14. HLUTI. LAGNIR OG TÆKNIBÚNAÐUR

Aftur í: Efnisyfirlit

14.1. KAFLI. Almennt um lagnir og tæknibúnað

14.1.1. gr .Meginmarkmið

Við hönnun og gerð lagna og annars tæknibúnaðar bygginga skal gæta að öryggi, aðgengi, hollustu, umhverfi og orkunýtingu allan líftíma byggingarinnar. Jafnframt skal gæta að þægindum íbúa og annarra notenda byggingarinnar s.s. vegna birtuskilyrða, hljóðvistar og gæða innilofts .
Rekstraröryggi alls tæknibúnaðar skal tryggt að því marki sem unnt er og viðhald og endurnýjun skal vera auðframkvæmanleg. Almennt skal staðsetja lagnir þannig að hægt sé að greina leka sem kemur fram áður en hann veldur skemmdum og að auðvelt sé að komast að lögn til viðgerðar .

14.2. KAFLI. Hita- og kælikerfi

14.2.1. gr .Markmið

Hita- og kælikerfi bygginga skulu þannig hönnuð og gerð að hagkvæmni varðandi orkunotkun og rekstur sé höfð að leiðarljósi. Virkni kerfisins og einstakra hluta þess skal vera fullnægjandi og afkastageta þess vera í samræmi við ákvarðandi heildarleiðnitap byggingar samkvæmt reglugerð þessari og ÍST 66 .
Í byggingum þar sem bæði er um upphitun og kælingu að ræða skal tryggt að ekki geti verið samtímis kæling og hitun í sama rými .
Hitakerfi bygginga skulu þannig hönnuð að ekki sé hætta á bruna, sprengihættu, eitrun eða mengun .

14.2.2. gr .Stýribúnaður

Hita- og kælikerfi bygginga skulu vera búin sjálfvirkum stjórnbúnaði sem stýrir afköstum þeirra eftir varma- og kæliþörf hvers rýmis og byggingar í heild. Þá skal vera unnt að minnka upphitun eða kælingu þegar bygging eða hluti hennar er ekki í notkun .
Hita- og kælikerfi bygginga skulu búin stillibúnaði til jafnvægisstillingar á kerfi .

14.2.3. gr .Dælubúnaður

Dælur í hita-, neysluvatns- og kælikerfum bygginga skulu valdar og þeim stýrt með tilliti til hagkvæmni varðandi orkunotkun. Hitakerfi sem eru með stöðugu rennsli, s.s. snjóbræðslukerfi, þurfa ekki að vera með þrýsti- og álagsstýrða dælu .

14.2.4. gr .Festingar

Tryggja skal að festingar í hita- og kælikerfum bygginga þoli það álag sem þær verða fyrir. Bil milli festinga skal taka mið af styrk þeirra, gerð lagnar og álags frá viðkomandi lögn. Gera skal ráð fyrir þenslum á pípum þegar pípur eru festar .

14.2.5. gr .Frágangur á pípulögn

Pípur í hitakerfum bygginga skulu einangraðar þannig að ekki verði óþarfa orkueyðsla eða óæskileg upphitun á öðrum lögnum og byggingarhlutum. Pípur í kælikerfum skulu einangraðar þannig að ekki verði óþarfa orkueyðsla og slagi á lögnum .
Um kröfur til brunaeiginleika röraeinangrunar gilda ákvæði 9. hluta reglugerðar þessarar .
Hitalagnir og hitagjafar í skólum, frístundaheimilum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum, vistheimilum aldraðra og öðrum slíkum stofnunum skulu varðar skv. 12.5. kafla .

14.2.6. gr .Afkastageta

Afkastageta hita- og kælikerfa bygginga skal miðast við að ráðgerður lofthiti haldist miðað við varmatapsreikninga samkvæmt reglugerð þessari og ÍST 66 .
Hita- og kælikerfi skal hanna þannig að fyrirhuguð afkastageta náist við venjulegan rekstrarþrýsting .

14.2.7. gr .Varmagjafar

Ofnar í byggingum skulu uppfylla staðalinn ÍST 69 og ÍST EN 442 .
Þar sem gólf eða loft eru notuð sem varmagjafar skal gæta þess að ekki verði óæskileg varmaleiðni um þessa byggingarhluta á milli rýma, sbr. ÍST EN 1264 .
Við ákvörðun á yfirborðshita í gólfhitakerfi bygginga skal fara eftir ÍST EN 1264. Þægindamörk yfirborðshita skulu vera:
a. íverurými < 29°C,
b. forstofur, þvottaherbergi, baðherbergi, geymslur o.þ.h. rými < 33°C,
c. jaðarsvæði < 35°C. Jaðarsvæði er svæði við útvegg sem nær 1 m inn í rými .
Yfirborðshiti frá gólfhitakerfi skal ekki vera svo hár að hann valdi skemmdum á gólfefni .
Um varnir gegn brunaslysum vegna yfirborðshita varmagjafa og hitalagna gilda ákvæði 12. hluta þessarar reglugerðar .

