkja skulu vera fullnægjandi og í samræmi við notkun þeirra og tryggt að loft innan mannvirkis innihaldi ekki mengandi efni sem valdið geta heilsutjóni eða óþægindum .

10.2.2. gr .Almennt um loftræsingu

Allar byggingar skal loftræsa. Loftræsingin getur verið vélræn, náttúruleg eða blanda af hvoru tveggja .
Tryggja skal að kröfur um gæði lofts og þægilega varmavist séu uppfylltar .
Við ákvörðun loftræsingar ber að taka mið af tegund og gerð rýmis, þeirri starfsemi sem þar fer fram, hita- og rakamyndun, útstreymi mengandi efna frá byggingarefnum og útbúnaði, útstreymi mengunar vegna efna og vinnslu svo og vegna athafna fólks og dýra sem þar dvelja .
Loftræsikerfið skal þannig hannað, gert, rekið og því viðhaldið að það haldi virkni sinni allan líftíma byggingarinnar .
Þar sem fólk dvelur um lengri tíma skal þess gætt að ekki verði trekkur á íverusvæðum. Til að koma í veg fyrir trekk má lofthraði ekki vera meiri en 0,15 m/s þar sem fólk situr við leik og störf. Mörk lofthraða eru háð virkni fólks, innihita og því hvernig loftið berst að fólki .
Um kröfur til loftræsibúnaðar gilda ákvæði 14.9. kafla .

10.2.3. gr .Ferskloft, uppblöndun lofts og mengandi svæði

Ferskloft getur ýmist borist til rýmis í byggingu gegnum loftræsiop eða glugga á útvegg eða þaki, eða þannig að fersklofti sé blásið inn í rýmið með vélbúnaði .
Ekki er heimilt að blanda útsogslofti við ferskloft nema tryggt sé að það mengi ekki ferskloft þess rýmis sem loftræst er .
Loftstreymi milli rýma skal ætíð vera frá rými með minni loftmengun til rýmis þar sem loftmengun er meiri .
Svæði innan byggingar þar sem mengandi starfsemi fer fram skulu lokuð af eftir því sem framast er unnt. Nota skal [staðbundið útsog]1) þar sem mengandi vinnsla fer fram eða hún skal höfð í aðskildu rými með sjálfstæðri loftræsingu. Styrkur mengunarefna má ekki fara yfir þau mörk sem tilgreind eru í reglugerð Vinnueftirlits ríkisins um mengunarmörk og aðgerðir til að draga úr mengun á vinnustöðum .
1) Rgl. nr. 1173/2012, 44. gr .

10.2.4. gr .Loftinntak og útblástursop

Leitast skal við að staðsetja loftinntak í byggingu þannig að ferskloftið sé eins hreint og framast er unnt .
[Almennt skal neðri brún loftinntaks vélrænna loftræsikerfa í þéttbýli ekki vera nær jörðu en 4,0 m frá frágengnu jarðvegsyfirborði.]1) Frágangur loftinntaks skal vera þannig að hættan á því að regnvatn eða snjór geti borist inn í inntakið sé takmörkuð eins og framast er unnt .
Loftinntak og útblástursop í byggingum skulu þannig hönnuð og staðsett að ekki sé hætta á því að loft frá útblástursopi eða mengunaruppsprettu geti borist að loftinntaki .
[Opnun upp úr þaki í lyftum skal vera a.m.k. 1% af flatarmáli lyftuganga.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 45. gr .

