9.6. KAFLI. Varnir gegn útbreiðslu elds og reyks

Aftur í: 9. HLUTI. VARNIR GEGN ELDSVOÐA

9.6.1. gr .Markmið

Mannvirki, innréttingar þeirra og lagnakerfi skulu þannig hönnuð og byggð að eldhætta sé takmörkuð eins og kostur er. Gæta skal þess að yfirborðshiti brennanlegra byggingarefna verði ekki það hár að í þeim kvikni við almenna notkun .

9.6.2. gr .Ketilkerfi og olíu- og rafhitun

Hitakerfi í mannvirkjum skal þannig hannað að það valdi ekki hættu á sprengingu eða bruna. Tryggja skal að reykur og gufur vegna hitakerfa valdi ekki hættu og einnig skal tryggja með hitastillibúnaði og öryggisbúnaði að rekstrarhiti og rekstrarþrýstingur ketilkerfis verði ekki það hár að hætta sé á sprengingu eða bruna .

9.6.3. gr .Kyndiklefar

Meginreglur: Kyndiklefar í mannvirkjum skulu þannig byggðir og staðsettir að þeir valdi ekki hættu á íkviknun og rýming frá klefunum sé örugg. Tryggja skal næga loftræsingu og að ekki sé eld-, sprengi- eða eitrunarhætta í kyndiklefum. Tryggja skal fullnægjandi aðkomu til viðgerða og hreinsunar. Við kyndiklefa skal vera handslökkvitæki af viðurkenndri gerð. Kyndiklefi skal aðgengilegur utan frá .
Viðmiðunarreglur: Hitakatlar skulu vera í sérstökum kyndiklefa minnst EI 60 með klæðningum í flokki 1. Í öðrum húsum en sérbýlishúsum þar sem innangengt er í kyndiklefa skulu hurðir vera [EI2 60-CS200])1) A2- s1,d0 og opnast inn í klefann. Á klefanum skulu þá einnig vera útidyr sem opnast út. Kyndiklefar skulu vera við útvegg með opnanlegum glugga og ólokanlegri útiloftrist til þess að tryggja nægilegt ferskt loftstreymi vegna hitamyndunar og bruna í kynditæki. Þar skal vera niðurfall og skolkrani.
1) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.4. gr .Olíugeymar og olíuskiljur

Olíugeymar skulu vera úr endingargóðum efnum og þannig frágengnir að ekki sé hætta á slysum eða olíumengun. Olíugeyma skal staðsetja þannig að ekki sé hætta á að eldur geti borist í þá frá mannvirkjum eða vegna starfsemi eða geymslu brennanlegra efna á lóð. Á milli olíugeymis og kynditækis skal vera öryggisloki sem lokar fyrir olíurennsli við eldsvoða eða óheft rennsli. Olíuskiljur skulu staðsettar þannig að eldur geti ekki borist í þær frá mannvirkjum eða starfsemi á lóð og að útloftun frá þeim valdi ekki hættu .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um frágang og staðsetningu olíugeyma og olíuskilja að höfðu samráði við Umhverfisstofnun .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

9.6.5. gr .Eldstæði

Opin og lokuð föst eldstæði í mannvirkjum fyrir fast eldsneyti, fljótandi eða á gasformi og allur búnaður þeim tengdur skal þannig gerður og frágenginn að hægt sé að kynda með honum á öruggan hátt og að notkun hans, hreinsun og viðhald hafi ekki í för með sér eld-, sprengi- eða eitrunarhættu, né heilsuspillandi áhrif vegna reyks. Eftir föngum skal hitaeinangra þá fleti á eldstæðum sem ætla má að hætta geti stafað af ef þeir eru snertir. Öll eldstæði skal tengja við reykháf. Eldstæðum skal tryggt nægjanlegt aðstreymi fersks lofts vegna bruna .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

9.6.6. gr .Reykháfar

Meginreglur: Reykháfar bygginga skulu vera úr óbrennanlegum efnum, vörðum gegn tæringu og skal stærð þeirra miðast við að bruni í eldstæði verði eðlilegur, virkni fullnægjandi og reykhiti verði innan eðlilegra marka. Staðsetning og frágangur skal vera með þeim hætti að ekki sé hætta á að það kvikni í aðliggjandi byggingarhlutum. Yfirborð reykháfs skal vera aðgengilegt til eftirlits og viðgerða og skal lengdarþensla vera óhindruð. Þverskurðarflatarmál skal vera óbreytt frá botni til topps. Reykháfar skulu aðgengilegir til hreinsunar. Þéttleika samsettra reykháfa skal staðfesta með þrýstiprófun. Reykháfar skulu ná flokkun G samkvæmt ÍST EN 13501-2 .
Viðmiðunarreglur: Óaðgengilegir reykháfar skulu þannig gerðir að yfirborðshiti á úthlið þeirra eða brennanlegra byggingarefna verði ekki hærri en 80°C. Aðgengilega og snertanlega reykháfa skal hitaeinangra til varnar húðbruna þannig að hitastig verði ekki hærra en 60°C. Allir reykháfar skulu búnir stillanlegu súgspjaldi og sótlúgu. Reykháfar skulu gerðir í samræmi við ÍST EN 1443, ÍST EN 15287-1 eða ÍST EN 15287-2. Þversnið reykops skal ákvarða eftir ÍST EN 13384-1, 13384-2 og 13384-3 .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um reykháfa og hreinsun þeirra .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

9.6.7. gr .Sorpgeymslur

Meginreglur: Sorpgeymslur skulu ekki valda aukinni brunahættu í byggingum .
Viðmiðunarreglur: Sorpgeymslur skulu vera sérstakt brunahólf, minnst EI 60 .