14.2.8. gr .Afloftun vatnshitakerfis

Hægt skal vera að lofttæma hita- og kælikerfi bygginga .

14.2.9. gr .Áfyllingarbúnaður

Áfyllingarbúnaður lokaðra vatnshitakerfa bygginga skal þannig gerður að tryggt sé að vatn (vökvi) af hitakerfi geti ekki undir neinum kringumstæðum runnið inn á neysluvatnskerfi .

14.2.10. gr .Hljóðvistarkröfur

Við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði skal tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingu eða umhverfi hennar og að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Vatnshraði í pípum skal ákvarðaður á þann hátt að hljóð frá pípum uppfylli kröfur um hljóðvist, sbr. 11 .
hluta þessarar reglugerðar .
Gengið skal þannig frá festingum vatnshitakerfa að hreyfing á pípum og rennslishljóð geti ekki myndað hávaða sem berst út í aðliggjandi byggingarhluta og rými, þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist í 11. hluta þessarar reglugerðar .

14.3. KAFLI. Hitakerfi tengd hitaveitu

14.3.1. gr .Markmið

Hitakerfi bygginga sem fá orku frá jarðhita skulu búin stjórn- og stillibúnaði þannig að nýting varmaorkunnar verði sem best og öryggis fólks, eigna og umhverfis sé tryggt .

14.3.2. gr .Efniskröfur

Við efnisval hitakerfis í byggingum skal taka mið af þoli þess vegna eiginleika, efnainnihalds, þrýstings og hita vatns á viðkomandi veitusvæði þannig að lagnir þoli þann þrýsting, hitastig og efnainnihald sem vænta má í veitukerfinu og ending hitakerfisins verði fullnægjandi. Jafnframt skal höfð hliðsjón af ÍST 67 .
Lagnir í hitakerfum skulu þannig gerðar að ekki komist súrefni í því magni inn í lagnir að valdið geti tæringu á ofnum eða öðrum búnaði sem tærist vegna súrefnis í vatni .

14.3.3. gr .Tengigrind og tenging við veitukerfi

Tenging hitakerfis bygginga við veitukerfi skal gerð í fullu samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu. Tengigrind hitakerfis skal vera í inntaksrými byggingar og þar skal vera niðurfall .
Setja skal varmaskipti við hitakerfi ef vatn í viðkomandi veitu er þess eðlis að hætta sé á tæringu eða útfellingum sem skaðað getur hitakerfið .
Gott aðgengi skal vera að tengigrind hitakerfis til aflestrar mæla og viðhalds og skal merkja pípur, loka og tækjabúnað eftir því sem við á. Þá skulu mælar vera á bakrás og framrás hitakerfis svo örugglega megi fylgjast með hita og þrýstingi í kerfinu. Skal kvarði þrýstimæla geta sýnt a.m.k. 50% hærra gildi en ráðgerðan rekstrarþrýsting .
Við endurnýjun tengigrinda í eldri byggingum skal uppfylla öryggiskröfur þessa kafla .

14.3.5. gr .Stillibúnaður

Auðveldur aðgangur skal vera að jafnvægisstillibúnaði hitakerfa í byggingum .
Hitakerfi með gegnumrennsli skulu búin stýribúnaði sem tryggir nægjanlegan bakþrýsting þannig að þrýstingur við efsta ofn sé nægjanlegur .
Hitakerfi sem tengd eru beint við veitur skulu vera búin þrýstijafnara sem stýrir rekstrarþrýstingi og mismunaþrýstingi yfir hitakerfið á fullnægjandi hátt. Þrýstijafnari skal almennt staðsettur í inntaksrými inntaksmegin við öryggisloka skv. 14.3.5. gr .14.3.5. gr .Öryggisloki .
Á tengigrind hitakerfis bygginga skal koma fyrir öryggisloka. Öryggisloki skal hafa fullnægjandi afköst svo ekki skapist hætta fyrir öryggi fólks, eignir og umhverfi vegna of hás þrýstings í hitakerfinu. Öryggisloka skal setja á fram- og bakrás hitakerfa sem tengjast beint við veitur .
Í gegnumrennslishitakerfum skal eingöngu setja öryggisloka á framrás. Jafnframt skal setja öryggisloka á öll lokuð hita- og kælikerfi. Pípa frá öryggisloka á tengigrind skal lögð niður að gólfi og þar skal henni þannig fyrir komið að ekki stafi hætta af útrennsli frá henni. Pípa frá öryggisloka á lokuðum hitakerfum sem ekki er staðsettur í inntaksrými skal leidd að frárennsli og frágengin á sama hátt .
Gólfniðurfall skal vera í sama herbergi og öryggisloki hitakerfis .