10.2.5. gr .[Loftræsing íbúða og tengdra rýma

Meginreglur:
Eftirfarandi meginreglur gilda um loftræsingu íbúða og tengdra rýma:
1. Öll rými íbúða og íbúðarhúsa skulu loftræst. Heimilt er að beita náttúrulegri loftræsingu, vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja. Loftræsing skal henta viðkomandi rými þannig að magn fersklofts sé fullnægjandi til að komið sé í veg fyrir lyktarmengun og rakamettun innilofts. Útsog skal vera úr eldhúsi, baðherbergi íbúðar, minni snyrtingum, þvottaherbergjum, stökum geymslum og kjallaraherbergjum. Útsog frá eldhúsi, salernum og þvottahúsi má ekki draga gegnum önnur rými hússins .
2. Íverurými eru loftræst þannig að magn fersklofts sem berst til rýmis sé minnst 0,3 l/s á m² gólfflatar á meðan rýmið er í notkun og minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar meðan rýmið er ekki í notkun. Miða skal við að íbúðir aldraðra og sérhæfðar íbúðir fatlaðra séu í notkun allan sólarhringinn .
3. Magn fersklofts sem berst til svefnherbergis skal aldrei vera minna en 7 l/s á hvern einstakling meðan herbergið er í notkun. Önnur rými þar sem ekki er gert ráð fyrir stöðugri viðveru er heimilt að loftræsa þannig að magn fersklofts sé minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar. Meta skal þörf fyrir loftræsingu í öðrum rýmum, s.s. sameiginlegum göngum, gufuböðum o.þ.h .
Viðmiðunarreglur:
Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um ákvörðun loftmagns í íbúðum og tengdum rýmum:
1. Tryggja skal að eftirfarandi loftskipti í íbúðarhúsum séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar:
a. Útsog úr eldhúsi íbúðar: 30 l/s .
b. Útsog úr baðherbergi íbúðar: 15 l/s .
c. Útsog úr minni snyrtingum: 10 l/s .
d. Útsog úr stökum geymslu- eða kjallaraherbergjum þar sem ekki er stöðug viðvera: 0,2 l/s á m² gólfflatar. Þegar geymslurými er innan íbúðar er heimilt að rýmið sé loftræst á sama hátt og íverurými íbúðarinnar .
e. Útsog frá þvottaherbergi einnar íbúðar: 20 l/s .
f. Sameiginlegt þvottaherbergi með samnýttum þvottavélum fyrir 2 íbúðir eða fleiri: 30 l/s á hverja þvottavél .
g. Stigahús: 17 l/s .
h. Sorpgeymslur: 0,6 l/s á m², þó að lágmarki 20 l/s .
2. Aðstreymi lofts að eldhúsi, baðherbergi, salerni eða þvottahúsi má koma frá aðliggjandi rýmum með minna mengunar- eða rakaálagi.]1) 1) Rgl. nr. 360/2016, 22. gr .[...]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 47. gr . [

10.2.6. gr .Loftræsing í skólum og sambærilegum byggingum

Íveruherbergi í skólum, frístundaheimilum og sambærilegum byggingum skal loftræsa með loftræsibúnaði sem er bæði með innblástur og útsog og þar sem varmaorka útsogs er endurnýtt. Búnaðurinn skal tryggja gott og heilnæmt inniloft. Innblásið ferskloft og útsog skal vera minnst 5 l/s fyrir hvert barn og minnst 7 l/s fyrir einstaklinga 6 ára og eldri. Að lágmarki skal þó innblásið magn fersklofts vera 0,35 l/s á m² heildargólfflatar á meðan byggingin eða einstök rými eru í notkun. Þegar bygging er ekki í notkun skal magn fersklofts vera minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar. Í leiðbeiningunum skal m.a. skilgreina lágmarksgildi sem höfð skulu til viðmiðunar við hönnun loftræsingar í einstökum rýmum bygginga skv. þessari grein.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 48. gr .
[
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

10.2.7. gr .Loftræsing atvinnuhúsnæðis

[Magn fersklofts í atvinnuhúsnæði og byggingum ætluðum almenningi skal að lág­marki vera 7,0 l/s á mann.]2) Að jafnaði skal magn fersklofts í atvinnuhúsnæði og byggingum ætluðum almenningi að lágmarki vera 7,0 l/s á mann, þegar ekki er gert ráð fyrir mikilli áreynslu eða hreyfingu. Sé áreynsla eða hreyfing mikil innan rýmisins skal auka magn fersklofts þannig að loftgæði séu fullnægjandi .
Í rýmum bygginga skv. 1. mgr. þar sem lykt, mengun eða önnur óþægindi eru frá byggingarefnum eða búnaði innanhúss, skal magn fersklofts vera minnst 0,7 l/s á m² gólfflatar meðan byggingin eða rýmin eru í notkun. Þegar byggingin er ekki í notkun skal magn fersklofts vera minnst 0,2 l/s á m² gólfflatar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar. Í leiðbeiningunum skal m.a. skilgreina lágmarksgildi sem höfð skulu til viðmiðunar við hönnun loftræsingar í einstökum rýmum bygginga skv. þessari grein.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 49. gr .
[
1) Rgl. nr. 977/2020, 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020, 54. gr.