9.6.8. gr .Veggir, loft og fastar innréttingar

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um byggingarefni í veggi, loft og fastar innréttingar:
1. Kröfur til yfirborðsflokkunar byggingarefna skulu taka mið af þeirri hættu sem þau geta skapað vegna reykmyndunar og útbreiðslu elds .
2. Byggingarefni skulu hafa þá brunaeiginleika að erfitt sé að kveikja í þeim, þau breiði hægt út eld og myndi takmarkaðan hita og reyk við bruna. Þau skulu ekki formbreytast við takmarkaðan bruna, falla niður eða á annan hátt auka hættu fyrir fólk eða dýr .
3. Í flóttaleiðum bygginga skulu byggingarefni aðeins hafa mjög takmörkuð áhrif á brunahættu .
4. Vegg- og loftfletir ofan við niðurhengd loft skulu vera skv. kröfum sem gilda fyrir viðkomandi rými .
Allir brunahólfandi veggir skulu ná upp í gegnum slík loft að yfirliggjandi hæðaskilum eða þaki .
5. Byggingarefni sem ekki nær að uppfylla kröfur til flokks D-s2,d0 má ekki nota óvarið í byggingar og skal það varið með klæðningu í flokki 1 .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um byggingarefni í veggi, loft og fastar innréttingar:
1. Loft- og veggklæðningar innanhúss skulu vera í flokki 1, K210 B-s1,d0. Nota má klæðningu í flokki 2 í allt að tveggja hæða húsum í notkunarflokki 3. Veggklæðningar mega jafnframt vera í flokki 2 í mannvirkjum í notkunarflokki 1, minni en 200 m², og í sölum, minni en 100 m², í mannvirkjum í notkunarflokki 2 .
2. Bílgeymslur við íbúðarhús í notkunarflokki 3 skulu vera með loft- og veggklæðningum í flokki 1 .
3. Niðurhengd loft og upphengikerfi skulu vera úr efnum sem uppfylla kröfu um B-s1,d0 .
4. Hljóðeinangrunarbúnaður sem hengdur er neðan á loft skal vera úr efnum sem uppfylla kröfu um Bs1, d0 .
5. Sé hætta á að hitastig byggingarefna fari yfir 80°C skal að lágmarki nota efni í flokki A2-s1,d0 .
6. Óheimilt er að nota sem fasta loft- eða veggskreytingu byggingarefni sem ekki uppfylla kröfu um D-s2,d0 .

9.6.9. gr .Gólfefni

Meginreglur: Gólfefni í byggingum skulu hafa mjög takmörkuð áhrif á brunahættu. Gólfefni í stigahúsum 3 skulu vera í flokki A1fl. Gólfefni í rýmum með mikla eldhættu, í kyndiklefum og annars staðar þar sem unnið er með eldfim efni skulu vera í flokki A1fl og þannig gerð að ekki sé hætta á neistamyndun, t.d. vegna stöðurafmagns .
Viðmiðunarreglur: Gólfefni skal vera í flokki Dfl-s1. Gólfefni í stigahúsum 1 og 2 í notkunarflokki 3 skulu vera í flokki Cfl-s1 .

9.6.10. gr .Brunaeiginleikar einangrunar

Meginreglur: [...]2) Einangrunarefni húsa og tæknibúnaðar skal vera óbrennanlegt nema í eftirtöldum rýmum eða með eftirfarandi undantekningum:
a. Undir steyptum gólfplötum á fyllingu .
b. Í útveggjum á undirlagi úr steinsteypu eða öðru jafngóðu óbrennanlegu efni þar sem einangrunin er klædd af með klæðningu í flokki 1 sem liggur þétt að einangruninni. Ekkert holrúm má vera í slíkum vegg .
c. [Nota má stálklæddar húseiningar sem uppfylla ákvæði ÍST EN 14509 með brennanlegri einangrun í þök og veggi í allt að tveggja hæða hús í notkunarflokkum 1 og 2 þar sem rökstutt er að slíkt sé talið hættulítið.]2) Slíkar einingar skulu uppfylla að lágmarki flokk C-s2,d0 og mega ekki vera með einangrun sem bráðnar við hita .
d. Nota má brennanlega einangrun ofan á steypta þakplötu utanhúss enda komi þakklæðning í flokki B(roof) (t2) ofan á einangrunina. Brennanlega einangrun má ekki nota í léttbyggð þök eða veggi eða óvarða ofan á steypta loftplötu að þakrými .
[e. Röraeinangrun í byggingum skal ekki auka brunahættu í mannvirkjum, sbr. 9.1.1. gr. um meginmarkmið 9. hluta. Þar sem ekki verður við komið að nota óbrennanlega einangrun skal miða við viðmiðunarreglur eða greiningu á áhættu í brunahönnun.]2)
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunaeiginleika einangrunar:
1. Röraeinangrun skal vera úr óbrennanlegum efnum, A2L-s1,d0. Yfir niðurhengdum loftum í byggingum skal nota röraeinangrun í flokki BL-s1,d0 .
2. Ef einungis er um að ræða röraeinangrun með litlu yfirborði, sem hefur ekki teljandi áhrif á brunahættu í rýminu, má nota röraeinangrun sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:
a. BL-s1,d0 þegar yfirborð í næsta nágrenni uppfyllir kröfuna B-s1,d0 (klæðning í flokki 1) .
b. DL-s2,d0 þegar yfirborð í næsta nágrenni uppfyllir kröfuna D-s2,d0 (klæðning í flokki 2) .
3. Röraeinangrun sem nær ekki flokki DL-s2,d0 má ekki nota óvarða í byggingum og skal hún varin með klæðningu í flokki 1 eða 2 eftir aðstæðum .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 42. gr.