14.3.6. gr .Bakrennslisvatn

Sé bakrennslisvatni veitt í frárennsliskerfi bygginga skal tryggt að hitastig þess sé ekki það hátt að lagnaefni í frárennsliskerfi geti orðið fyrir skemmdum. Eins skal tryggt að ekki geti undir neinum kringumstæðum orðið bakrennsli frá frárennsliskerfi að hitakerfi .
Leggja skal út úr sökkli byggingar sérstaka affallslögn, sem þolir hita á affallsvatni frá viðkomandi hitakerfi, að viðeigandi tengibrunni sem næstur er götulögn .

14.3.7. gr .Þrýstiprófun

Hitalagnir bygginga skulu þannig hannaðar og frágengnar að þéttleiki þeirra sé tryggður á fullnægjandi hátt .
Þéttleika allra hitakerfa bygginga skal sannreyna með þrýstiprófun, með að lágmarki 0,6 MPa vatnsþrýstingi. Þrýstiprófa skal lagnir áður en þær eru huldar. Fylgja skal leiðbeiningum í ÍST EN 12828 .

14.4. KAFLI. Ketilkerfi og ketilrými

14.4.1. gr .Ketilrými

Við hönnun og gerð ketilrýma í byggingum ber að tryggja að reglur Vinnueftirlitsins til slíkra rýma séu uppfylltar .
Gufukatlar sem eru með margfeldistölu stærri en 10.000 (bar x lítrar) skulu vera í sérrými í byggingum .
Rými fyrir gufukatla sem eru hluti af byggingu, þ.e. fyrir gufukatla yfir 10.000 (bar x lítrar), skulu þola minnst 0,1 bar yfirþrýsting .
Sprengileiðir skulu vera á ketilrýmum þannig að bygging hrynji ekki eða laskist verulega af völdum sprengingar. Sprengileiðir skulu vera sprengilúgur, gluggar, léttir útveggir eða þakhlutar sem láta undan við sprengingu. Minnst 20% af veggflatarmáli skal vera sprengileið. Almennt skal miða við að sprengileiðir séu út um veggi en í undantekningartilfellum má notast við þakflöt sem þá er aðskilinn byggingu að öðru leyti .

14.4.2. gr .Ketilkerfi, olíu- og rafhitun

Ketilkerfi, olíu- og rafhitun bygginga skulu uppfylla þær reglugerðir og staðla sem um þau fjalla. Skal leitað til Vinnueftirlits eða annars til þess bærs aðila til staðfestingar á að svo sé .
Um ketilkerfi gilda sömu ákvæði og um hitaveitukerfi, sbr. 14.2. kafla, og að auki skal tryggja með hitastillibúnaði og öryggisbúnaði að rekstrarhiti og rekstrarþrýstingur ketilkerfis verði ekki of hár svo ekki sé hætta á sprengingu eða bruna, sbr. reglugerð Vinnueftirlits ríkisins, reglugerð um raforkuvirki og reglugerð um heitavatnskatla sem brenna fljótandi eða loftkenndu eldsneyti. Um ketilkerfi gilda ennfremur ákvæði 9 .
hluta þessarar reglugerðar .
Tækjaklefar kerfa sem falla undir þessa grein skulu loftræstir á fullnægjandi hátt þannig að ávallt sé nægjanlegt ferskloft fyrir hendi og hiti verði ekki of hár. Tryggja skal fullnægjandi aðkomu til viðgerða og hreinsunar .
Hitakatlar skulu vera í sérstökum tækjaklefa (kyndiklefa/ketilrými) nema að þeir séu sérstaklega viðurkenndir til notkunar annars staðar .
Yfirborðshiti brennanlegra byggingarefna má ekki fara yfir 80°C vegna geislunar frá kötlum og hitakútum .
Olíukatlar skulu þannig gerðir að fullnægjandi brennsla eldsneytis náist við ráðgerð varmaafköst og að mengun frá þeim sé eins lítil og unnt er. Olíukatla skal tengja við reykháf sbr. 9.6.6. gr. og skulu þeir vera á traustri undirstöðu .

14.5. KAFLI. Neysluvatnskerfi

14.5.1. gr .Markmið

Neysluvatnskerfi bygginga skulu þannig hönnuð og gerð að öryggi fólks, eigna og umhverfis sé tryggt og að fyrirhuguð afköst náist við venjulegan rekstrarþrýsting .
Efnisval neysluvatnskerfa skal vera þannig að ekki sé hætta á að vatnið spillist og að tæringarhætta sé í lágmarki .

14.5.2. gr .Efniskröfur

Við efnisval neysluvatnskerfa í byggingum ber að taka mið af þoli lagnaefnis vegna eiginleika, efnainnihalds, þrýstings og hita vatns á viðkomandi veitusvæði. Jafnframt skal höfð hliðsjón af ÍST 67 .
Neysluvatnslagnir fyrir kalt og heitt vatn skulu þola þann þrýsting og það hitastig sem vænta má í viðkomandi veitukerfum. Í neysluvatnslögnum fyrir heitt vatn skal þó aldrei miða við lægri þrýsting en 1 MPa eða lægra hitastig en 70°C. Sömu lágmarkskröfur gilda um þrýsting í neysluvatnslögnum fyrir kalt vatn .

