3.3. KAFLI Faggiltar skoðunarstofur

Aftur í: 3. HLUTI FAGGILDING, EFTIRLIT OG ÚTTEKTIR

3.3.1. gr .Eftirlit skoðunarstofu

[Sveitarstjórn og [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]3) er heimilt að ákveða að skoðunarstofa annist yfirferð hönnunargagna og framkvæmd áfanga-, öryggis- og lokaúttekta. Slík skoðunarstofa skal hafa starfsleyfi [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3)]2) [Auglýsa skal ákvarðanir skv. þessari málsgrein á vefsíðu [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]3) og viðkomandi byggingarfulltrúaembættis.]1) Beiting réttar- og þvingunarúrræða skal […]1) ávallt vera í höndum leyfisveitanda í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar .
Sé hönnun mannvirkis sérstaklega vandasöm getur leyfisveitandi við meðferð byggingarleyfisumsóknar ákveðið að faggilt skoðunarstofa annist yfirferð hönnunargagna og úttektir vegna viðkomandi framkvæmdar í heild eða að hluta. [Hönnun telst sérstaklega vandasöm ef mannvirki fellur undir flokk CC3 samkvæmt töflu B1 í þjóðarviðauka við ÍST EN 1990:2002/NA:2011.] 1)
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Rgl. nr. 1278/2018. 9. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

3.3.2. gr .Greiðsla kostnaðar

Ákveði sveitarstjórn, byggingarfulltrúi eða [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) að skoðunarstofa annist eftirlit skal eigandi mannvirkisins ráða slíka skoðunarstofu til verksins og greiða kostnað við eftirlitið. Byggingarfulltrúa og [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) er í slíkum tilvikum einungis heimilt að taka gjald sem nemur kostnaði við þá þætti eftirlitsins sem þau annast.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

3.3.3. gr .Hlutverk leyfisveitanda vegna starfa skoðunarstofu

Hafi skoðunarstofa farið yfir hönnunargögn eða annast úttekt takmarkast yfirferð leyfisveitanda við framlagða skoðunarskýrslu. Sama gildir ef skoðunarstofa annast aðra þætti byggingareftirlits. [Áður en skoðunarstofa framkvæmir öryggis- eða lokaúttekt vegna tiltekins mannvirkis skal liggja fyrir heimild leyfisveitanda til framkvæmdar úttektarinnar.]1) Viðkomandi byggingarfulltrúi eða [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) getur […]1) tekið til athugunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hvort eftirlit skoðunarstofu samræmist lögum og skilyrðum í starfsleyfi hennar. [Verði byggingarfulltrúi þess var að eftirliti skoðunarstofu sé áfátt]1) skal hann tilkynna það [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) án tafar .
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

3.3.4. gr .Starfsleyfi skoðunarstofu

Skoðunarstofur skulu faggiltar og fer um faggildingu samkvæmt lögum nr. 24/2006 um faggildingu o.fl .
Gæðastjórnunarkerfi og starfsaðferðir, hæfi og hæfni skoðunarstofa vegna yfirferðar hönnunargagna og úttekta skal fullnægja kröfum faggildingaraðila og ákvæðum laga um mannvirki og þessarar reglugerðar .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]2) gefur út starfsleyfi til rekstrar skoðunarstofu[…]1). Starfsleyfi skal gefið út til tiltekins tíma, mest til fimm ára í senn. Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis er að skoðunarstofa hafi hlotið faggildingu, skoðunarmenn hennar uppfylli kröfur skv. 3.4. kafla og tæknilegur stjórnandi uppfylli að lágmarki skilyrði sem skoðunarmaður vegna allra þeirra starfa sem skoðunarstofan hefur hlotið faggildingu til. Í starfsleyfi skal tilgreina þá þætti eftirlits sem skoðunarstofu er heimilt að taka að sér .
1) Rgl. nr. 722/2017, 2. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

3.3.5. gr .Svipting starfsleyfis

[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) getur svipt skoðunarstofu starfsleyfi ef hún uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Sama á við ef skoðunarstofa hlítir ekki fyrirmælum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1), vanrækir hlutverk sitt og skyldur eða sýnir af sér ítrekaða óvarkárni í starfi. Starfsleyfi fellur sjálfkrafa niður verði skoðunarstofa svipt faggildingu sinni .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.