9.6.11. gr .Brunahólfun

Meginreglur: Byggingum skal skipt í brunahólf þannig að flóttaleiðir séu tryggðar og útbreiðsla elds sé takmörkuð. Brunahólf í byggingum skulu uppfylla viðeigandi kröfur um einangrun og heilleika. Þegar lagnir liggja í gegnum brunahólf skal tryggja að brunamótstaða þéttingar sé að lágmarki jöfn brunamótstöðu brunahólfsins. Heimilt er að nota brunaöryggiskerfi í staðinn fyrir brunahólfun þar sem brunhönnun sýnir að slíkt sé ásættanlegt. Gera skal ráðstafanir til að eldur geti ekki borist meðfram brunahólfandi veggjum. Þar sem brunahólfandi veggur gengur að útvegg eða þaki skal brunahólfun ávallt ná út að ystu vegg- og þakklæðningum eða út í gegnum þær. Byggingum skal skipta þannig að rými með mikilli brunaáhættu og/eða miklu brunaálagi myndi aðskilin brunahólf.
Viðmiðunarreglur: Rými bygginga þar sem unnið er með eld eða eldfimar vörur skulu vera sjálfstæð brunahólf. Sé ekki annað tekið fram skal brunamótstaða brunahólfs eigi vera lakari en 60 mínútur hvað varðar heilleika og einangrun, þ.e. EI 60. Eitt brunahólf má að jafnaði ekki ná til fleiri en tveggja hæða nema í stigahúsum, sérbýlishúsum í notkunarflokki 3 og opnum bílgeymsluhúsum og ekki fleiri en þriggja hæða í verslunum í notkunarflokki 2 nema fyrir liggi brunahönnun. Meginbrunahólfun bygginga skal hafa brunamótstöðu í samræmi við töflu 9.06 .
Tafla 9.06 Lágmarksmótstaða meginbrunahólfunar.

Hæð bygginga Brunamótstaða eftir brunaálagi (MJ/m²)
< 800 > 800 og < 1.600 > 1.600
Þrjár hæðir eða fleiri EI 90 EI 120 EI 180
Ein til tvær hæðir EI 90 EI 90 EI 120
Í byggingum með sjálfvirku [vatnsúðakerfi]2) má í brunahönnun lækka brunahólfun um einn flokk .

[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 3. gr.

9.6.12. gr .Brunahólfun stærri bygginga

Meginreglur: Stærri byggingar skulu hólfaðar niður í brunahólf til að tryggja flóttaleiðir og koma í veg fyrir útbreiðslu elds. Hámarksstærð brunahólfa ræðst af brunaálagi og brunavörnum byggingar og möguleika slökkviliðs til björgunar og slökkvistarfa.
Viðmiðunarreglur: Hámarksstærð meginbrunahólfa skal ekki vera meiri en er tilgreint í töflu 9.07. Stærð bygginga í töflunni tekur til samanlagðs flatarmáls allra hæða sem eru í brunahólfinu.
Tafla 9.07 Hámarksstærð meginbrunahólfa í byggingum.

Varnir Hámarksstærð eftir brunaálagi  
< 800 MJ/m² > 800 MJ/m²
Reyklosun og sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi 2.000 m² 1.000 m²
Reyklosun, sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi og sjálfvirkt vatnsúðakerfi 10.000 m² 5.000 m²
Brunahönnun og áhættugreining Ekkert hámark Ekkert hámark