10.2.8. gr.]1) Mesta leyfilegt magn CO2 í innilofti

Tryggt skal að CO2 magn í innilofti verði ekki meira að jafnaði en 0,08% CO2 (800 ppm) og fari ekki til skamms tíma yfir 0,1% CO2 (1.000 ppm). [...]2) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 47. gr .1) Rgl. nr. 1173/2012, 50. gr .

10.3. KAFLI. Þægindi innilofts

10.3.1. gr .Markmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að þægindi hvað varðar hita[,]1) raka og hreyfingu lofts á þeim svæðum þar sem fólk dvelur séu fullnægjandi og ávallt í eðlilegu samræmi við þær athafnir og þá starfsemi sem fram fer í mannvirkinu .
1) Rgl. nr. 977/2020 55. gr.

10.3.2. gr .Innivist

[Um innivist í byggingum skal hafa hliðsjón af ÍST EN ISO 7730.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 51. gr .

10.4. KAFLI. Birta og lýsing

10.4.1. gr .Markmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að öll birtuskilyrði og ljósmagn sé í fullu samræmi við þá starfsemi sem fer fram við eða innan mannvirkisins, án þess að óeðlilegur truflandi hiti eða óeðlileg glýjumyndun verði vegna lýsingar. Við mat á eðlilegum birtuskilyrðum ber að taka tillit til þarfa allra aldurshópa .

10.4.2. gr .Kröfur

Við hönnun á útilýsingu skal þess gætt að ekki verði um óþarfa ljósmengun að ræða frá flóðlýsingu mannvirkja. Tryggja skal að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og nota skal vel skermaða lampa sem varpa ljósinu niður og valda síður glýju og næturbjarma .
Lýsing vinnustaða skal uppfylla að lágmarki kröfur staðalsins ÍST EN 12464-1 fyrir vinnustaði innandyra og staðalsins ÍST EN 12464-2 fyrir vinnustaði utandyra .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

10.5. KAFLI. Raki

10.5.1. gr .Markmið

Mannvirki skulu þannig hönnuð og byggð að vatn eða raki geti ekki valdið skaða á mannvirki í heild eða einstökum hlutum þess eða skapað aðstæður sem valdið geta óþægindum, slysum eða verið hættulegar heilsu manna, s.s. vegna myndunar myglu eða varasamra örvera .
Tryggja skal að grunnvatn, yfirborðsvatn, úrkoma, s.s. regn, slagregn, snjór eða krapi, raki í jarðvegi, neysluvatn, loftraki, byggingarraki eða þéttivatn geti hvorki skaðað mannvirki eða einstaka hluta þess, né rýrt eðlileg hollustuskilyrði innandyra .

10.5.2. gr .Varnir gegn óþægindum og skemmdum vegna raka og vatns

Yfirborð jarðvegs við byggingu skal halla nægjanlega til að yfirborðsvatn renni ávallt frá byggingunni .
Þar sem ekki er hægt að ná nægum halla á jarðvegi skal gera aðrar fullnægjandi ráðstafanir til að leiða vatn frá byggingunni. Í þéttbýli ber lóðarhafa að gera ráðstafanir sem hindra að yfirborðsvatn af lóð hans valdi skaða eða óþægindum á götu, gangstétt eða nágrannalóð .
Botnplata, undirstöður og kjallaraveggir bygginga skulu vera úr þannig efni og þannig frágengnir að ekki sé hætta á að þessir byggingarhlutar geti skemmst vegna vatns eða raka .
Botnplata, undirstöður og kjallaraveggir skulu þannig hannaðir og byggðir að vatn og raki geti ekki komist inn í byggingu. Á uppdráttum skal ávallt gerð sérstök grein fyrir rakavörnum kjallaraveggja og botnplötu .
Hæðarskil eða gólf yfir skriðrými bygginga skulu þannig hönnuð og byggð að ekki komi til óþæginda eða skemmda af völdum raka .
Skriðrými byggingar skal loftræst á fullnægjandi hátt með meindýraheldum loftristum þannig að rakaþétting verði ekki í rýminu. Loftrásir skulu vera á útveggjum skriðrýmis og skal stærð þeirra og staðsetning vera háð stærð rýmis og vera nægjanleg til að tryggja góða loftræsingu og trekk gegnum rýmið .
Einangra skal og rakaverja plötur og veggi milli skriðrýmis og annarra hluta byggingar. Í skriðrýmum skal jafnan komið í veg fyrir jarðraka, t.d. með því að steypa þrifalag .

