Aftur í: 2.8. KAFLI Leyfisveitandi
Leyfisveitandi hefur eftirlit með því að hönnun mannvirkis sé í samræmi við ákvæði laga um mannvirki og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og að byggt sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn og lög og reglugerðir sem um mannvirkjagerðina gilda .
[Leyfisveitandi annast öryggis- og lokaúttektir og eftir atvikum áfangaúttektir í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og gefur út viðeigandi vottorð á grundvelli niðurstöðu skoðunarstofu eða eigin skoðunar. Hann hefur eftirlit með að úttektir sem skoðunarstofur annast fari fram og beitir þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt eða vanrækt er að láta lögbundna úttekt fara fram.
Leyfisveitandi gerir stöðuskoðun á verki skv. 3.7.3. gr. og hefur þannig eftirlit með því að byggingarstjóri framkvæmi áfangaúttektir samkvæmt skoðunarhandbókum eða að úttektir sem skoðunarstofur annast fari fram. Leyfisveitandi getur ákveðið að annast sjálfur áfangaúttektir eða að skoðunarstofa annist áfangaúttektir sbr. 3. mgr. 3.7.1. gr. Leyfisveitandi beitir þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar ef fyrirmælum um úrbætur er ekki sinnt eða vanrækt er að láta lögbundna úttekt fara fram.]1)
Leyfisveitandi gefur út vottorð um eftirfarandi úttektir, eftir atvikum á grundvelli skoðunarskýrslu skoðunarstofu eða eigin skoðunar:
a. Öryggisúttekt .
b. Lokaúttekt .
c. Úttekt við lok niðurrifs mannvirkis .
Leyfisveitandi skal sjá um að hönnunargögn, eftirlitsskýrslur, gátlistar, úttektarvottorð og öll önnur gögn sem ákvarðanir hans eru byggðar á séu færð í gagnasafn [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) .
1) Rgl. nr. 1278/2018 6. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.