9.6.13. gr .Brunamótstaða hurða, hlera og glugga

Meginreglur: Hurðir og hlerar í brunahólfandi skilum bygginga skulu þannig útfærðir að þeir auki ekki líkur á útbreiðslu elds og reyks. Taka skal tillit til öryggis fólks og dýra við ákvörðun á kröfum til brunahólfandi skila. Sjálflokandi hurðum bygginga má halda í opinni stöðu með segulgripum ef þau eru tengd sjálfvirku eða sjálfstæðu brunaviðvörunarkerfi með reykskynjurum. Lyftur skulu þannig hannaðar og frá þeim gengið að þær rýri hvorki brunahólfun byggingar né stuðli að útbreiðslu elds og reyks við bruna .
Viðmiðunarreglur: Brunamótstaða brunahólfandi hurða, hlera og glugga í byggingum skal vera sú sama og byggingarhlutans sem þeir eru í. Taka má tillit til brunaálags t.d. vegna brunahólfunar að göngum og rýmum með lágu brunaálagi með tækniskiptum eða rökstuðningi í brunahönnun. Í byggingum með [vatnsúðakerfi]2) eða þar sem brunaálag er lægra en 200 MJ/m² má nota hurðir og hlera með minni brunamótstöðu og án einangrunar en brunamótstaðan skal þó ekki lækka um meira en 30 mínútur og aldrei vera minni en [E 30- S200]3). Hurðir að stigahúsum bygginga skulu vera reykþéttar í flokki [S200]3). Hurðir í og sem liggja að flóttaleiðum skulu vera sjálflokandi nema hurðir sem almennt eru læstar, s.s. að tækjaklefum og vélarrými lyftu .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 33. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.14. gr .Brunavarnir í loftræsikerfum

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um brunavarnir í loftræsikerfum:
1. Loftræsikerfi skal þannig hannað og frá því gengið að það rýri hvorki brunahólfun byggingar né stuðli að útbreiðslu elds og reyks við bruna .
[...]3)
2. Loftblásarar sem eru hluti brunavarna mannvirkja skulu þola þann hita sem þeir verða fyrir á brunatímanum .
3. Bruna- og reyklokur í loftræsikerfum skulu vera með bilunarviðvörun og skulu lokast sjálfvirkt innan þess tíma sem nauðsynlegur er til að þær uppfylli kröfur 1. tölul. Hafa skal gaumlúgu við allar lokur .
4. Allar brunavarnir loftræsikerfa skulu búnar varaafli sem heldur þeim virkum hvort sem straumrof orsakast af bruna eða öðrum orsökum .
5. Þegar loftræsikerfi er brunatæknilega hannað, t.d. með blásurum í gangi eða þrýstingsjöfnun, skal sýna fram á með útreikningum að markmið 1. tölul. séu uppfyllt. Taka skal tillit til aukins hita og þrýstings vegna elds .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunavarnir í loftræsikerfum:
1. Heimilt er að beita þeim ákvæðum staðalsins DS 428 eða annarra staðla sem [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) samþykkir og samrýmast meginreglum þessarar greinar. [
2. Í loftrásum skal vera óbrennanlegt efni, A2-s1,d0. Sú krafa gildir ekki fyrir eftir­farandi liði:
a. loftsíur, reimar, taudreifara, raflagnir o.þ.h.,
b. innsteyptar loftrásir úr plastefnum sem uppfylla brunaflokk B2, enda liggja loft­rásirnar innan sama brunahólfs og sýnt fram á að slíkt valdi ekki aukinni eldhættu,
c. stokkar í útsogum sérbýlishúsa mega vera í flokki E nema útsog frá eldhúsum sem skal vera EI 30 A2-s1,d0.
3. Loftrásir, ætlaðar til að flytja eim frá veitingastöðum eða öðrum byggingum með starf­semi þar sem steiking matvæla eða sambærileg matseld fer fram, skulu vera með bruna­tæknilega viðurkenndum samsetningum og ganga órofnar út. Þær skulu vera EI 30 B-s1,d0 og þannig gerðar að auðvelt sé að hreinsa þær. Þær skulu hafa viðeigandi eldvarn­ar­búnað og fitugildrur.]3)
4. Innan lagnastokks skal loftræsistokkur einangraður EI 30 frá brennanlegum rörum og rafköplum .
5. Loftræsiherbergi í byggingum skal vera brunahólf EI 60 með [EI2 30-S200]2) hurðum .
6. Fyrir notkunarflokka 3, 4, 5 og 6 sem og flóttaleiðir og örugg svæði skal miða við að reykur sé mest 1% af rúmmáli þess rýmis sem reykurinn breiðist út til. Fyrir notkunarflokka 1 og 2 skal miða við að reykur sé mest 5% af rúmmáli þess rýmis sem reykurinn breiðist út til .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 43. gr.

9.6.15. gr .Þakrými

Meginreglur: Þakrými skal þannig frágengið að eldur nái ekki að breiðast út um bygginguna um þakrýmið. Þakrými sem er samfellt yfir fleiri en eitt brunahólf skal vera sjálfstætt brunahólf .
Viðmiðunarreglur: Brunamótstaða veggja og lofta næst ónotuðu þakrými bygginga skal minnst vera EI 30. Ónotuðu þakrými skal skipta í brunahólf EI 60, ekki stærra en 500 m² hvert .

9.6.16. gr .Vörn gegn útbreiðslu elds frá lægra liggjandi þaki

Meginreglur: Vörn skal vera gegn útbreiðslu elds frá lægra liggjandi þaki byggingar ef krafa er um brunatæknilegan aðskilnað milli brunahólfa .
Viðmiðunarreglur: Þegar mismunandi háar byggingar eru sambyggðar skal þak lægri byggingarinnar vera a.m.k. REI 60 á 6,0 m breiðu bili við þá hærri, mælt lárétt frá henni, nema eldvarnarveggur sé fyrir ofan lægri bygginguna, og að lágmarki 3,0 m til hvorrar hliðar .