14.5.3. gr .Tenging við veitukerfi

Tenging neysluvatnskerfis byggingar við veitukerfi skal gerð í fullu samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu. Tengigrind neysluvatnskerfis skal almennt vera í inntaksrými byggingar, að öðrum kosti í sérstöku tæknirými. Gott aðgengi skal vera að tengigrind til aflestrar mæla og viðhalds .
Merkja skal pípur, loka og tækjabúnað eftir því sem við á og skulu mælar vera á lögnum neysluvatnskerfis svo örugglega megi fylgjast með hita og þrýstingi í kerfinu .

14.5.4. gr .Festingar

Tryggja skal að festingar í neysluvatnskerfum bygginga þoli það álag sem þær verða fyrir. Bil milli festinga skal taka mið af styrk þeirra, gerð lagnar og álags frá viðkomandi lögn. Gera skal ráð fyrir þenslum á pípum þegar þær eru festar .

14.5.5. gr .Þéttleiki og þrýstiprófun

Neysluvatnslagnir bygginga skulu þannig hannaðar og frágengnar að þéttleiki þeirra sé tryggður á fullnægjandi hátt. Almennt skal leitast við að staðsetja neysluvatnslagnir þannig að hægt sé að greina leka sem kemur fram áður en hann veldur skemmdum og komast að lögn til viðgerða .
Þéttleika allra neysluvatnslagna bygginga skal sannreyna með þrýstiprófun, með að lágmarki 1,0 MPa vatnsþrýstingi. Þeir kerfishlutar sem huldir eru skulu þéttleikaprófaðir áður en þeir eru huldir, sbr . leiðbeiningar í ÍST 67 .

14.5.6. gr .Frágangur á pípulögn

Pípur í neysluvatnskerfum sem ætlaðar eru fyrir heitt vatn skulu einangraðar þannig að hvorki verði ónauðsynleg orkueyðsla né óæskileg upphitun á öðrum lögnum og byggingarhlutum. Pípur ætlaðar fyrir kalt vatn skulu einangraðar þannig að hvorki verði ónauðsynleg rakaþétting né óæskileg upphitun á kalda vatninu frá öðrum lögnum eða byggingarhlutum .
Í fjölbýlishúsum skal, innan hverrar íbúðar, vera hægt að loka fyrir vatn að öllum töppunarstöðum neysluvatnskerfis í íbúðinni, annað hvort með lokum á stofnlögnum að íbúðinni eða með lokum við hvern töppunarstað .
Um kröfur til brunaeiginleika röraeinangrunar í neysluvatnskerfum gilda ákvæði 9. hluta þessarar reglugerðar .
Neysluvatnskerfi skal þannig hannað og gert að vatnsrennsli að töppunarstað sé fullnægjandi án þess að vatnshraði valdi truflandi hávaða eða skemmdum á lögn. Jafnframt skulu gerðar fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif vatnshöggs .

14.5.7. gr .Hljóðvistarkröfur

Við ákvörðun á staðsetningu á pípum, tækjum og stjórnbúnaði neysluvatnskerfa skal tryggt að hávaði frá þeim valdi ekki óþægindum í byggingunni eða umhverfi hennar og þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Vatnshraði í pípum neysluvatnskerfa skal ákvarðaður á þann hátt að hljóð frá pípum uppfylli kröfur um hljóðvist, sbr. 11. hluta þessarar reglugerðar .
Gengið skal þannig frá festingum neysluvatnskerfa að hreyfing á pípum og rennslishljóð geti ekki myndað hávaða sem berst út í aðliggjandi byggingarhluta og rými, þannig að uppfylltar séu kröfur um hljóðvist í 11. hluta þessarar reglugerðar .

14.5.8. gr .Afkastageta

Neysluvatnslagnir bygginga skulu þannig hannaðar og gerðar að ávallt sé fullnægjandi þrýstingur og vatnsmagn við eðlilega notkun kerfis. Ennfremur skal kerfið þannig hannað og gert að biðtími eftir heitu vatni verði ekki of langur við töppunarstað .

14.5.9. gr .Hollusta

Í neysluvatnslagnir bygginga skal einungis nota viðurkennd efni sem hvorki innihalda skaðleg efni sem borist geta í neysluvatnið og haft áhrif á hollustu þess né efni sem áhrif geta haft á bragð þess eða lykt .
Hreinsa skal allar nýjar neysluvatnslagnir að hverjum töppunarstað fyrir notkun, þannig að vatnið standist almennar kröfur hvað varðar hollustu, bragð og lykt .
Til að tryggja fullnægjandi öryggi neysluvatnslagna gegn mengun skal vera búnaður á lögnunum sem kemur í veg fyrir bakrennsli, á tengigrind og að einstökum óskyldum einingum innan viðkomandi byggingar, þannig að komið sé í veg fyrir að utanaðkomandi mengandi efni geti runnið inn í kerfi einstakra eininga eða mengað allt lagnakerfið .
Neysluvatnskerfi skal þannig hannað og gert að ekki sé hætta á bakrennsli við einstaka töppunarstaði, sbr. ÍST EN 1717 .