10.5.3. gr .Varnir vegna úrkomu

Til að tryggja vatnsþéttleika ysta byrðis þakflatar á byggingu [...]1) skal velja þakefni og frágang með tilliti til þakhalla .
Til að tryggja vatnsþéttleika glerjaðra glugga í byggingu skulu þeir standast slagregnspróf samkvæmt 8.2.6. gr .1) Rgl. nr. 280/2014, 29. gr .

10.5.4. gr .[Regnvörn þaka og lágmarkshalli

Meginreglur:
Tryggja skal fullnægandi vatnsþéttleika þaka og að ekki verði uppsöfnun vatns. Efnisval aðalregnvarna skal henta þakhalla þannig að tryggður sé fullnægjandi þéttleiki að teknu tilliti til aðstæðna. Á viðsnúnum þökum skal tryggja nægar þerrileiðir og halla þannig að vatn geti ekki safnast upp undir og/eða í einangruninni .
Viðmiðunarreglur:
Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um regnvörn þaka og lágmarkshalla:
1. Þakhalli bygginga skal vera eftirfarandi og miðast við tilgreinda aðalregnvörn:
a. Bárujárn á pappaklætt undirþak klætt með borðaklæðningu eða rakaþolnum plötum (14°) 1:4
b. Læstar málmklæðningar – einfaldur fals (11°) 1:5
c. Læstar málmklæðningar – tvöfaldur fals (4°) 1:15
d. Pappaþak (minnst 2 lög) 1:40
e. Þakdúkur 1:40
f. Viðsnúin þök 1:40
2. Ef um aðra efnisnotkun er að ræða en tilgreind er í 1. tölul. skal leyfishafi afhenda leyfisveitanda prófun sem seljandi efnisins útvegar frá faggiltri rannsóknarstofu um fullnægjandi vatnsþéttleika efnisins við fyrirhugaðar aðstæður eða frá rannsóknarstofu sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) samþykkir .
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um einföld skýli, s.s. einfaldar óeinangraðar landbúnaðarbyggingar, opin bílskýli eða opnar bílgeymslur þar sem ekki er gerð krafa um fulla regnvörn þaks og ekki er hætta á skemmdum byggingarhluta vegna raka og leka.]1) 1) Rgl. nr. 350/2013, 48. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

10.5.5. gr .Varnir gegn rakaþéttingu

Byggingarhlutar skulu þannig hannaðir og frágengnir að þeir geti ekki orðið fyrir skemmdum vegna uppsafnaðar rakaþéttingar .
Útveggjaklæðningar bygginga skulu loftaðar til að tryggja að raki lokist ekki inni bak við þær og einnig til að tryggja að vatnsdræg klæðningarefni þorni nægjanlega hratt til að draga úr hættu á skemmdum. Loftbil bak við klæðningu skal að lágmarki vera 20 mm og skal loftunin inn í bilið vera nægjanleg og tryggt að meindýr komist ekki bak við klæðninguna .
Milli útveggja úr vatnsdrægum efnum, s.s. timbri, og undirstöðu skal ganga frá rakavörn þannig að rakadrægt efni veggjar dragi ekki upp vatn úr undirstöðu. Rakavörn skal einnig setja milli timburs og steyptra byggingarhluta ef um samtengingu án loftunar er að ræða .
[Þegar einangrun snýr að loftræstu bili skal tryggt að ekki verði uppsöfnun raka í einangrunarefninu .
Jafnframt skal tryggt að lofthreyfing hafi ekki óæskileg áhrif á einangrunargildi byggingarhlutans.]1) Í loftræstum þökum bygginga þar sem hætta er á að rakaþétting verði við efsta yfirborð eða hætta er á að ysta klæðning sé ekki að fullu vatnsheld, skal verja undirliggjandi þakvirki með vatnsþéttu lagi. Undirlagið skal vera með tryggt afrennsli og hvíla á sléttum hallandi fleti .
Gera skal ráðstafanir sem tryggja að raki sem fram kemur vegna leka eða rakaþéttingar innilofts eða byggingarraki lokist ekki inni í þakvirki .
Loftræsa skal öll þök úr timbri eða trjákenndum efnum, nema sýnt sé fram á aðra jafngóða lausn .
Fyrir einföld minni þök á íbúðarhúsum skal loftað loftbil aldrei vera minna en 25 mm yfir allri einangrun og skal loftunarop inn og út úr hverju loftbili vera minnst 1.000 mm² fyrir hvern m² þakflatar nema sýnt sé fram á annan jafngóðan frágang. Fyrir flóknari og stærri þök skal gera sérstaka grein fyrir loftun þakanna .
[Lífrænt byggingarefni, s.s. timbur og klæðningar úr viði, skal ávallt haft í loftræstu rými en ekki lokað inni á milli rakaþéttra laga, nema sýnt sé fram á aðra lausn sem tryggir að ekki verði rakaþétting né uppsöfnun raka.]1) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 53. gr .