9.6.17. gr .Kröfur vegna svalaskýla

Meginreglur: Eftirfarandi meginreglur gilda um brunavarnir vegna svalaskýla:
1. Þar sem sett er upp svalaskýli má það ekki rýra gildi svalanna sem flóttaleiðar eða rýra brunahólfun byggingar. Brunahólfandi skil milli tveggja svalaskýla skulu vera með þeim hætti að brunahólfun sé ekki skert .
2. Þegar svölum er lokað með einföldum glerskífum sem unnt er að opna að lágmarki 85% á einfaldan hátt er ekki krafist sérstakra ráðstafana vegna eldvarna enda sé búnaðurinn samþykktur af [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) .
3. Í opnanlega glugga á svalaskýli með föstum byggingarhluta skal nota hert öryggisgler (perlugler) .
4. Slökkviliðsstjóri getur gert auknar kröfur um björgunarsvæði eða aðrar ráðstafanir til björgunar vegna uppsetningar svalaskýla .
Viðmiðunarreglur: Þegar svölum er lokað með föstum byggingarhluta með opnanlegum gluggum gilda eftirfarandi viðmiðunarreglur:
1. Í fjölbýlishúsi þar sem setja á svalaskýli skulu hurðir íbúða að stigahúsi vera [EI2 30-CS200]2), eða [EI2 60-CS200]2) þar sem þess er krafist og að kjallara .
2. Milli svalaskýlis og íbúðar skal vera reykþéttur byggingarhluti (útveggur) og er óheimilt að fjarlægja hann eða opna á annan hátt á milli íbúðar og svalaskýlis .
3. Opnanlegir gluggar á svalaskýlum skulu vera rennigluggar eða hliðarhengdir gluggar og skal stærð þeirra vera ákvörðuð þannig að svalaskýlið rýri ekki gildi svalanna sem flóttaleiðar úr bruna .
Samanlögð stærð opnanlegu glugganna skal að lágmarki vera 2,0 m² og minnsta kantmál ops 1,0 m. Hæð upp í neðri brún ops skal uppfylla ákvæði um hæð handriða á veggsvölum. Opnunarbúnaður skal vera samþykktur af [Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) .
4. Breytingum sem gera þarf á byggingu vegna brunavarna skal vera lokið áður en hafist er handa við byggingu svalaskýlis .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.18. gr .Sérákvæði um brunavarnir í notkunarflokki 1

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunahólfun í notkunarflokki 1:
1. Stærð brunahólfa í skrifstofuhúsnæði má ekki vera meiri en 500 m² sé hús meira en ein hæð, en 1.000 m² í einnar hæðar húsi. Sé sett upp sjálfvirkt brunaviðvörunarkerfi má tvöfalda hámarksstærðir rýma .
2. Kjallara í mannvirkjum í notkunarflokki 1 skal aðskilja frá efri hæðum með REI 60 byggingarhlutum og [EI 60-CS200]3) hurðum .
3. Í mannvirkjum sem eru fjórar hæðir eða lægri í notkunarflokki 1, öðrum en skólum, er heimilt að hafa dyr beint úr stigahúsi 1 inn í skrifstofur. Hurðir skulu vera [EI2 30-CS200]3) en [EI2 60-CS200]3) að kjallara og þakrými .
4. Bílgeymslur skulu vera sjálfstæð brunahólf EI 90. Tengsl milli bílgeymslu og [flótta­leiða]4) skal vera um brunastúku. Hurð bílgeymslumegin skal vera [EI2 60-CS200]3), A2-s1,d0 en [EI2 30-CS200]3) að öðru brunahólfi .
5. Ganga má í lyftu úr bílgeymslu ef hurð á lyftuhúsi er EI2 60-CS200]3) og EI2 30-CS200]3) á öðrum hæðum .
Annars skal aðgengi að lyftu úr bílgeymslunni vera um brunastúku .
6. Bílgeymsla með gólf undir yfirborði jarðar, en loft við eða yfir yfirborði jarðar, sem ekki er búin sjálfvirku [vatnsúðakerfi]2), sbr. töflu 9.03, skal búin reyklosun samkvæmt öðrum hvorum eftirtalinna stafliða ef gólfflötur er stærri en 600 m² en 2.000 m² sé gólf ofanjarðar, en gólf má telja ofanjarðar ef a.m.k .
tvær hliðar eða hálft ummálið (á neðstu hæð) er alveg upp úr jörð:
a. Í lofti eða uppi við loft skulu vera op út undir bert loft, samanlagt a.m.k. 5% af gólffleti, til reyklosunar. Opin skulu dreifast jafnt og ekki má vera hægt að loka þeim. Enginn staður í bílgeymslunni má vera fjær opi en 12 m, mælt lárétt frá opi .
b. Komið skal fyrir sjálfvirkum reyklosunarbúnaði, vélrænum eða sjálfdragandi. Afköst kerfisins skal reikna út frá viðurkenndum forsendum um stærð og þróun bruna. Vélrænan búnað skal vera hægt að gangsetja handvirkt á aðgengilegum stað fyrir slökkvilið .
7. Byggingar fyrir dýr skulu vera sérstakt brunahólf EI 60 með EI2 30-CS hurð að öðrum rýmum. Sé brunahólf stærra en 200 m² skal það aðskilið frá hlöðu, vélageymslu og verkstæði með eldvarnarvegg REI 120-M. Hurð skal vera EI2 60-C. Í súgþurrkunarklefa má aðeins vera blásari og það sem honum fylgir. Loftstokk frá blásara í hlöðu skal vera hægt að loka með hlera E 60 þannig að hægt sé að fyrirbyggja að eldur í hlöðunni fái loft frá honum. Þar sem tækjabúnaði, s.s. sjálfvirkum mjaltatækjum og gjafabúnaði, er komið fyrir í byggingum fyrir dýr án brunahólfunar skal gera sérstaklega grein fyrir brunavörnum vegna þeirra .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 33. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.
4) Rgl. nr. 977/2020 44. gr.