14.5.10. gr .Öryggi

Tryggja skal að hitastig vatns við töppunarstaði neysluvatnskerfa í byggingum sé ekki það hátt að hætta sé á húðbruna fólks í steypiböðum og baðkerum. Þá skulu vera hitastýrð blöndunartæki á handlaugum í baðherbergjum og snyrtingum sé hitastig neysluvatns það hátt að það geti valdið húðbruna .
Þannig skal frá neysluvatnslögnum bygginga gengið að ekki sé hætta á að bakteríugróður geti þrifist í neysluvatninu. Því skulu eftirfarandi kröfur uppfylltar:
a. Heitt vatn í neysluvatnslögnum skal ávallt vera nægjanlega heitt til að það spillist ekki vegna bakteríugróðurs, t.d. hermannaveiki (legionellu) .
b. Neysluvatnslögn fyrir kalt vatn skal vera þannig frágengin að ekki sé hætta á að vatnið spillist og í því myndist bakteríugróður, t.d. vegna hermannaveiki, vegna of mikillar upphitunar .
Með öryggisbúnaði neysluvatnskerfa, t.d. varmaskipti eða uppblöndunarloka, skal komið í veg fyrir að hiti við töppunarstað fari yfir 65°C. Til að koma í veg fyrir hættu á hermannaveiki skal hiti á heitu vatni í neysluvatnslögn, þar sem vatnið er að jafnaði ekki á hreyfingu, aldrei fara undir 60°C og hiti þess almennt ekki vera lægri en 65°C í stofnlögnum .
Hanna skal neysluvatnskerfi þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda og skulu eftirfarandi kröfur uppfylltar:
a. Hitastig vatns við töppunarstaði í böðum skal ekki vera það hátt að hætta sé á húðbruna .
b. Hitastig vatns við þá töppunarstaði, sem gestir, almenningur, vistmenn og börn hafa aðgang að, skal ekki fara yfir 43°C í skólum, frístundaheimilum, sundlaugum, sjúkrahúsum, dvalarheimilum, opinberum baðstöðum, hótelum og samsvarandi stöðum .
c. Hitastig vatns við töppunarstaði, sem börn geta komist að, skal ekki fara yfir 38°C á leikskólum .
[...]1)
Við endurnýjun blöndunartækja við alla töppunarstaði í baðherbergjum og á snyrtingum í eldri byggingum skal nota hitastýrð blöndunartæki. Við endurnýjun tengigrinda í eldri byggingum skal uppfylla öryggiskröfur þessarar reglugerðar .
Við rekstur neysluvatnskerfa þar sem hitastig á heitu vatni er lægra en 60°C, s.s. í sturtukerfum, skal þess gætt að kerfin séu yfirhituð með minnst 70°C heitu vatni nægjanlega oft til að koma í veg fyrir hættu á hermannaveiki.
1) Rgl. nr. 977/2020 57. gr.

14.6. KAFLI. Fráveitulagnir

14.6.1. gr .Markmið

Fráveitulagnir bygginga skulu vera þéttar til að fyrirbyggja leka úr lögn við mögulegan hámarksrekstrarþrýsting og að vatn komist inn í lögn frá lagnastæði við eðlilega notkun þannig að ekki sé hætta á mengun nánasta umhverfis lagnanna. Á þeim skal vera nægur halli og vídd þannig að lögnin sé sjálfhreinsandi .
Á lögnum skal vera nægur fjöldi brunna eða hreinsiloka til skoðunar og hreinsunar .

14.6.2. gr .Fráveitulagnir undir neðstu plötu

Fráveitulagnir bygginga skulu liggja sem mest utan við grunn bygginga til að einfalda endurnýjun og viðgerðir. Þær fráveitulagnir sem leggja þarf inn í grunn undir botnplötu skulu liggja þar sem auðveldast er að endurnýja þær með sem minnstu múrbroti .

14.6.3. gr .Frárennsli við töppunarstaði

Við alla töppunarstaði neysluvatnslagna bygginga skal vera frárennsli sem flutt getur burt allt vatnsmagnið sem töppunarstaðurinn afkastar. Þetta gildir ekki um töppunarstaði utanhúss þar sem náttúruleg þerring er fyrir hendi .
Öll tæki sem beintengd eru fráveitukerfi skulu búin vatnslás sem auðvelt er að komast að til hreinsunar og þolir hitastig frárennslisins. Sjálfstæður vatnslás skal vera við hvert tæki og tenging skal vera þannig frágengin að tryggt sé að ekki sé hætta á að frárennsli frá einu tæki geti runnið í vatnslás annars tækis .
Frárennsli frá tæki þar sem hætta er á óþægindum vegna lyktar má ekki tengja gegnum gólfniðurfall .

