8.1. KAFLI. Markmið og almennar kröfur

Aftur í: 8. HLUTI. BURÐARÞOL OG STÖÐUGLEIKI

8.1.1. gr .Markmið

Hús og önnur mannvirki skulu ávallt gerð úr haldgóðum byggingarefnum, þola íslenskt veðurfar og þá áraun sem ætla má að þau verði fyrir. Burðarvirki mannvirkis skal vera fullnægjandi að gerð, þannig að mannvirkið sjálft eða einstakir berandi hlutar þess hvorki sígi óeðlilega né hrynji og komið sé í veg fyrir að formbreytingar verði umfram heimil mörk .
Tryggja skal fullnægjandi stöðugleika allra þátta mannvirkja á byggingartíma og koma skal í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif á mannvirki af völdum veðurs. Steypumót, vinnupallar, stoðir, afstífingar o.s.frv., skulu því ávallt hafa fullnægjandi styrk .

8.1.2. gr .Stöðvun framkvæmda

Ef forsendur er varða burðarþol mannvirkja breytast á byggingartíma, t.d. vegna frosta, vatnsaga, jarðskjálfta, eldsvoða eða annarra ófyrirséðra atvika, skulu byggingarframkvæmdir stöðvaðar. Skulu framkvæmdir eigi hafnar að nýju fyrr en leyfisveitandi heimilar, þá að undangenginni rannsókn og fullnægjandi úrbótum í samræmi við eðli málsins .

8.1.3. gr .Breyting á þegar byggðu mannvirki eða breytt notkun

Við lagfæringu á burðarvirki, breytingu á þegar byggðu mannvirki, viðbyggingu við það eða við breytta notkun þess skal burðarvirkishönnuður staðfesta með undirritun á aðaluppdrátt að burðarþol mannvirkisins sé fullnægjandi. Slík staðfesting skal fela í sér eftirfarandi:
a. Við breytta notkun mannvirkis skal burðarvirkishönnuður staðfesta að burðarþol þess fullnægi öllum þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols vegna hinnar nýju notkunar skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til .
b. Sé minniháttar breyting gerð á þáttum er varða burðarvirki í þegar byggðu mannvirki, þ.e. þegar breyting varðar ekki meginburðarvirki, skal burðarvirkishönnuður staðfesta að burðarþolið eftir breytinguna sé fullnægjandi miðað við kröfur sem giltu þegar mannvirkið var reist og að breytingin hafi ekki leitt til þess að burðarþol mannvirkisins eða einstakra hluta þess sé skert .
c. Séu gerðar breytingar eða lagfæringar á þáttum er varða burðarvirki í þegar byggðu mannvirki, þ.e .
aðrar en þær sem falla undir b-lið, skal burðarvirkið sem breytt er eða lagfært fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til .
d. Sé byggt við mannvirki, hluti þess eða heild endurnýjuð eða burðarvirki breytt ber hönnuði að staðfesta að burðarvirki hinnar nýju, breyttu eða endurnýjuðu þátta fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru til burðarþols vegna þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er í mannvirkinu skv. ákvæðum laga um mannvirki, þessarar reglugerðar og þeirra staðla sem hún vísar til. Jafnframt skal staðfest að breytingin hafi ekki leitt til skerðingar á burðarþoli annarra þátta mannvirkisins .

8.1.4. gr .Undirstöður

Undirstöður mannvirkja skulu standa á föstum burðarhæfum botni, klöpp eða burðarhæfum og frostþolnum jarðvegi. Þær skulu þannig hannaðar og byggðar að ekki geti orðið tjón af völdum hreyfinga í jarðvegi, t.d. vegna sigs eða frostlyftinga. Á jarðskjálftasvæðum skal sérstaklega tekið tillit til þeirra skjálftahreyfinga sem verða í jarðvegi af völdum jarðskjálfta .
Liggi ekki fyrir staðfesting á því að jarðvegur sé frostþolinn skulu undirstöður mannvirkis ná niður á frostfrítt dýpi, þ.e. 1,2 - 2,0 m niður fyrir endanlegt jarðvegsyfirborð við útveggi .
Ef undirstöður mannvirkja eiga að hvíla á fyllingu skal byggingarstjóri leggja fram fullnægjandi gögn frá faggiltri rannsóknarstofu á viðkomandi sviði eða rannsóknarstofu sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) viðurkennir um burðarþolsprófun fyllingarinnar sem staðfestir að fyllingin þoli þá áraun sem henni er ætlað að þola .
Undirstöður mannvirkja skulu vera úr varanlegu efni og skal breidd þeirra valin í samræmi við burðarþol jarðvegs og það álag sem þær eiga að bera. Þær skulu þola þá veðrun og/eða hrörnum sem gera má ráð fyrir að þær verði fyrir á endingartíma mannvirkis .
Þar sem annað efni en steinsteypa er notað í undirstöður mannvirkja eða þar sem breidd undirstöðu er minni en 200 mm skal hönnuður ávallt rökstyðja á uppdrætti fullnægjandi styrk og endingu undirstaða .
Undirstöður mannvirkja skulu ganga minnst 300 mm undir neðri brún botnplötu eða 300 mm undir yfirborð frágengins jarðvegs og skal sá kostur valinn sem gefur dýpri undirstöðu .
Á uppdrætti af undirstöðum skal hönnuður rita hvert sé nafnálag á undirstöðujarðveg. Við mat á nafnálagi skal þess gætt að burðarminni jarðvegur liggi ekki dýpra .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

8.1.5. gr .Jarðtæknileg rannsókn

Leyfisveitandi getur ávallt krafist þess að gerð verði sérstök jarðtæknileg rannsókn af hálfu viðurkennds aðila á sigeiginleikum og styrkleika jarðvegs .
Ef byggt er upp að mannvirki skal þess gætt að undirstöður þess raskist ekki og skal leyfisveitandi krefjast þess að gerð sé jarðtæknileg rannsókn sem og sérstakar ráðstafanir ef niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á að þeirra sé þörf .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.