9.6.19. gr .Sérákvæði um brunavarnir í notkunarflokki 2

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunahólfun í notkunarflokki 2:
1. Leiksvið sem er stærra en 100 m² skal vera hægt að skilja frá áhorfendasal með stáltjaldi sem renna má niður á stuttum tíma. Tjaldið skal varið með [vatnsúðakerfi]2).
2. Leiksvið skal hafa reyklosunarbúnað á þaki eða uppi við þak. Opnunarflatarmál skal vera a.m.k.
10% af gólffleti. Reykræsilúgum skal vera hægt að stjórna frá leiksviðsgólfi og frá aðkomu slökkviliðs.
3. Leiksvið sem er með sjálfvirkt vatnsúðakerfi í lofti þarf ekki að vera sérstakt brunahólf.
4. Samkomusalur skal vera sjálfstætt brunahólf EI 60 skilið með [EI2 30-CS200])3 hurðum frá öðrum rýmum.
Þegar leyft er að hafa opið á milli salar og eldhúss skulu brunavarnir auknar í eldhúsinu, s.s. með því að setja sjálfvirkt slökkvikerfi í eldunaraðstöðu.
5. Samkomusalur í einnar hæðar húsi má vera stærri en 1.500 m² ef salurinn afmarkast á tvo eða fleiri vegu af útveggjum og er skilinn frá öðrum hlutum hússins með hurðum [EI2 30-CS200])3.
6. Ef verslunarhús er meira en ein hæð þá má hvert EI 90 brunahólf ekki vera stærra en 1.000 m², en 2.000 m² í einnar hæðar húsi. Ekki má vera opið á milli fleiri en þriggja hæða í verslunarhúsi, að kjallara meðtöldum.
7. Hver skólastofa með samliggjandi hópherbergi skal vera sjálfstætt brunahólf, a.m.k. EI 60. Hurðir að gangi og öðrum herbergjum skulu vera a.m.k. EI2 30-CS.
8. Ekki mega vera dyr á milli skólastofu og stigahúss. Brunahólf EI 90 sem inniheldur skólastofur má ekki vera stærra en 600 m². Í einnar hæðar húsum má brunahólfið þó vera 1.200 m².
9. Skólastofur þar sem sérstök eldhætta er skulu hafa tvennar óháðar útgöngudyr.
10. Ákvæði 4.-6. tölul. 1. mgr. 9.6.18. gr. gilda einnig um bílgeymslur í notkunarflokki 2.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 33. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.20. gr .Sérákvæði um brunavarnir í notkunarflokki 3

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunahólfun í notkunarflokki 3:
1. Hurð á milli íbúðar og bílskúrs skal vera [EI2 60-CS200]2). Heimilt er að slík hurð sé EI2 30-CS200]2) ef dyrnar opnast inn í millirými, svo sem geymslu, þvottahús eða anddyri sem hefur hurð að íbúð.
2. Í byggingum sem eru fjórar hæðir er heimilt að hafa dyr beint úr stigahúsi 1 inn í íbúðir. Hurðir skulu vera [EI2 30-CS200]2) en [EI2 60-CS200]2) að kjallara og þakrými .
3. Brunahólfun milli íbúða og að sameign skal vera EI 90 en EI 60 að stigahúsi. Hæðarskil skulu vera a.m.k. REI 90.
4. Sambyggðum fjölbýlishúsum skal skipta með eldvarnarveggjum REI 120–M þannig að ekki sé stærra botnflatarmál á milli slíkra veggja en 600 m². Þetta gildir óháð annarri brunahólfun .
5. Veggir að og hæðarskil yfir bílskúr eða bílskýli í sérbýlishúsum skulu vera a.m.k. REI 60.
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.21. gr .Sérákvæði um brunavarnir í notkunarflokki 4