14.6.4. gr .Varasöm eða hættuleg efni

Óheimilt er að láta efni í fráveitukerfi bygginga sem geta skaðað lagnakerfið, hreinsistöðvar eða umhverfið eða haft áhrif á afköst þess .
Þar sem hætta er á að eld- eða sprengifim efni geti borist að frárennsliskerfi er ekki heimilt að hafa vatnslás. Öll slík efni skulu fjarlægð áður en afrennslinu er hleypt í frárennsliskerfið .
Ekki er heimilt að leiða frárennsli frá salernum að olíu- og fituskilju eða hleypa sprengifimum eða mengandi efnum út í fráveitukerfi .
Þar sem hætta er á að frárennsli innihaldi skaðleg eða hættuleg efni skal það meðhöndlað sérstaklega eða sérstakar skiljur settar í kerfið til hreinsunar. Skiljurnar skulu þannig gerðar að tryggt sé að þessi skaðlegu eða hættulegu efni séu fjarlægð þannig að þau berist ekki í frárennsliskerfið .
Skiljur skal setja upp ef frárennsli inniheldur meira en óverulegt magn af:
a. Fínefnum eða kornum sem geta sest í kerfið og stíflað það .
b. Fitu eða öðrum efnum sem skiljast frá frárennslinu við kælingu .
c. Bensíni eða öðrum eld- eða sprengifimum vökvum .
d. Olíu og öðrum efnum sem blandast ekki við vatn .
Fituskiljur skal hanna samkvæmt ÍST EN 1825-2. Olíu- og bensínskiljur skal hanna samkvæmt ÍST EN 858-2. Þá skal höfð hliðsjón af leiðbeiningum Umhverfisstofnunar .

14.6.5. gr .Gólfniðurföll

Gólfniðurföll bygginga skulu vera með vatnslás og staðsett þannig að auðvelt sé að komast að þeim til hreinsunar. Tryggt skal að gegnumstreymisniðurföll anni að lágmarki vatnsmagni frá því tæki sem það er tengt .
Afköst gegnumstreymisniðurfalls skulu jafnframt vera nægjanleg til þess að það þjóni sem öryggisniðurfall vegna annarra tækja í rýminu, sé ekki sérstakt öryggisniðurfall til staðar .

14.6.6. gr .Öryggisbúnaður

Ekki þarf að gera ráð fyrir sérstökum niðurföllum í byggingum vegna sérstaks öryggisbúnaðar eins og t.d. úðakerfa, öryggissturtu, brunaslöngu o.þ.h .

14.6.7. gr .Loftun frárennslislagna

Frárennslislagnir bygginga skulu þannig hannaðar, frágengnar og loftaðar að breytingar á þrýstingi sem kunna að verða í kerfinu geti ekki tæmt vatnslása. Loftun skal þannig staðsett og frágengin að ekki verði óþægindi vegna lyktar eða rakaþéttingar frá frárennslislögninni. Ekki er heimilt að lofta frárennsliskerfi um loftræsikerfi bygginga .

14.6.8. gr .Bakrennsli (öfugflæði)

Til að hindra bakrennsli skal vatnshæð í lægsta vatnslás í byggingu vera nægjanlega hátt yfir tengistað aðalfrárennslis byggingarinnar .
Fráveitukerfi skal þannig hannað að ekki sé hætta á að flæði inn í hús þar sem aðstæður eru þannig að hætta er á bakrennsli frá stofnlögnum í götu .

14.6.9. gr .Stærðarákvörðun

Fráveitulagnir bygginga sem eingöngu flytja skólp skulu stærðarákvarðaðar og gerðar þannig að þær geti flutt burt allt aðstreymandi skólp jafnóðum svo að hvergi verði vatnsuppistöður eða önnur rennslistruflun .
Regnvatns- og þerrilagnir skulu þannig hannaðar og frágengnar að ekki sé hætta á að jarðvatn og vatnssöfnun geti valdið skaða á byggingunni eða einstaka hlutum hennar, eða öðrum óþægindum, t.d. fyrir vegfarendur .
Við ákvörðun á hönnunarforsendum regnvatnslagna skal miðað við tíu mínútna hámarksúrkomu viðkomandi svæðis skv. gögnum Veðurstofu Íslands .