10.5.6. gr .Raki í byggingarefni

Efni og byggingarhlutar sem notaðir eru í byggingu skulu vera nægjanlega þurrir við uppsetningu þannig að ekki sé hætta á myglu eða sveppamyndun, niðurbroti lífrænna efna eða aukinni efnaútgufun .
Verja skal rakadrægt byggingarefni þannig að úrkoma geti ekki valdi skemmdum á því .

10.5.7. gr .Votrými

Votrými bygginga skulu þannig hönnuð og frágengin að ekki komi fram skemmdir á byggingu, einstökum byggingarhlutum eða byggingarefnum vegna notkunar vatns í votrýmunum, leka eða rakaþéttingar .
Eftirfarandi kröfur skulu ávallt uppfylltar við gerð votrýma:
a. Niðurfall skal vera í öllum votrýmum og nægjanlegur halli á gólfi að niðurfalli. Í öðrum rýmum þar sem búast má við vatnsleka skal almennt vera niðurfall og gólf halla að niðurfalli .
b. Vatnsþétt lag skal vera á gólfum og veggjum votrýma og skal það þétt á fullnægjandi hátt með rörum og stokkum. Nota skal efni og útfærslur sem draga úr myndun myglu og myndun sveppa .
c. Þar sem kranar, vaskur, uppþvottavél eða önnur tæki sem leiða til vatnsnotkunar eru í rými þar sem ekki er vatnsþétt gólf og niðurfall, t.d. í eldhúsi, skal vera yfirfall á vöskum og lekavörn eða annar búnaður sem lokar fyrir aðstreymi vatns við leka á tækjum. Slík rými skulu vera þannig frágengin að leki sem fram kann að koma verði sýnilegur .
d. Veggur með innbyggðum vatnsgeymi, t.d. við salerni, skal vera þannig frágenginn að leki sem fram kann að koma verði sýnilegur. Þar sem innbyggður vatnsgeymir er í herbergi sem ekki er votrými með gólfniðurfalli, skal vera sjálfvirkur búnaður sem lokar fyrir aðstreymi vatns ef tankurinn lekur .
Ganga skal þannig frá lögnum, vatnsgeymum o.þ.h. í byggingum með fullnægjandi einangrun og rakavörn þannig að þar sé ekki hætta á rakaþéttingu .

10.6. KAFLI. Mengun vegna byggingarefna

10.6.1. gr .Markmið

Ekki er heimilt að nota byggingarefni sem gefa frá sér gas, gufur eða efnisagnir eða eru geislavirk, sem geta haft áhrif á heilsu fólks og/eða dýra eða valdið óþægindum .

10.6.2. gr .Kröfur

Byggingarefni til klæðningar, t.d. úr trjákenndum efnum, sem innihalda lím eða önnur efni sem geta gefið frá sé efnið „formaldehyd“ er ekki heimilt að nota í byggingar nema sýnt sé fram á að efnin séu innan viðurkenndra marka .
Þar sem steinull eða glerull er notuð innan byggingar skal tryggja að yfirborð ullarinnar sé varið eða ullin höfð innan lokaðs byggingarhluta þannig að ryk eða nálar úr ullinni eigi ekki greiða leið út í andrúmsloftið .

10.7. KAFLI. Þrif mannvirkja og meindýr

10.7.1. gr .Markmið

Frágangur og efnisval í mannvirki skal miðast við að eðlileg þrif þess geti verið í samræmi við notkun þess .
Allur frágangur bygginga skal vera þannig að hvorki fuglar né meindýr, s.s. rottur og mýs, komist inn í bygginguna eða einstaka byggingarhluta .

10.7.2. gr .Kröfur

Tryggja skal gæði innilofts í mannvirki og eðlilega hollustuhætti áður en það er tekið í notkun. Fjarlæga skal alla mengandi efnisafganga og rykbinda eða hylja mengandi fleti áður en mannvirkið er tekið í notkun .
Jafnframt skulu viðeigandi þrif hafa farið fram og vera í samræmi við notkun mannvirkisins .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.