Viðmiðunarreglur:Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunahólfun í notkunarflokki 4:
1. Brunahólfun milli gistiherbergja, innbyrðis og að sameiginlegum rýmum, skal vera EI 60 með hurðum [EI2 30-CS200]2), nema þar sem 10 manns eða færri gista .
2. Hvert gistiherbergi eða gistirými, með tilheyrandi forstofu og snyrtiherbergi, skal mynda sjálfstætt brunahólf EI 60 með[EI2 30-CS200]2) hurð fram á gang. Ef innangengt er úr gistirými í eitt eða fleiri nærliggjandi herbergi, sem hafa dyr út á gang, skulu þau hvert um sig mynda brunahólf. Hurð á milli slíkra herbergja skal vera [EI2 30-CS200]2) .
3. Ekki mega vera dyr á milli gistiherbergis eða gistirýmis og stigahúss í byggingum .
4. Eldhús, búr og tilheyrandi geymslur gististaða skulu mynda sjálfstætt brunahólf .
5. Svefndeild í byggingum skal vera sjálfstætt brunahólf EI 90. Með svefndeild er átt við eitt eða fleiri gistiherbergi með tilheyrandi göngum eða öðrum rýmum, þar með talin svefnherbergi starfsfólks .
6. Hvert EI 90 brunahólf skal ekki vera stærra en 1.000 m² í einnar hæðar byggingum og 600 m² í hærri byggingum .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.22. gr .Sérákvæði um brunavarnir í notkunarflokki 5

Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda um brunahólfun í notkunarflokki 5:
1. Brunahólfun skal vera milli íbúðareininga innbyrðis og milli íbúðareininga og sameiginlegra rýma .
2. Í byggingum þar sem fólk þarf aðstoð við rýmingu, s.s. á hjúkrunarheimilum, legudeildum og á deildum sem fólk er í einangrun eða lokað inni, skal brunahólfun vera þannig að öryggi fólks í rýmingu sé tryggt. Örugg brunahólfun skal vera á milli deilda .
3. Brunahólfun innbyrðis milli íbúðareininga og sameiginlegra rýma bygginga skal vera EI 60 með hurðum [EI2 30-CS200]2). Brunahólfun einstakra íbúðarherbergja, sjúkrastofa og einstakra deilda leikskóla skal vera EI 60. Hvert brunahólf skal einungis ná til einnar hæðar nema í stigahúsum .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.23. gr .Starfsemi sem sérstök hætta stafar af

Meginreglur: Starfsemi í byggingum þar sem unnið er með eldfim og önnur hættuleg efni eða þau geymd má ekki skapa óeðlilega hættu. Slík starfsemi krefst sérstakra varna, s.s. hólfunar, slökkvikerfa eða annarra þátta sem taka mið af viðkomandi hættu. Leyfisveitandi getur krafist öflugri hólfunar, slökkvikerfa eða annarra varna sé um að ræða sérstaka hættu eða umtalsvert magn efna .
Viðmiðunarreglur: Eftirfarandi viðmiðunarreglur gilda fyrir byggingar þar sem fram fer starfsemi sem sérstök hætta stafar af, sbr. 1. mgr.:
1. Almennt skal hólfun vera EI 60 með [EI2 60-CS200]2) hurð .
2. Í brunahólfum bygginga sem eru stærri en 600 m² skal vera sjálfvirk reyklosun .
3. Yfirborð gólfs skal vera þannig frá gengið að ekki myndist neistar við gólf .
4. Sprautuklefar skulu vera sér brunahólf EI 60 með EI2 60-CSa hurðum og hafa sjálfstætt loftræsikerfi .
Klæðningar á veggjum og lofti sprautuklefa skulu vera í flokki 1. Útblástursstokkur skal liggja einn sér út undir bert loft og skal vera auðvelt að hreinsa hann. Fjarlægð útblástursstokks frá brennanlegu efni skal vera a.m.k. 0,3 m. Ef útblástursstokkur liggur um annað herbergi skal hann vera EI 30 .
Loftþjappa í sprautuklefa skal hafa sjálfstætt inntak fyrir útiloft og skal rafmótor við slíka þjöppu vera neistafrír. Aðeins má nota neistafría lampa í sprautuklefum. Við sprautuklefa skal vera slökkvitæki af viðurkenndri gerð .
5. Ef olíubrennari er notaður til beinnar upphitunar skal hann staðsettur í kyndiklefa sem er EI 60 .
Loftstokkur milli sprautuklefa og brennara skal vera EI 30 með eldvarnarloku EI 30. Brennarinn skal taka loft að utan um rist í útvegg eða gegnum EI 30 stokk. Á olíulögn skal vera öryggisloki sem hindrar innrennsli olíu komi eldur upp í klefanum .
6. Ekki má vera innangengt á milli rýma í byggingum þar sem unnið er með eld- og sprengifimar gastegundir og rýma þar sem unnið er með opinn eld eða kyndiklefa .
7. Hleðsla á rafdrifnum lyfturum og sambærilegum tækjum í byggingum, sem skapa hættulegar lofttegundir, skal fara fram í sérstöku herbergi sem skal afmarka með byggingarhlutum EI 60 og EI2 30-CSa hurð. Herbergið skal loftræst á fullnægjandi hátt meðan á hleðslu stendur .
8. Vararafstöðvar og slíkur búnaður skal vera í sérstöku brunahólfi EI 60 með [EI2 60-CS200]2) hurð. Í slíkum klefa er heimilt að hafa daggeymi með diselolíu. Gera skal ráðstafanir til að olía geti ekki runnið frá klefanum og valdið hættu .
9. Í rýmum þar sem sérstök hætta er á íkviknun, t.d. í stóreldhúsum, skal gera sérstakar ráðstafanir til að hindra útbreiðslu elds, t.d. með því að setja upp sjálfvirk slökkvikerfi í útsogsháf og yfir eldunartækjum .
10. Geymsla á gaskútum fyrir brennanlegt gas skal vera utanhúss og skal brunahólfun að byggingu vera a.m.k. EI 60. Geymslan skal loftræst og í henni skal vera gasskynjari og sjálfvirkur loki sem lokar fyrir kútana verði gasleki .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 40. gr.