14.7. KAFLI. Raflagnakerfi og raforkuvirki

14.7.1. gr .Kröfur

Um raflagnatákn á séruppdráttum gilda ákvæði staðals IEC 60617 .
Um raflagnir, rafkerfi, rafföng, frágang þeirra og meðferð gilda ákvæði reglugerðar um raforkuvirki ásamt tæknilegum tengiskilmálum rafveitna .
Um brunaviðvörunarkerfi gilda ákvæði ÍST EN 54 og leiðbeiningar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]2) .
Inntakskassar fjarskiptalagna, rafrænna gagnaveitna og tengikassar sem tilheyra fleiri en einni íbúð eða starfsstöð skulu vera staðsettir í sameign. [Í fjölbýlishúsum skal koma fyrir tengilista í inntakskassa þar sem heimtaug tengist við innanhússfjarskiptalögn.]3) Kassarnir skulu annaðhvort innsiglaðir eða læstir. Um fjarskiptalagnir gilda ákvæði reglugerðar um leynd og vernd fjarskipta.
[Við hönnun raf- og fjarskiptalagna í íbúðarhúsum skal stuðst við staðl­ana ÍST 150 og ÍST 151. Fjarskiptalagnir í öllum mannvirkjum skulu að lágmarki upp­fylla kröfur ÍST 151 um lagnaleiðir.]3)
[Við hönnun raflagna í íbúðarhúsum skal stuðst við staðlana ÍST 150 og ÍST 151]1) .
Óheimilt er að nota loftræsilagnir sem lagnaleiðir fyrir raflagnir .
1) Rgl. 669/2018, 7. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.
3) Rgl. nr. 977/2020 58. gr.

14.8. KAFLI. Gaslagnir

14.8.1. gr .Gaslagnir í atvinnuhúsnæði

Gaslagnir í atvinnuhúsnæði skulu hannaðar af þar til bærum lagnahönnuði og uppfylla öll viðeigandi ákvæði reglugerða Vinnueftirlits ríkisins. Að auki skal fylgja leiðbeiningum [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) um uppsetningu og frágang F-gas búnaðar í atvinnuhúsnæði .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

14.8.2. gr .Gaslagnir á heimilum

Gaslagnir í íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði o.þ.h. skulu hannaðar af þar til bærum lagnahönnuði og uppsettar og frágengnar í samræmi við leiðbeiningar [Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar]1) um uppsetningu og frágang F-gas búnaðar á heimilum .
1) Rgl. nr. 977/2020 2. gr.

14.9. KAFLI. Loftræsibúnaður

14.9.1. gr .Almennar kröfur

Um kröfur til gæða innilofts í byggingum gilda ákvæði 10.2. og 10.3. kafla. Gerð skal grein fyrir gerð, eiginleikum og afköstum loftræsibúnaðar á lagnauppdráttum og í greinargerð hönnuðar .
[Stýring loftræsibúnaðar skal vera þannig að hægt sé að draga tímabundið úr loftmagni þegar þörf á loftræsingu innan byggingar eða rýmis minnkar.]1) Þar sem þörf fyrir loftræsingu er breytileg vegna fjölbreyttrar starfsemi eða breytilegs álags í byggingum skulu afköst loftræsibúnaðar nægjanleg og stýring hans þannig að þörf fyrir loftræsingu sé ávallt fullnægt .
[Loftræsikerfi bygginga skal þannig hannað, uppsett og frágengið að uppfyllt séu ákvæði staðalsins ÍST EN 13779 og kröfur til eldvarna skv. 9. hluta þessarar reglugerðar. Ákvæði staðalsins eiga einnig við um stærðir tæknirýma og lagnaleiða.]1) Við hönnun, uppsetningu og frágang loftræsikerfa ber ávallt að velja lausnir sem taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á inniloft rýmisins sem á að loftræsa, þannig að þar séu fullnægjandi loftgæði .
Ef loftræsikerfi er ætlað að þjóna mismunandi rýmum og hætta er á gufum, miklum loftraka eða ögnum í lofti, s.s. vegna reyks, matarlyktar o.þ.h., skal valin lausn sem tekur tillit til allra aðstæðna og tryggir fullnægjandi loftgæði hvers einstaks rýmis .
Búnað til að auka rakainnihald innblásins lofts í byggingum skal aðeins setja upp að því tilskildu að rekstraröryggi búnaðarins sé fullnægjandi og tryggð sé hollusta inniloftsins .
Útsog náttúrulegrar loftræsingar í byggingum skal ávallt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks. Virkni útsogs skal vera fullnægjandi og frágangur þannig að útsog valdi ekki óþægindum eða skaða í umhverfinu .
Útsog frá eldhúsi, baðherbergjum og salernum skal almennt ná upp fyrir efstu klæðningu þaks .
[...]2) 1) Rgl. nr. 1173/2012, 59. gr .2) Rgl. nr. 350/2013, 51. gr .14.9.2. gr .Orkunotkun .
Leitast skal við að lágmarka heildarorkunotkun loftræsikerfa í byggingum .
Almennt skal stefnt að því að varmaendurvinnsla sé á varma í útsogslofti loftræsikerfa bygginga. Stefnt skal að því að hitanýtni varmaendurvinnslu sé a.m.k. 70% og telst blöndun fersklofts og útsogslofts ekki koma í stað endurnýtingar varmaorku. Slík tilmæli um endurnýtingu varmaorku útsogslofts eiga ekki við þar sem hægt er að rökstyðja að ekki sé hagkvæmt að endurnýta orkuna á þennan hátt .
Í loftræsikerfum með föstu loftmagni skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 2,0 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Í loftræsikerfum með breytilegu loftmagni skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 2,2 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Vegna vélræns útsogs án vélræns innblásturs skal rafmagnsaflþörf kerfis ekki vera meiri en sem svarar 0,9 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .
Ákvæði 3. til 5. mgr. eiga ekki við um loftræsikerfi tengd iðnaðarframleiðslu eða þegar árleg notkun raforku vegna flutnings loftmassans er minni en 400 kWh .
Rafmagnsaflþörf loftræsikerfa íbúða við mesta álag, þar sem aðfærsla lofts er ýmist stöðug eða breytileg og varmi er endurnýttur, skal ekki vera meiri en 1,2 kW/m³/s meðhöndlaðs lofts .

14.10. KAFLI. Olíuþrýstikerfi, þrýstiloft o.fl.

14.10.1. gr .Almennar kröfur

Olíuþrýstikerfi innan og við byggingar, lagnir með þrýstilofti svo og allar aðrar lagnir og búnaður þeim tengdur, þar sem vökvi eða lofttegund er höfð undir háum þrýstingi, skulu hannaðar af þar til bærum lagnahönnuði og uppfylla viðeigandi ákvæði reglugerða Vinnueftirlits ríkisins og gildandi staðla .

14.11. KAFLI. Lyftur

14.11.1. gr .Almennar kröfur

Fólkslyftur og fólks- og vörulyftur í byggingum skulu uppfylla [reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.]2) og vera í samræmi við gildandi staðla sem og reglugerð um skráningu, eftirlit og umsjón með lyftum og lyftubúnaði til fólks og vöruflutninga. Hanna skal lyftur og smíða þannig að engin hætta sé á að maður geti klemmst í lyftugöngum þegar lyftustóllinn er á ystu mörkum. Vörulyftur og lyftur fyrir hreyfihamlaða skulu uppfylla reglugerð Vinnueftirlits ríkisins um vélar og tæknilegan búnað og vera í samræmi við gildandi staðla .
Um stærðarkröfur, kröfur um aðgengi og almennar kröfur um lyftur í byggingum gilda ákvæði 6.4.12 .
gr. [...]1) Um kröfur til eldvarna í fólkslyftum og fólks- og vörulyftum bygginga gilda ákvæði 9. hluta þessarar reglugerðar, þ.m.t. sérstakar kröfur til [brunavarnarlyftu]2) og flóttalyftu sem nota má við eldsvoða .
1) Rgl. nr. 280/2014, 31. gr .
2) Rgl. nr. 977/2020, 59. gr.

14.11.2. gr .Lyftugöng, vélarrými og loftræsing

Lyftugöng í byggingum skal loftræsa þannig að flatarmál sjálfsogandi loftrásar sé að lágmarki 1% af flatarmáli lyftuganga. Óheimilt er að tengja loftrás frá lyftu við önnur loftræsikerfi í húsinu eða leggja aðrar lagnir í lyftugöng en þær sem tilheyra lyftunni, sbr. [reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur]2).
Vélarrými lyftu í byggingu skal eingöngu vera fyrir vélbúnað lyftunnar sbr.[reglugerð um lyftur og öryggisíhluti fyrir lyftur.]1)
Greiður aðgangur skal vera að klefa fyrir lyftuvél hvort sem hann er í þaki eða kjallara .
1) Rgl. nr. 669/2018, 8. gr.
2) Rgl. nr. 977/2020, 60. gr.

14.12. KAFLI. Rennistigar, sjálfvirkir hurða- og gluggaopnarar og annar tæknibúnaður

14.12.1. gr .Almennar kröfur

Rennistigar og allur sambærilegur búnaður í byggingum skal uppfylla reglugerð Vinnueftirlits ríkisins um vélar og tæknilegan búnað .
Allur tæknibúnaður innan og við byggingar sem er sjálfvirkur og/eða hefur vélræna stýringu skal ávallt uppfylla reglugerð Vinnueftirlits ríkisins um vélar og tæknilegan búnað .

Athugið að ef textanum hér ber ekki saman við reglugerðina á vef Stjórnartíðinda, þá gildir reglugerðin á vef Stjórnartíðinda. Skjalið er með uppfærðum breytingum sem samþykktar voru í desember 2012 sbr. reglugerð nr. 1173/2012, apríl 2013 sbr. reglugerð nr. 350/2013, mars 2014 sbr. reglugerð nr. 280/2014, apríl 2016 sbr. reglugerð nr. 360/2016, í júlí 2016 sbr. reglugerð nr. 666/2016, ágúst 2017 sbr. reglugerð 722/2017, í júní 2018 sbr. reglugerð 669/2018, í desember 2018 sbr. reglugerð 1278/2018 og í október 2020 sbr. reglugerð 977/2020.