9.6.24. gr .Lyftur

Meginreglur: Gengið skal þannig frá lyftuhúsum bygginga að ekki sé hætta á að reykur breiðist út í gegnum þau á milli brunahólfa. Lyftur má ekki nota í eldsvoða nema um sérstaka flóttalyftu sé að ræða. Skal aðvörun um það komið fyrir við lyftudyr. Greiður aðgangur skal vera að lyftuvél hvort sem hún er í þaki, kjallara eða í lyftustokk. Við lyftuvél og annan búnað sem þarf að vinna við í straumleysi skal vera neyðarlýsing .
Viðmiðunarreglur: Lyftuhús í byggingum ásamt rými fyrir drifbúnað og vélar skulu vera sjálfstæð brunahólf EI 60 með EI 60 hurðum. Sé lyfta hluti af stigahúsi skal lyftuhúsið vera úr óbrennanlegu efni, A2- s1,d0. Koma má drifbúnaði fyrir í lyftuhúsi ef brunaálag og reykmyndun frá því er lítil og veldur ekki hættu í lyftunni og lyftuhúsið er loftræst með tilliti til þessa. Gengið skal úr lyftu í kjallara um brunastúku nema um sé að ræða sama brunahólfið .
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

9.6.25. gr .Háhýsi

Meginreglur:Brunavarnir háhýsa skulu taka mið af aukinni hættu vegna hæðar m.t.t. öryggis fólks og björgunaraðila.
Viðmiðunarreglur:[
1. Háhýsi teljast hús hærri en átta hæðir eða yfir 23 m há, mælt frá meðalhæð jarðvegs umhverfis húsið.
2. Í háhýsum skal vera stigahús af gerð 3. Í slíkum húsum skal hver notkunar­eining hafa aðgang að stigahúsinu um opna eða yfirþrýsta brunastúku.
3. Í háhýsum skal vera sjálfvirkt vatnsúðakerfi.]3)
[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar.
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 33. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 45. gr.

9.6.26. gr .Gluggar í útveggjum

Meginreglur: Gluggar í útveggjum bygginga skulu gerðir þannig að ekki sé hætta á að eldur eða reykur geti breiðst út milli brunahólfa hvorki lóðrétt né lárétt. Glugga sem eru með eldþolnu gleri vegna brunahólfunar má einungis vera hægt að opna með sérstökum verkfærum og þá má ekki nota til loftræsingar .
Viðmiðunarreglur: Fyrir EI 60 brunahólfun og þar sem brunaálag er < 780 MJ/m² skal miða við tölugildi í töflu 9.08 en fyrir önnur tilfelli skal sýna með útreikningum að brunahólfun sé ekki skert. Um glugga í innhornum undir minna en 60° horni gilda sömu reglur og fyrir glugga sem eru á samsíða veggjum .
Tafla 9.08 Fjarlægð milli glugga í útveggjum þar sem brunahólfun er EI 60 .

Innbyrðis afstaðaBil á milli glugga Brunakrafa
Gluggar í samsíða veggjum > 3,0 m og < 6,0 m
> 6,0
Annar glugginn E 30 eða báðir E 15
Engin krafa
Gluggar í 90° innhornum < 2,0 m
> 2,0 m
Annar glugginn E 30 eða báðir E 15
Engin krafa
Gluggar hvor fyrir ofan annan í hæð < 1,2 m
> 1,2 m
E 30
Engin krafa
Gluggar í veggjum undir minnst 180°horni < 0,6 m Annar glugginn E 30 eða báðir E 15
Fyrir önnur gildi á innbyrðis afstöðu skal miða við línulega breytingu .

[Húsnæðis- og mannvirkjastofnun]1) skal gefa út leiðbeiningar um framkvæmd þessarar greinar .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

9.6.27. gr .Brunastúkur

Meginreglur: Brunastúka skal minnka líkur á eld- og reykútbreiðslu á milli þeirra brunahólfa sem hún tengir. Brunastúku má ekki nota til annars en umferðar. Brunastúkur í mannvirkjum skulu vera sjálfstæð brunahólf og skulu hurðir á þeim samanlagt hafa minnst sömu brunamótstöðu og skilin milli brunahólfanna .
Viðmiðunarreglur: Brunastúkur í mannvirkjum skulu að jafnaði ekki vera mjórri en 1,3 m og lengd þeirra vera á bilinu frá 2 m til 6 m. Við brunahólfun EI 90 eða meiri skulu hurðir hafa brunamótstöðu minnst EI 60-CSm en að stigahúsi má nota hurð sem er allt að einum flokki lægri, þó ekki lægri en EI 30-CSm. Allar klæðningar á veggjum og í lofti skulu vera í flokki 1 og gólfefni í flokki [Dfl s1]1) .
1) Rgl. nr. 977/2020, 46. gr.

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.